Minning Geir S. Björnsson fv. prentsmiðjustjóri Fæddur 6. desember 1924 Dáinn 21. janúar 1993 Andlát Geirs S. Björnssonar kom síður en svo á óvart. Þó vonaði ég alltaf innst inni að þessi glaðværi og hugrakki maður myndi rífa sig upp úr meininu. En raunveruleikinn í lífs-gangverkinu varð auðvitað óskhyggjunni yfirsterkari.

Ég hef þekkt Geir frá því við vorum strákar í Barnaskóla Akureyrar, enda jafnaldrar.

En mest og best urðu kynnin þegar ég gerðist starfsmaður POB á öndverðu ári 1966, en þar var Geir prentsmiðjustjórinn. Á þessum POB-árum mínum varð ég trúnaðarmaður norðlenskra prentara gagnvart Hinu ísl. prentarafélagi og hafði því töluverð samskipti við prentsmiðjustjórann út af ýmsum þeim félagslegu vandamálum sem alltaf kom upp þar sem margt fólk vinnur.

Mér er ljúft að votta að öll samskipti mín við Geir, og aðra ráðamenn prentsmiðjunnar, einkenndust af fyllsta drengskap þeirra. Alltaf var reynt að leysa vandamálin áður en þau fóru í harðan hnút.

Enginn sem þekkir til fagmálefna í prentiðnaðinum dró í efa hæfni og þekkingu Geirs á því sviði. Honum nægði ekki að vera útskrifaður prentari frá hinni þekktu prentsmiðju föður síns og afa, heldur hélt hann til Bandaríkjanna til frekara náms í fræðunum eftir stúdentspróf frá MA og háskólapróf hér heima. Rochester Institute of Technologi hét háskólinn sem hann nam prentfræðin við og útskrifaðist þaðan 1949 eftir nokkurra ára nám.

En ekki lét hann sér nægja að koma heim aftur bara með hina hefðbundnu og raunar alþjóðlegu prenttækni í farteskinu, heldur fór hann aftur til náms í Bandaríkjunum 1954 til Fairchild í New York þar sem hann lærði prentmyndagerð á Scan-A-Grave elektróníska prentmyndagerðarvél og kom heim með fyrstu vél þeirrar tegundar til Akureyrar. Þessi myndamótavél var í rauninni alger bylting í prentiðnaðinum og leysti eiginlega alla myndþörf bóka og tímarita, auk ýmislegs annars sem POB prentaði um áratugi, eða allt þangað til hin nýja offset-prenttækni leysti hana af hólmi.

Árið 1959 sótti Geir alþjóðlegt námskeið fyrir bókaútgefendur í London á vegum British Council.

Það er því alveg óhætt að fullyrða að hinn ungi prentsmiðjustjóri var vel menntaður í hinum faglegu þáttum prentunar og bókaútgáfu.

Þessi ágæta og praktíska menntun fann sér líka farveg í miklum faglegum metnaði. Öll prentun, hönnun og frágangur prentgripa frá POB var landskunn. Og nafn Geirs varð eins konar vörumerki fyrir fyrsta flokks frágang á bókum og öðrum prentgripum. Ég held ég geti fullyrt að hann hafi aldrei látið neitt fara frá prentverkinu sem ekki stóðst kröfur hans.

Eitt með öðru, sem má nefna í sambandi við bókaútgáfuna, var að Bókaforlag Odds Björnssonar gaf aldrei svo út fræðibók að henni fylgdi ekki ýtarleg nafnaskrá. Þetta tel ég til einstakrar fyrirmyndar og eykur stórlega verðmæti bókarinnar. Mér er kunnugt um það að þetta framtak var fyrst og fremst Geirs.

Þegar samvinna okkar Geirs hófst við tímaritið Heima er best á sínum tíma fann ég hversu mikill smekkmaður hann var á mál og stíl og ég hef haldið því fram að hann hafi erft bókmennta-genið úr föðurættinni. Aldrei skrifaði hann þó neitt eða samdi bókmenntakyns svo mér sé kunnugt. Þó mætti geta þess að fyrir nokkrum árum tók hann upp á því fyrir sjálfan sig að búa til registur yfir öll mannanöfn sem nefnd voru í hinum fjölbreyttu greinum Heima er best. Hann var kominn býsna langt með þetta einstæða verk sitt sem mér er til efs að finnist nokkurs staðar í veröldinni enda sennilega hvergi hægt að gera nema á Íslandi.

Geir S. Björnsson var fæddur 6. desember 1924 á Akureyri og því 68 ára gamall. Hann var sonur Sigurðar O. Björnssonar prentsmiðjustjóra og fyrri konu hans Maríu Kristjánsdóttur.

Geir kvæntist bandarískri konu, Anitu, fæddri Saur, og eignuðust þau þrjú börn, tvær dætur og son, og eru þau öll uppkomin.

Ég votta Anitu, börnunum og öðrum venslamönnum mína dýpstu hluttekningu.

Ég ætlaði ekki að hafa þetta löng eftirmæli en fann hvöt hjá mér til að kveðja þennan hæfileikaríka samferðamann og jafnaldra hinstu kveðju með þakklæti fyrir kynnin.

Ég sakna hans sárlega.

Eiríkur Eiríksson.