Helga Magga heldur áfram að toppa sig

Helga Magga búin að toppa sig enn og aftur en …
Helga Magga búin að toppa sig enn og aftur en hún útbýr einfaldasta kjúklingaréttinn í bænum sem allir ættu að geta leikið eftir. Samsett mynd

Nú er konudagurinn handa við hornið, sunnudaginn 25. febrúar, og í tilefni þess eru margir farnir að undirbúa kræsingar til að bjóða sinni konu upp á. Helga Magga, heilsumarkþjálfi og rómantíker með meiru, hefur farið á kostum undanfarið í eldhúsinu og gerði rómantískan Valentínusar-graut á dögunum. Nú er hún búin að toppa sig enn og aftur en hún útbýr einfaldasta kjúklingaréttinn í bænum sem allir ættu að geta leikið eftir og komið sinni konu á óvart með. Hún er svo sannarlega sniðugri en flestir.

Hér fyrir neðan getið þið séð hvernig Helga Magga útbýr þennan ljúffenga og einfalda kjúklingarétt sem getur glatt konuhjartað.

Konudagskjúklingarétturinn hennar Helgu Möggu

  • 1 msk. olía
  • 750 g kjúklingabringur (750 g)
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 100 g sólþurrkaðir tómatar (10 -12 stk.)
  • 360 g risotto hrísgrjón
  • 900 ml kjúklingasoð úr brúsa
  • 200 ml matreiðslurjómi
  • 1 tsk. hvítlaukskrydd
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • 1 tsk. timian (krydd)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Fersk basilíka, magn eftir smekk, skorin niður og sett yfir á hvern disk
  • Parmesan-ostur til að rífa yfir réttinn þegar hann er borinn fram

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera kjúklinginn í bita, steikið hann upp úr olíunni og steikið hann í gegn. Kjúklingurinn er kryddaður til með salti, pipar, hvítlauk, papriku og timian.
  2. Skerið sólþurrkuðu tómatana í bita ásamt hvítlauknum, bætið þessu tvennu út á pönnuna og steikið áfram í um tvær mínútur.
  3. Hrísgrjónunum er svo bætt út á pönnuna ásamt 900 ml af kjúklingasoðinu.
  4. Blandið þessu saman, setjið lok á og látið þetta malla á miðlungs hita í um 20 mínútur. Gott að hræra einu sinni í þessu eftir um tíu mínútur.
  5. Þegar 20 mínútur eru liðnar ættu hrísgrjónin að vera soðin.
  6. Blandið þá matreiðslurjómanum út í réttinn og berið fram.
  7. Gott að setja ferska basilíku yfir á hvern disk ásamt rifnum parmesan-osti.
  8.  Með þessu er gott að bera fram hvítlauksbrauð eða nan-brauð ásamt fersku salati.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert