6. ágúst 2004 | Íþróttir | 1106 orð | 1 mynd

"Ég er Íslendingur og valið var einfalt," segir landsliðsmaðurinn Kristján Andrésson sem "hryggbraut" sænska

Ævintýrið heldur áfram

Kristján Andrésson er að upplifa ævintýri í Aþenu.
Kristján Andrésson er að upplifa ævintýri í Aþenu. — Morgunblaðið/Þorkell
HANDKNATTLEIKSMAÐURINN Kristján Andrésson hefur aldrei leikið í efstu deild á Íslandi en er samt sem áður einn af 15 leikmönnum íslenska landsliðsins sem fer til Aþenu á næstu dögum á Ólympíuleikana sem fram fara í Grikklandi.
HANDKNATTLEIKSMAÐURINN Kristján Andrésson hefur aldrei leikið í efstu deild á Íslandi en er samt sem áður einn af 15 leikmönnum íslenska landsliðsins sem fer til Aþenu á næstu dögum á Ólympíuleikana sem fram fara í Grikklandi. Kristján er 23 ára og flutti ungur að árum til Svíþjóðar þar sem hann hefur búið frá átta ára aldri. Faðir hans, Andrés Kristjánsson, lék með íslenska landsliðinu á árum áður en Kristján sagði við Morgunblaðið á fyrstu æfingu sinni með landsliðinu eftir að valið á landsliðshópnum var gjört kunnugt að hann væri ekki enn búinn að uppgötva hvað biði hans á næstu vikum.

Ég er hreinlega ekki búinn að átta mig á þessu. Þetta hefur gengið ótrúlega vel og núna liggur leiðin til Grikklands á stærsta íþróttaviðburð heims," segir Kristján en hann hefur haldið íslenskunni ótrúlega vel við þrátt fyrir að aðeins faðir hans og móðir tali íslensku við hann á heimaslóðum. Kristján hefur leikið með GUIF í efstu deild í Svíþjóð undanfarin þrjú ár en liðið er frá bænum Eskilstuna sem er skammt vestur af höfuðborginni Stokkhólmi.

"Ég byrjaði frekar seint að æfa handbolta, var í fótbolta allt þar til ég fór á æfingu með vini mínum er ég var tólf ára. Eftir það varð ekki aftur snúið og ég hef verið í handboltanum síðan," segir Kristján en hann hefur ekki náð að leika mikið með liði sínu undanfarin þrjú ár vegna meiðsla. Hann er nú loksins laus við meiðslin og hefur náð sér vel á strik á æfingum og í vináttulandsleikjum íslenska liðsins undanfarnar vikur.

Tábrot og rifið krossband

"Það hefur verið mikið basl á mér vegna meiðsla undanfarin þrjú ár og í raun hef ég aðeins leikið í nokkra mánuði á hverju ári. Ég hef ávallt misst af undirbúningstímabilinu og ekki náð mér á strik fyrr en í byrjun ársins er tímabilið er hálfnað. Þá er erfiðara að komast að í liðinu og það hefur háð mér undanfarin ár. Fyrst brotnaði bein í litlu tánni og það þurfti að setja skrúfu til að spengja saman beinin. Það gekk vel í fyrstu en skrúfan gaf sig er ég fór að æfa á ný og beinið greri ekki rétt. Ný aðgerð var gerð í kjölfarið og lengri skrúfa sett í staðinn. Sú aðgerð heppnaðist vel þótt ég geti lítið sem ekkert hreyft tána, en ég finn ekki lengur til líkt og áður."

Kristján lenti síðan illa í leik með liði sínu og reif að hluta til aftara krossbandið í hægra hné.

"Í raun var ég heppinn að bandið skyldi hanga saman á nokkrum þráðum. Læknarnir sem sáu um mig settu mig í spelku og vonuðust til þess að bandið myndi gróa saman á tveimur til þremur mánuðum. Það tókst sem betur fer og ég slapp við að fara í viðamikla aðgerð. Ég er því bjartsýnn á að það gangi betur hjá mér í haust með GUIF. Þar leik ég sem leikstjórnandi og hef ávallt leikið þá stöðu, enda er ég ekki hávaxinn og ekki nógu skotfastur til að leika í skyttustöðunni."

"Vildi leika fyrir Ísland"

Kristjáni stóð til boða að leika með sænska landsliðinu sem unglingur er hann var boðaður á úrtaksæfingar fyrir úrvalslið unglinga og síðar var hann boðaður á æfingar með U-18 ára landsliði Svía. "Valið var í raun einfalt. Ég er Íslendingur og vildi leika fyrir Ísland. Það tækifæri fékk ég síðan hjá Einari Þorvarðarsyni sem stýrði U-18 ára landsliðinu á þeim tíma og síðan lék ég með U-21 árs landsliðinu. Í Svíþjóð er enn litið á mig sem útlending og í hjarta mínu vissi ég að ég ætti að velja Ísland."

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari boðaði Kristján til æfinga fyrir Flanders-æfingamótið fyrir tveimur mánuðum og átti Kristján ekki von á að verða í hópi þeirra sem færu til Aþenu.

"Þjálfarinn treystir mér"

"Ég hefði ekki trúað því ef einhver hefði sagt við mig fyrir Flandersmótið að ég yrði í lokahópi íslenska landsliðsins fyrir Ólympíuleikana í Aþenu. Þessi tími hefur verið gríðarlega góð reynsla fyrir mig, í raun ævintýri sem heldur vonandi áfram. Hér er ég að leika gegn og með mörgum af bestu leikmönnum heims. Ólafur Stefánsson og aðrir leikmenn sem búa yfir gríðarlegri reynslu hafa reynst mér vel. Samkeppnin er hins vegar mikil og það er ekkert gefið eftir á æfingum liðsins.

Að auki finn ég að þjálfarinn treystir mér í þau verkefni sem ég hef fengið að taka að mér. En fyrst og fremst er ég hluti af þessu liði og það er gríðarlega skemmtilegur andi í hópnum - þrátt fyrir að margir kynlegir kvistir skreyti það eins og endranær," segir Kristján, brosir breitt og lítur yfir landsliðshópinn sem er ýmist að teygja á vöðvum, skokka eða ræða saman í lok æfingarinnar.

Hann er var um sig er hann er inntur eftir framtíðardraumum sínum og hefur ekki leyft sér að láta sig dreyma um atvinnumennsku í sterkustu deildum Evrópu enn sem komið er. "Ég er ekkert að hugsa um slíkt í dag. Það eina sem ég hef sem markmið fyrir næsta vetur er að komast í gegnum eitt tímabil án þess að meiðast. Og síðan verð ég bara að sjá til hvert framhaldið verður."

Sumarfríið í vaskinn

Kristján á sænska unnustu sem leikur knattspyrnu á sumrin og hefur spilamennskan með íslenska landsliðinu breytt ýmsu um áætlanir þeirra.

"Reyndar var ég búinn að plana að fara með kærustunni í sumarfrí til Grikklands í haust, þar sem hún leikur knattspyrnu á sumrin og ég handbolta á veturna er erfitt að finna tíma sem hentar okkur báðum. En það lítur út fyrir að ég fari til Grikklands samt sem áður og er bara nokkuð sáttur við það. Hún veit vel að þetta er stórt tækifæri fyrir mig og um að gera að reyna að gera sitt allra besta eins og staðan er í dag."

"Föst skot frá pabba"

Eins og áður segir lék faðir Kristjáns með íslenska landsliðinu á árum áður og hefur Kristján lúmskt gaman af því að hafa skotið þeim "gamla" aftur fyrir sig nú þegar hvað fjölda landsleikja varðar.

"Ég er með átta leiki í farteskinu en pabbi sjö. Það verður því gaman að ræða þessa hluti þegar ég hitti hann næst. Hann hefur reyndar rætt mikið við mig í gegnum síma og sagt frægðarsögur frá því í gamla daga, en hann skoraði bara fimm mörk og ég hef náð átta mörkum. Hann var þó fljótur að ná mér niður á jörðina með því að segja að Logi frændi minn hefði skorað þrettán mörk á sínum ferli. En ég fæ vonandi tækifæri til þess að bæta við leikjum og kannski mörkum í framtíðinni," sagði Kristján Andrésson.

Þess má geta að Logi frændi Kristjáns er Logi Kristjánsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður úr Haukum, bæjarstjóri í Neskaupstað og formaður Breiðabliks, en hann lék tíu landsleiki.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.