Þorsteinn Hjálmarsson Diego fæddist í Reykjavík 4. ágúst 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu í Víðinesi 25. febrúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Fossvogskirkju 3. mars.

Við viljum skrifa nokkur orð um Þorstein Hjálmarsson. Það er erfitt að segja eitthvað í nokkrum línum um slíkan mann eins og Steina. Við systkinin höfum þekkt Steina frá því að við vorum lítil og sum frá fyrsta degi lífs okkar. Steini reyndist okkur í gegnum tíðina ómetanlegur. Með ráðum og dáð hvatti hann okkur til þess að gera það sem okkur dreymdi um. Þegar Númi bróðir okkar stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun að flytja til Svíþjóðar var hann sá sem hvatti hann mest til þess að gera það.

Steini eyddi mörgum stundum hjá okkur á Meistaravöllunum kvöld eftir kvöld að spila við okkur og stundum ansi langt fram á nótt. Það var oft ansi mikið fjör og hávaði, ekki síst í honum.

Hann hefur reynst frænku okkar, Æsku Björk, klettur í veikindum hennar, þrátt fyrir sín eigin veikindi, sem voru ansi mikil. Það var mikið á hann Steina lagt en hann réð ávallt við hlutina. Hann var ávallt kátur maður og vildi ekki heyra neitt væl.

Hann hefur í gegnum tíðina reynst okkur eins og besti faðir, slíkur var hugur hans til okkar, það var alltaf hægt að leita til Steina. Hinrik fór nokkrum sinnum með honum upp á spítala og þá var ekkert að honum að hans sögn. Hann gerði ávallt lítið úr sínum veikindum og var ósérhlífinn maður.

Við þökkum fyrir að hafa kynnst slíkum öðlingsmanni sem Þorsteinn Hjálmarsson var. Við sendum frænku okkar Æsku Björk okkar mestu samúðarkveðjur.

Númi Númason,

Ólafur Fjeldsted,

Sæmunda Fjeldsted,

Hinrik Fjeldsted.