Tómas Árnason hættir í árslok BANKARÁÐ Seðlabankans hefur samþykkt að Tómas Árnason seðlabankastjóri láti af embætti í árslok. Tómas verður sjötugur á þessu ári.

Tómas Árnason hættir í árslok

BANKARÁÐ Seðlabankans hefur samþykkt að Tómas Árnason seðlabankastjóri láti af embætti í árslok. Tómas verður sjötugur á þessu ári. Það hefur verið venja í Seðlabankanum að bankastjórum sé gefinn kostur að sitja út það ár sem þeir ná sjötugu. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri lætur af starfi um mitt ár.

Tómas sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði ekki ákveðið hvað hann tæki sér fyrir hendur þegar hann léti af embætti. "Ég var starfandi lögmaður lengi og mér sýnist að ég muni hafa nóg að gera þegar ég hætti. Annars ræðst það mikið af heilsufarinu hvað menn hafa fyrir stafni við starfslok," sagði Tómas.

Tómas sagði að starfið hefði á margan hátt verið afar ánægjulegt, en að sama skapi ólíkt því sem hann hefði fengist við áður. Tómas var áður alþingismaður og ráðherra og framkvæmdastjóri Byggðasjóðs.