Stjórnun Stjórnendur þurfa að geta afsalað sér valdi Rætt við Þórð S. Óskarsson, vinnusálfræðing hjá KPMG Sinnu hf., sem segir að miklar breytingar séu framundan í stjórnun og starfsmannamálum fyrirtækja og stofnana HEFÐBUNDIÐ stjórnskipulag fyrirtækja er...

Stjórnun Stjórnendur þurfa að geta afsalað sér valdi Rætt við Þórð S. Óskarsson, vinnusálfræðing hjá KPMG Sinnu hf., sem segir að miklar breytingar séu framundan í stjórnun og starfsmannamálum fyrirtækja og stofnana HEFÐBUNDIÐ stjórnskipulag fyrirtækja er að breytast og það gerir kröfur um breyttan stjórnunarstíl yfirmanna og nýtt hlutverk undirmanna. Þetta er mat Þórðar S. Óskarssonar vinnusálfræðings hjá KPMG Sinnu hf. Hann segir að til að fyrirtæki geti brugðist hraðar við breytingum í umhverfi sínu sé nauðsynlegt að stjórnendur verði í ríkara mæli leiðbeinendur og þjálfarar. Valddreifing verði aukin og hópstarf eflt.

Þórður segir að með þátttökustjórnun eigi að auka ábyrgð og valdsvið þeirra starfsmanna sem best þekki vandamál fyrirtækisins, t.d. hjá þeim sem standa í framlínu þess. "Til að leysa aðkallandi vandamál eru þannig myndaðir þverfaglegir hópir sem fengin eru ákveðin völd svo að þeir geti leyst vandamálin. Valdið er hins vegar tekið frá þeim sem eru ofar í skipulaginu. Boðleiðirnar styttast og ákvarðanataka á að verða skilvirkari. Millistjórnendur eru ekki jafn þarfir og áður þar sem hóparnir hafa meira vægi í lausn vandamála. Í kjölfarið verður stjórnskipulag fyrirtækja flatara.

Í staðinn fyrir að stjórnendur séu einir með ákvörðunarvald og sjái alfarið um að stýra verkefnum þá verða þeir frekar leiðbeinendur og þjálfarar. Stjórnendur þurfa því að vera tilbúnir að gefa eftir svolítið af því valdi sem þeir hafa haft," sagði Þórður í viðtali við Morgunblaðið.

Hann telur að vegna þessa komi fram annað ríkjandi sjónarmið um hvernig starfsmenn séu ráðnir í störf. Ekki verði einungis leitað eftir starfsmönnum með faglega þekkingu heldur verði jafnframt lögð áhersla á að þeir séu móttækilegir fyrir breytingum, tilbúnir að taka þátt í hópstarfi og axla ábyrgð.

Aðspurður að hvort íslensk fyrirtæki væru farin að starfa eftir þessum hugmyndum sagði Þórður að svo væri þar sem nokkur fyrirtæki væru t.d. búin að taka upp gæðastjórnun. Í henni væri áhersla á þátttökustjórnun og vinnu í hópum. Enn væri þó ekki mikið um þessar áherslur hjá íslenskum fyrirtækjum.

Starfsmenn vilja aðhald

Þórður sagði hins vegar að mörg fyrirtæki væru að taka upp aðferðir frammistöðumats í stjórn starfsmannamála. Með frammistöðumati væri heppilegur farvegur fundinn til að gefa gagnlegar ábendingar til starfsmanna um þætti sem bæta mætti, hvernig ætti að umbuna og síðast en ekki síst væri frammistöðumatið grundvöllur að skoðanaskiptum milli yfirmanns og undirmanns.

"Frammistöðumat hefur verið að breytast og í staðinn fyrir að einblínt sé á einhliða mat yfirmanns gagnvart undirmönnum er nú frekar leitað eftir því að finna sameiginlegar leiðir til lausnar á aðsteðjandi vanda. Matið sem slíkt kemur af sjálfu sér þegar starfsmaðurinn tekur sem mestan þátt í því. Starfsmaðurinn á að setja sér markmið í samvinnu með yfirmanninum. Í mörgum fyrirtækjum eru samskipti á milli starfsmanna og yfirmanna takmörkuð en þetta "tæki" leiðir til þess að samskiptum sé haldið uppi og það er mjög jákvætt."

Þórður sagði að þau fyrirtæki sem tekið hefðu upp frammistöðumat létu mjög vel af því. Ekki síst starfsmenn þar sem þeim liði betur í því umhverfi þar sem betur væri fylgst með, þeim væri gefið aðhald og samskiptaleiðum haldið opnum. "Vandinn getur frekar orðið sá að stjórnendur séu of vanmáttugir til að stýra slíku frammistöðumati. Það sýnir að vanda þarf undirbúninginn mjög vel, t.d. um hvernig yfirmenn skuli hátta sínum samtölum við starfsmenn, en þau eru þungamiðjan í matinu."

Auk þess sem KPMG Sinna hf. vinnur að ráðgjöf á framangreindum sviðum aðstoðar fyrirtækið einnig við skipulagningu fræðslumála og um gerð og framkvæmd viðhorfakannanna á meðal starfsfólks. Einnig veitir fyrirtækið t.d. ráðgjöf við gerð starfslýsinga, starfsþróunar- og starfsmannaáætlana og ráðgjöf um val og ráðningar starfsfólks.

KPMG Sinna hf. er aðili að KPMG Management Consulting sem er eitt stærsta ráðgjafarfyrirtæki sinnar tegundar í heiminum. KPMG Sinna hf. starfar í nánu samstarfi við það fyrirtæki að stærri verkefnum.

Morgunblaðið/Kristinn

RÁÐGJÖF - Á myndinni er Þórður S. Óskarsson sem veitir ráðgjafarþjónustu KPMG Sinnu hf. forstöðu á sviði stjórnunar og starfsmannamála. Hann lauk BA-prófi í sálfræði frá HÍ árið 1976, MA-prófi 1978 og M.Sc.-prófi í iðnaðar- og skipulagssálfræði frá Stevens Instute of Technology í New Jersey árið 1982. Tveimur árum síðar lauk hann Ph.D-prófi í hagnýtri sálfræði frá Hofstra University í New York. Þórður hefur m.a. starfað hjá Pitney Bowes Corporation, Sameinuðu þjóðunum, New York-borg og við ráðgjafarstörf í Bandaríkjunum. Hann var áður starfsmannastjóri Eimskips í fjögur ár.