Skakki kjöthleifurinn hennar Hönnu

Fallegi skakki kjöthleifurinn hennar Hönnu.
Fallegi skakki kjöthleifurinn hennar Hönnu. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Svikinn héri, sem sumir kalla kjöthleif, hefur ávallt notið mikilla vinsælda hér á landi og er ótrúlega einfaldur og góður réttur og hráefniskostnaðurinn ekki mikill. Hér er uppskrift úr safni Hönnu Thordarson keramiker sem er ótrúlega lagin við að töfra dýrindis kræsingar úr gömlum uppskriftum. Þessi uppskrift kemur frá mömmu hennar og Hanna gerir kjöthleifinn svo fallegan og ber hann fram þannig að hann fangar augu og munn. Hún kallar hann skakka kjöthleifinn. Fleiri girnilegar uppskriftir er að finna á uppskriftasíðu hennar hér.

Skakki kjöthleifurinn

  • 1200 g hakk (½ svína- og ½ nautahakk)
  • Rúml. 2 dl raspur
  • 4 dl mjólk
  • 3 tsk. salt
  • 2-3 tsk. pipar
  • 1-2 egg
  • 1 bréf beikon
  • Fryst grænmeti að eigin vali t.d. maís og/eða grænar baunir
  •  -2 kg hráar kartöflur

Aðferð:

  1. Blandið saman mjólk og rasp í hrærivélarskál og látið standa í 10 mínútur.
  2. Hitið ofninn í 180°C.
  3. Bætið hinu hráefninu í skálina og hrærið saman.
  4. Setjið í ofnskúffu og mót eins og brauðhleif.
  5. Raðið beikoni yfir kjöthleifinn.
  6. Raðið kartöflum í kring.
  7. Bak í rúman klukkutíma.
  8. Gott að setja smá vatn í lokin í skúffuna.
  9. Setjið kjöthleifinn á bretti.

Sósa með kjöthleif

  • 6-7 dl soð, u.þ.b. 2 msk. af kjötkrafti (svína-, nauta- eða lambakrafti)
  • 3-4 msk. sósuþykkni (t.d. brúnn jafnari frá Maizena) eða 1 dl hveiti og   dl vatn (hrist – vatn sett á undan)
  • 2-3 dl matreiðslurjómi, rjómi eða nýmjólk
  • Pipar, salt og sæta eins og t.d. rifsberjasulta eftir smekk
  • Þurrkaðir sveppir (t.d. Kóngssveppur mulinn í morteli eða klipptir niður) – gefur gott bragð en má sleppa
  • Sigtað soð af kjöthleifnum

Aðferð:

  1. Hitið vatn að suðu og bætið við kjötkrafti (svína-, nauta- eða lambakrafti).
  2. Ef hveiti og vatn er notað til að þykkja setjið þá vatn í hristiglas og bætið hveiti út í og hristið.
  3. Takið pottinn af hellunni og hellið hveitiblöndunni í pottinn í mjórri bunu um leið og hrær í með pískara. Ef sósujafnari er notaður bætið honum þá við soðið og hrær með pískara.
  4. Setjið hita undir pottinn aftur og hrærið í þar til sósan fer að þykkna.
  5. Bætið þá rjóma eða nýmjólk við.
  6. Bragðbæt með salti, pipar, sætu eins og t.d. rifsberjasultu eftir smekk og ástríðu.
  7. Gott að setja soðið, sem rennur af kjöthleifnum, í sósuna.
  8. Einnig má sigta soðið, sem kemur úr ofnskúffunni, og nota það.
  9. Berið kjöthleifinn fram með fersku salati eða því sem ykkur finnst passa með.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert