BELGÍSKI barnaníðingurinn Marc Dutroux bar fyrir rétti í gær að hann væri óheppinn blóraböggull barnaníðingagengis.
BELGÍSKI barnaníðingurinn Marc Dutroux bar fyrir rétti í gær að hann væri óheppinn blóraböggull barnaníðingagengis. Fullyrti hann í vitnisburði sínum, á þriðja degi "réttarhalda aldarinnar" í Belgíu þar sem réttað er yfir Dutroux og meintum samverkamönnum hans, meðal annars að tveir lögreglumenn hefðu átt þátt í að ræna tveimur stúlkum sem hann er sakaður um að hafa rænt, nauðgað og myrt. Hann er alls ákærður fyrir að ræna og nauðga sex stúlkum og myrða fjórar þeirra.

Er þetta í fyrsta sinn sem Dutroux lýsir opinberlega því sem gerðist í þeirri hryllingsatburðarás sem haldið hefur belgísku þjóðinni hálflamaðri af hryllingi og hneykslan frá því málið tók að skýrast í ágúst 1996. Þá bjargaði lögreglan tveimur stúlkum, þá 12 og 14 ára, úr leynilegu herbergi í kjallara húss sem Dutroux átti og fann lík hinna fjögurra grafin í jörðu.

Dutroux ávarpaði réttinn innan úr skotheldum glerklefa. Lýsti hann sínum þætti í atburðarásinni. Í eina skiptið sem hann virtist við það að vikna í þriggja tíma löngum vitnisburðinum var þegar dómarinn bað hann að lýsa hvernig honum liði er hann minntist þessara atburða.

"Ég gerði mistök, ég drýgði jafnvel glæpi. Ef það bara væri hægt að fara aftur til þess sem var áður en...en það er ekki hægt," sagði hann.

Dutroux innréttaði falið kjallararými í húsi sínu sem dýflissu þar sem stúlkum var haldið og þær beittar ólýsanlegu kynferðislegu ofbeldi.

En maðurinn sem belgískir fjölmiðlar hafa nefnt "skrímslið frá Charleroi" neitaði aðild að morðunum á stúlkunum fjórum, og neitaði jafnframt að hafa átt nokkurn þátt í ráninu á tveimur átta ára stúlkum, en fréttir af örlögum þeirra vöktu á sínum tíma viðbjóð um allan heim.

Fullyrti Dutroux að meginsökin lægi hjá meðsakborningunum, þ. á m. eiginkonu hans, og hjá manni sem Dutroux sjálfur síðar drap. Lögmenn fórnarlambanna og eins meðsakborningsins, kaupsýslumannsins Michel Nihoul, hneyksluðust á því hvernig Dutroux reyndi að varpa sök á aðra.

Arlon. AFP.