Jón Páll Sigmarsson - viðbót "Einstakur". Þetta orð lýsir því best hvern mann Jón Páll hafði að geyma. Nú horfum við á eftir góðum vini og félaga en í þessari miklu sorg reynum við að vera jákvæð og trúum því að nú fái aðrir að njóta krafta hans og hjartahlýju. Hann er lagður af stað í eitt af sínum fjölmörgu ferðalögum en í þetta sinn verður það lengra en vanalega.

Nú hafa þeir hist að nýju félagarnir Jón Páll og Jóhann sem lést á síðasta ári. Við sem eftir sitjum munum halda áfram að starfa í anda þeirra þar sem ávallt ríkti gleði, bjartsýni og hvatning.

Jóni Páli fylgdi þvílík orka og gleði að yfir öllu lifandi hvar sem hann kom. Hann var þeim hæfileika gæddur að geta komið öllum til að hlæja með einhverri skemmtilegri sögu af sér eða félögum hans, en þar var af nógu að taka. Jón Páll hafði þann fágæta kost að sjá það góða í fólki og lét sögusagnir og illar tungur um náungann sem vind um eyru þjóta og lét öllum finnast þeir vera sérstakir vinir hans. Fyrir utan það að hafa verið einstakur íþróttamaður á mörgum sviðum, var hann í huga okkar fyrst og fremst besti vinur sem nokkur getur hugsað sér.

Þótt hann kveðji okkur ungur að árum þá eru fáir sem hafa upplifað jafnmikið og farið eins víða og hann á stuttri ævi sinni hér á jörð. Það er margt sem kemur upp í huga okkar sem við vildum segja en við munum minnast í bænum okkar.

Að lokum viljum við votta unnustu hans, foreldrum, systkinum og syninum Sigmari Frey dýpstu samúð okkar.

Elsku Jóhann Möller, missir þinn er mikill og við biðjum góðan Guð að styrkja þig í þessari miklu sorg.

Inga Sólveig, Guðmundur, Björg og Guðrún.