23. október 2004 | Íþróttir | 182 orð | 1 mynd

Kristján með slitið krossband

Kristján Andrésson reynir að komast fram hjá Rússanum Dmitri Torgovanov á Ólympíuleikunum í Aþenu í sumar.
Kristján Andrésson reynir að komast fram hjá Rússanum Dmitri Torgovanov á Ólympíuleikunum í Aþenu í sumar. — Morgunblaðið/Golli
KRISTJÁN Andrésson, landsliðsmaður í handknattleik, slasaðist alvarlega á hné í vikunni og nú er ljóst að hann leikur ekki meira með Guif í sænsku úrvalsdeildinni í vetur.
KRISTJÁN Andrésson, landsliðsmaður í handknattleik, slasaðist alvarlega á hné í vikunni og nú er ljóst að hann leikur ekki meira með Guif í sænsku úrvalsdeildinni í vetur. Þar með er hann líka úr leik hvað íslenska landsliðið varðar en Kristján var í 15 manna landsliðshópnum sem lék fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Aþenu í sumar. Fremra krossbandið gaf sig í leik Guif gegn Hammarby í úrvalsdeildinni um síðustu helgi en það kom endanlega í ljós í læknisskoðun í vikunni. Að auki eru liðbönd sködduð.

Andrés Kristjánsson, faðir Kristjáns og fyrrum landsliðsmaður, staðfesti þetta við blaðið Eskilstuna-Kuriren í gær en Kristján vildi sjálfur ekki ræða um meiðslin við staðarblaðið. Reiknað er með að hann verði frá æfingum og keppni í 6-8 mánuði.

Kristján hefur verið mjög óheppinn með meiðsli en hann var fyrst kominn á fullan skrið í handboltanum fyrr á þessu ári eftir að hafa misst mikið úr á undanförnum þremur árum.

Hann reif meðal annars aftara krossband en það greri án þess að Kristján þyrfti að fara í viðamikla aðgerð, eins og fram kom í viðtali við hann í Morgunblaðinu fyrir Ólympíuleikana.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.