Minning Sveinn Ólafsson bóndi, Snælandi Nú þegar afi er dáinn leita minningarnar á hugann og þýðing þess að hafa alist upp í nánu sambýli við hann og ömmu á Snælandi. Barnabörn afa og ömmu eru sjö og öll vorum við í miklu og nánu sambandi við þau, því börn þeirra og tengdabörn reistu heimili í túngarðinum á Snælandi.

Það að fá að vera svo ríkur þátttakandi í lífi og starfi afa og ömmu, gleði þeirra og sorgum er eitt mesta lán okkar í lífinu.

Afi dáði ömmu og hjónaband þeirra einkenndist af gagnkvæmri virðingu. Þau greindi oft á, en þau reyndu aldrei að breyta hvort öðru.

Eftir að aldurinn fór að setja mark sitt á afa sinnti amma honum af þeirri virðingu og umhyggju sem einkenndi þeirra samband.

Snæland var mjög gestkvæmt heimili og oft kom fyrir að heimsóknirnar stóðu í mánuð eða jafnvel ár.

Þeir sem urðu fyrir háði og spotti annarra sem betri töldu sig, gistu gjarnan lengi og komu oft. Þeir fundu sér athvarf á Snælandi.

Þegar gesti bar að garði gleyptu barnseyrun í sig sögur frá Borgarfirði eystra þar sem afi ólst upp hjá Þórunni fóstru sinni og bjó með ömmu þar til þau fluttust suður.

Barnsaugun fylgdust grannt með þegar karlarnir slógu í borðið í áköfum lomberspili.

Barnsmunnurinn gleypti í sig súrmatinn sem amma bar á borð fyrir gesti.

Barnsnefið fékk tókbakskorn hjá afa eins og hinir karlarnir.

Barnshugurinn varð stoltur þegar hann fékk greitt út lambsverðið sitt á haustin.

Barnshjartað tók eftirvæntingarkipp þegar afi söng ljósið.

Afi var glaður maður í glöðum hópi, en honum leið líka vel einum með sjálfum sér. Hann var ánægður við gegningarnar í svínahúsinu með útvarpið hangandi utan á sér og tóbaksdósirnar í vasanum.

Afi var nýtinn maður en örlátur. Þegar búið var að raka saman öllu heyi á túnunum með rakstrarvélinni og okkur yngra fólkinu þótti vel hafa tekist til rakaði afi gjarnan yfir með hrífunni sinni til að ná þeim dreifum sem eftir lágu. Lífið kenndi honum að síðasta dreifin gat verið sú sem máli skipti á hörðu vori.

Afi var mjög sæll af sínu og á kvöldin þegar hann var skriðinn upp í talaði hann oft um lán sitt að fá að hafa afkomendur sína, líf og fjör í kringum sig. - Víst er það, svaraði amma þá gjarnan.

Afkomendurnir feta nú lífsins veg eins og Halla kerlingin framan eftir göngunum.

Með breytni sinni kenndi afi okkur vísdóm sem er okkur mikilvægur, hann kveikti ljós, langt og mjótt eins og logi af fífustöngunum.

Afi kenndi okkur mikið af vísum og ef hann rak í vörðurnar fyllti amma upp í eyðurnar.

Hann kunni vísur sem hentuðu við öll tækifæri og þessa hefði hann kannski farið með í dag:

Þegar ég skilst við þennan heim

þreyttur og elliboginn

ætla' ég að sigla árum tveim

inná sæluvoginn.

Þökk fyrir allt, afi minn.

Vilmar, Guðný,

Guðrún og Þórunn.