Bretland Fyrirtæki vongóð um efnahagsbata FORSVARSMENN breskra fyrirtækja eru bjartsýnir á að efnahagur í Bretlandi fari nú batnandi og sala og hagnaður fyrirtækja muni vaxa á næstunni. Þetta kemur fram í könnun sem Dun & Bradstreet Ltd. gerðu meðal 2.000...

Bretland Fyrirtæki vongóð um efnahagsbata

FORSVARSMENN breskra fyrirtækja eru bjartsýnir á að efnahagur í Bretlandi fari nú batnandi og sala og hagnaður fyrirtækja muni vaxa á næstunni.

Þetta kemur fram í könnun sem Dun & Bradstreet Ltd. gerðu meðal 2.000 breskra fyrirtækja skömmu fyrir áramót. Í könnuninni voru forsvarsmenn fyrirtækjanna beðnir um að gera spá um afkomu og rekstur fyrirtækis síns á fyrsta ársfjórðungi 1993 og bera saman við fyrsta ársfjórðung 1992.

Fram kemur að fjögur af hverjum tíu fyrirtækjum búast við betri afkomu á fyrsta ársfjórðungi, en í síðustu sambærilegu könnun áttu aðeins tvö af hverjum tíu von á batnandi afkomu. Það eru einkum fyrirtæki í Suður-Englandi og London sem líta framtíðina björtum augum en svartsýnust voru fyrirtæki staðsett í West-Midland, en það er eitt mikilvægasta iðnaðarsvæði Bretlands.

Niðurstaða könnunarinnar þykir benda til að von sé á langþráðum efnahagsbata á nýja árinu eftir lengstu niðursveiflu sem breskur efnahagur hefur lent í frá kreppunni miklu á fjórða áratugnum. Þó þykir ljóst að mörg fyrirtæki muni gefa upp öndina takist þeim ekki að sýna ýtrasta aðhald í fjármálastjórnun.

Ein meginástæðan fyrir bjartsýni breskra fyrirtækja er vonin um aukna sölu erlendis og er sú von byggð á miklu gengisfalli pundsins gagnvart öllum gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda.

Þrátt fyrir bjartsýni um efnahagshorfur eru fréttir um atvinnuhorfur í Bretlandi enn slæmar.