Ásgerður ­ viðbót Amma mín elskuleg sofnaði vært inn í eilífðina þriðjudaginn 19. janúar. Hún hefði orðið 99 ára í maí. Söknuðurinn er ekki síður sár þótt aldurinn sé hár. Samt veit ég að hvíldin var henni kærkomin. Um nokkurt skeið var það einungis sterkt hjarta sem sló taktfast í gömlum, lúnum líkama.

Amma mín var síðasti tengiliður minn við aldamótakynslóðina, líf hennar og kjör. Við fráfall hennar finnst mér verða kaflaskipti í tilverunni. Hún verður aldrei söm. Amma mín er í mínum huga holdgerving "ömmunnar" sem börn nútímans koma aldrei til með að kynnast. Fallegt, þykkt, grátt hárið sem hún fléttaði í tvær fléttur og vafði í kórónu um höfuðið. Upphluturinn sem hún klæddist við hátíðleg tækifæri. Hún lagði alla tíð mikið upp úr því að vera fín, puntuð og vel til höfð. Prjónarnir sem léku ótt, títt og viðstöðulaust í höndum hennar. Hvílík fimi! Þeir eru ótaldir sokkarnir og vettlingarnir sem héldu hita á höndum og fótum afkomenda hennar.

Amma mín var sveitakona. Hún átti mörg börn, sá um stórt heimili, sinnti uppeldi og skepnum, gekk til allra starfa sem þurfti jafnt utanhúss sem innan. Hún var fyrst upp á morgnana og síðust í rúmið á kvöldin. Vinnudagurinn var langur og strangur. Þægindum var ekki fyrir að fara. Í eyrum velferðarbarnsins létu sögurnar af lífinu í sveitinni, sem hún var ósínk á, eins og óblíð veður sem leita yrði skjóls undan. Það átti amma bágt með að skilja. Að vísu hafði stundum verið dálítið erfitt, en ekkert til að tala um. Svona var lífið í þá daga.

Amma mín fluttist ásamt afa Bergþóri á mölina, til Reykjavíkur. Þaðan man ég fyrst eftir henni. Þær voru ófáar heimsóknirnar á Laugaveginn í heitt súkkulaði, pönnsur og kleinur hjá ömmu og afa. Skemmtilegast þótti mér þegar amma tók upp harmónikkuna, þandi hana og kreisti og söng undir. Svo hló hún kæfðum hlátri og andlitið afskræmdist allt í stórri hlátursgrettu. Hún var hláturmild og með gott skopskyn.

Amma mín dvaldist síðustu æviárin á Hrafnistu og undi dvölinni hið besta. Hún var afar félagslynd og tók þátt í öllu sem í boði var á Hrafnistu. Hún var svo upptekin að oft þurfti maður frá að hverfa og koma aftur síðar þegar frí var frá spilamennsku, söngæfingu, föndri eða einhverju öðru. Hún naut lífsins verulega þessi fyrstu ár á dvalarheimilinu. En árin fuku fram og smám saman tók líkaminn að gefa sig. Fæturnir, heyrnin, sjónin, fingurnir sviku og gerðu henni að lokum ókleift að vera virkur þátttakandi í lífinu. Það hefur örugglega verið henni mikil þraut. Undir það síðasta sat hún næsta hreyfingarlaus og aðgerðalítil í hjólastólnum sínum. Andlitið svo slétt og fallegt. Hárið stuttklippt og fagurgrátt, ávallt vel greitt. Hendurnar fíngerðar og beinaberar lágu aðgerðalausar í kjöltu hennar. Hún var orðin þreytt, uppgefin. Hún bara sat og beið. En hjartað sló, sterkt og taktfast. Nú er sá sláttur hljóðnaður. Að eilífu. Næstum aldarlangri ævi er lokið.

Við syrgjum hana öll, kjarnakonuna hana ömmu, og þökkum henni fyrir allt það sem hún hefur gefið okkur.

Megi amma mín elskuleg hvíla í friði.

Jórunn Tómasdóttir.