Að drekka flugelda og borða blóm

Sigríður Soffía Nielsdóttir Sigríður Soffía Níelsdóttir er einstaklega hæfileikaríkur listamaður …
Sigríður Soffía Nielsdóttir Sigríður Soffía Níelsdóttir er einstaklega hæfileikaríkur listamaður og það sem einkennir list hennar sérstaklega er hvernig hún tengir saman dans, drykki og ætisblóm. Ljósmynd/Marino Thorlacius

Sigríður Soffía Níelsdóttir, alla jafna kölluð Sigga Soffía, er einstaklega hæfileikaríkur listamaður og það sem einkennir list hennar sérstaklega er hvernig hún tengir saman dans, drykki og ætisblóm.

Eitt af helstu áhugamálum hennar er að elda og borða góðan mat en þó segist hún ekki vera vera hefðbundinn kokkur, meira svona ástríðu-hamfarakokkur sem kunni ekki að fara eftir uppskriftum.

Sigga Soffía á langan feril í eigin listsköpun en er danshöfundur í grunninn. Það má segja að hún sé þverfaglegur listamaður. Hún er óhrædd við að flakka á milli listforma í bland við nýsköpun, vöruhönnun og ritstörf. Hún hlaut í febrúar síðastliðnum nafnbótina bæjarlistamaður Seltjarnarness, sem er verðskuldaður heiður fyrir listsköpun hennar til samfélagsins. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og sótti skiptinám við einn fremsta sirkusskóla Evrópu; Ecole Superior des Arts de Cirque í Brussel. Hún útskrifaðist með MBA-gráðu frá HR 2021 og er með einkaflugmannspróf frá Flugskóla Íslands frá 2015 svo fátt sé nefnt.

Sigga Soffía stofnaði árið 2020 sitt eigið nýsköpunarfyrirtæki, Eldblóm, sem …
Sigga Soffía stofnaði árið 2020 sitt eigið nýsköpunarfyrirtæki, Eldblóm, sem býður upp á vörur og upplifanir tengdar dansi. Nýjasta verk hennar er Eldblóm. Ljósmynd/Marino Thorlacius

Elskar að elda og borða góðan mat

Aðspurð segist Sigga Soffía vera mikill matgæðingur. „Ég elska að elda og borða góðan mat. Það er stærsta áhugamál mitt. En ég er ekki svona glæsilegur Instagram-kokkur; ég er meira hamfara-ástríðukokkur. Ég get ekki fylgt uppskrift, ég geri aldrei sama matinn tvisvar nema breyta einhverju, ég skrifa ekkert niður og gleymi flestu sem ég geri, og verð mjög matsár ef ég geri vondan mat. En ég elska að fylgjast með svona fagmönnum í eldhúsinu, ég dáist að aganum og fagmennskunni í alvöru eldhúsum.

Að elda mat er svo mikil list í bland við efna- og eðlisfræði. Ég tek stundum eina uppskrift fyrir og vinn með hana í nokkur skipti til að ná fram einhverju sem mér finnst mikilvægt. Til dæmis tók ég ástarpunga fyrir síðasta sumar og gerði þá sex sinnum yfir sumarið með nýjum viðbótum, skoðaði áferð og bragðeiginleika. Kampavín og ástarpungar eru stórkostlegur dúett. En þeir verða að vera nýsteiktir og stökkir, dagsgamlir eru ekki málið. Í þeim eru muldar kardimommur og appelsínubörkur og eins lítið hveiti og ég kemst upp með án þess að þeir splundrist í djúpsteikingarfeitinni.“

Sigga Soffía bjó lengi vel í Belgíu og kynntist því þá hve mikil sælkeraborg Brussel er. „Ég bjó í nokkur ár í Brussel, sem er mikil sælkeraborg, og er mikil áhugamanneskja um súkkulaði í kjölfarið, mér finnst frönsk matargerð og eftirréttarhefðir æðislegar. En íslensk matarmenning er svo dýrmæt, mér finnst mjög gaman að að gera fimm kílóa rúgbrauðshleif með skötunni um jólin, steikja og skera út laufabrauð, sulta og tína ber. Að vera úti í sveit og nota staðbundin hráefni, sækja fisk í sjóinn, geta farið út í gróðurhús og náð í krydd.

Ég fór með vini mínum fyrir vestan að tína kúfskel og krækling. Það var alveg stórkostlegt að vera í vöðlum með ískaldar hendur með tvær Macintosh-dollur fullar af snjó að raða kræklingi eins og á frönsku veitingahúsi í dollurnar. Svo vorum við í sex klukkustundir að hreinsa hrúðurkarla og pússa skeljarnar áður en ég eldaði skeljar á þrjá vegu. Þegar það er búið að hafa virkilega fyrir máltíðinni verður hún enn betri, jafnvel ógleymanleg. Það er svo dýrmætt að hafa svo óspillta náttúru að hægt er að borða beint úr nærumhverfinu.

Vestfirðirnir fylla mig innblæstri og nú er ég búin að vinna í tvö ár að drykk sem er úr íslensku náttúrunni í bland við flugeldablómin,“ segir Sigga Soffía dreymin á svip.

Sigríður Soffía sér fegurðina í blómunum og dansinum.
Sigríður Soffía sér fegurðina í blómunum og dansinum. Ljósmynd/Marino Thorlacius

Að drekka flugelda og borða blóm

Sigga Soffía stofnaði árið 2020 sitt eigið nýsköpunarfyrirtæki, Eldblóm, sem býður upp á vörur og upplifanir tengdar dansi. Nýjasta verk er Eldblóm en drykkurinn Eldblóma elexír var kynntur til leiks fyrir tveimur árum og er nú á lokastigum framleiðslu.

Segðu okkur aðeins frá ástríðu þinni í listsköpun og hvernig þú hefur verið að tengja matariðnaðinn í hönnun þína.

„Ég hef unnið við flugeldasýningagerð og leikhús síðustu árin en hef leyft sjálfri mér að elta alla anga verkefna minna og látið þá leiða mig áfram á nýjar slóðir. Byrjunin á þessu ævintýri var þegar ég áttaði mig á tengingunni milli flugelda og blóma, að flugeldar voru upphaflega innblásnir af ákveðnum blómum og fles allir flugeldar eru í laginu eins og dalía, bóndarós eða lilja. Ég gerði verkið Eldblóm, dansverk fyrir flugelda og flóru á listahátíð í Reykjavík þar sem ég var að annars vegar að „rækta“ flugeldasýningu eftir sáningarforskrift og síðar sprengja sömu blóm í formi flugelda á Menningarnótt.“ Blómainnsetning henar Siggu Soffíu var afar táknræn og vakti verðskuldaða athygli, en um var að ræða 8.000 bleik blóm sem sprungu út allt sumarið. „Blómainnsetningin í hallargarðinum sprakk út og það voru litrík blómablöð fjúkandi í litríkar agnir eftir að blómin hafa sprungið út en ég áttaði mig þá á því að öll blómin eru líka æt! Þá kviknaði í hausnum á mér og ég fékk svo margar hugmyndir samtímis,“ segir Sigga Soffía innblásin orku.

„Ég hóf tilraunaverkefni þar sem ég og Foss Distillery prófuðum að vinna með 20 blómategundir úr blómabeðinu til að finna það sem bragðaðist best. Crysanthemum chispa kom gríðarlega vel út og við fengum Espiflöt til að rækta blómið á eiturefnalausan hátt fyrir vínframleiðsluna. Vínandinn er unnin úr Chrysanthemum chispa en fyrsti flugeldurinn sem hannaður var í formi blóms var gerður árið 1926 og það var einmitt Chrysanthemum. Náttúruleg hráefni ýta svo undir blómabragðið, sem er raunverulega einstakt, jarðtóna bragð. Hráefnin í drykknum eru blóðberg og rabarbari frá sunnanverðum Vestfjörðum. Drykkurinn er kallaður Hinn íslenski spritz, en hægt er að hella Eldblóma elexír út í þurrt kampavín.“

Sigríður Soffía býður upp á vörur og upplifanir tengdar dansi.
Sigríður Soffía býður upp á vörur og upplifanir tengdar dansi. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Fljótandi samtímadans – lofar frumlegum danshreyfingum á þriðja glasi

Sýningarnar hennar Siggu Soffíu hafa vakið verðskuldaða athygli og hvernig hún nær þessum töfrum er aðdáunarvert. „Aðalgrínið og ekki grínið á viðburðunum er að þar sem blómin springa eftir ákveðinni röð mætti segja að blómið sé „dansari“ og þar sem bæði vestfirskur rabarbari og blóðberg eru handtínd af samtímadönsurum og á flöskunni stendur „smakkað og pakkað af ballerínum“ viljum við meina að það sé há prósenta af samtímadansi í flöskunni. Drykkurinn er kallaður „Liquid choreography“ og við lofum frumlegum samtímadanshreyfingum á þriðja glasi.“

Drykkurinn Eldblóm.
Drykkurinn Eldblóm. Ljósmynd/

Matarupplifun á veitingastað sem hefur fengið sjálfstætt líf sem leiksýning

Býður þú fólki að koma til þín og njóta þessa gjörnings?

„Já, mjög óvænt er þetta líklega sú sýning sem ég hef sýnt oftast á ferlinum, hún hefur öðlast sjálfstætt líf sem leiksýning og hlaut heilsíðugagnrýni í Morgunblaðinu sem viðburður sem dansar á mörkum uppistands, danssýningar og matarupplifunar. Eldblómaupplifun hefur verið flutt fyrir yfir 1.000 manns á Íslandi og um 500 manns í Prag, Árósum og Kaupmannahöfn og hefur nú fast heimili á veitingahúsinu Héðni.“

Hvernig lýsir þúj þessari sýningu eða öllu heldur upplifun?

„Þetta er svona eins og uppistand með þremur mögnuðum kokkteilum byggðum á Eldblóma elexír, ég segi sögur og svo er danspörun í lokin, hvaða hreyfingar passa vel við hvaða mat, og ég legg áherslu á að kenna fólki hvernig er best að dansa með kampavínsglas. Næsti Eldblómaviðburður er á Héðni 21. mars klukkan 18:30 og hægt er að bóka á Dineout.“

Drykkurinn hennar Siggu Soffíu er síðan grunnurinn að áframhaldandi matarþróun. „Ég var að hefja tveggja mánaða vinnustofudvöl í Hönnunarsafni Íslands, Listasafnið á röngunni. Vinnutitilillinn er Eldblóm – Hvernig dans varð vöruhönnun og er að vinna að matarhönnun þar. Ég er að vinna með æt blóm, nánar tiltekið flugeldablómin – Eldblóm, chrysanthemum, sakura, bóndarós, dalíur og önnur ætiblóm í bland við vestfirsk bragðefni. Ég er að skapa óvanalega dansandi kokkteila. Í viðburðinum sem ég er með á Héðni höfum við skapað þrjá kokkteila, Kir Natural, sem er eins og Kir Royal nema íslensk útgáfa, hinn íslenski spritz og síðasti drykkurinn í Eldblómaupplifun er til dæmis sorbet-ís sem er uppskrift sem ég hef unnið að með kokkunum á Héðni þar sem kampavíni er hellt yfir. Þetta er hugsað sem drykkir sem auðvelt er að gera heima hjá sér. Ég er mjög áhugasöm um forskriftir og að búa til list sem fólk getur vafið inn í hversdagsleikann hjá sér. Að ráðast á þvottafjallið er svo miklu huggulegra með fallegan drykk í hönd.“

Fullvinnsla hráefna

„Greipbörkur er notaður í víngerðina með Foss Distillery og ég fer með aldinkjötið til kokkana á Héðni og þeir gera sorbet úr því. Á Hönnunarsafninu er ég að gera tilraunir með eftirrétti, kokkteila, kökur og gamlar hefðir og skoða hvernig er hægt að endurbyggja vörur með nýjum innihaldsefnum. Þetta verður síðan kynnt á viðburði á Hönnunarmars í ár. Ég er að skoða nýja ramma. Ég er að vinna nokkrar vörur í einu en þær sem munu komast lengst gegnum prófanir og ná að vera inni í konseptinu verða frumsýndar, matur sem getur dansað, eða sprungið/lekið út eða hægt er að kveikja í á einhvern hátt. Þróunarvinnan gengur mikið út á hversu mikið af rotvarnar- og stilliefnum er hægt að fjarlæga úr matvöru án þess að hún verði of óstöðug fyrir framleiðslu.“

Að sögn Siggu Soffíu verður ákveðið leiðarstef á Eldblóm-Hönnunarmars á Hönnunarsafni Íslands. „Ég að vinna matvöru úr Eldblómunum eða drykknum og að skoða hvernig hægt er að framleiða vörur á heilnæmari hátt. Mér finnst gaman að geta notað Eldblóm til að starta samtali, ég vil t.d. að drykkinn þurfi að geyma í ísskáp eftir opnun í stað þess að fylla hann af rotvarnarefnum til að tryggja 8 ára hillulíf, ég tel að mín kynslóð kalli eftir betri framleiðsluháttum. Ég hef mikinn áhuga á reglum og römmum í matvælaiðnaði og þá sérstaklega þá flóru af krabbameinsvaldandi rotvarnarefnum sem leyfð eru. Rammar virðast í mörgum tilfellum sniðinn að verksmiðjum og skilvirkni véla frekar en líftíma viðskiptavinar. Ef framleiðendur yrðu skikkaðir til að innbyrða eigin vöru tel ég að ansi margt myndi breytast.“ 

Hvaðan færðu innblásturinn í alla þessa sköpun?

„Einhver á veraldarvefnum sagði að allir séu fæddir listamenn, svo aflærum við sköpunargáfuna mismunandi hratt. Hættum að fá hugmyndir, stoppum leikgleðina, hættum að sjá möguleika og gleðjumst með ramma. Á síðustu árum hef ég áttað mig á því að ég þarf ekki að þjást til að búa til list, að erfiðleikar og streita sé ekki besta eldsneyti hugmynda.

Ég þarf að fleyta ofan af huganum, stressi og streitu, búa mér til umhverfi með mildi og mýkt þar sem ég heyri sjálfa mig hugsa. Ég er vel þjálfuð í að taka vanlíðan og framleiða list úr því en það er afar frelsandi að finna að með vinsamlegu umhverfi er ég margfalt öflugri. Og í hamingjunni og streituleysinu get ég verið ótæmandi uppspretta hugmynda,“ segir Sigga Soffía hughrifin. „Krafturinn sem drífur áfram kemur í bylgjum, eins og sjávarföllin, hann er stundum sterkur og þá má grípa ölduna. Og stundum þarf bara að þrauka, gera eitt leiðinlegt verkefni í einu þar til þú mokar þig upp úr skafli óinnblásina verkefna. Það getur verið flókið að greina á milli þess að kæfa sig í vinnu sem draumaviðbragð eða kæfa sig í vinnu því manni finnst það raunverulega gaman. Ég held að ég sé líka óvenju hrifnæm mér finnst heimurinn svo stórkostlegur og að sitja t.d. í frosti með vinkonu við sjóinn að drekka góðan drykk og finna sjávarlyktina og lyktina af eldinum er hápunktur.“ 

Vantaði fyrirmynd til að tengja mig við 

Vert er líka að minnsta á að Sigga Soffía gaf út sína fyrstu ljóðabók „Til hamingju með að vera mannleg“ í apríl árið 2023 og frumsýndi í framhaldi dansverk byggt á bókinni sem flutt var á stóra sviði Þjóðleikhússins.

Nú er fram undan sýning Til hamingju með að vera mannleg á Akureyri í Hofi, segðu okkur aðeins frá henni. 

„Ég skrifaði ljóðabók og frumsýndi verk á stóra sviði Þjóðleikhúsinu í fyrra. Í algjörri hugsjón langaði mig að fara með þetta verk norður og er að gera það á eigin vegum. Ástæða þess að ég er að koma með þessa sýningu norður er að ég hef fengið ótal marga pósta frá konum og aðstandendum sem hafa lesið ljóðabókina og komið á sýninguna og fært mér einlægar þakkir. Þegar ég greindist með brjóstakrabbamein þekkti ég engan sem hafði veikst og í mínum litla heimi fannst mér eins og ég væri eina unga konan með brjóstakrabbamein. Mig vantaði svo fyrirmynd einhvern sem hafði gengið í gegnum þessa eldskírn og komið út hinu megin. manni vantar fyrirmynd sem maður tengir við. Ég ákvað þegar ég sá fram á bata að ég myndi reyna að hjálpa þeim sem á eftir mér koma. Þetta er svakalega erfitt tímabil og það er erfitt að sjá að þetta sé tímabil þegar maður stendur inn í eldinum.

Það er líka svo gott að finna samhljóm, að vita að öðrum finnst þetta erfitt líka en marsera í gegn. Minn stærsti lærdómur var að biðja um hjálp og þiggja hjálp. Og verkið Til hamingju með að vera mannleg fjallar um það, samhljóminn og vináttuna, þakklætið fyrir að geta drukkið heitan kaffibolla í morgunfrosti.“

Verkið er flutt af flottum hópi kvenna, þeim Nínu Dögg, Svandísi Dóru, Lovísu Ósk, Ellen Margréti og dönsurunum Ingu og Díönu Rut. Jónas Sen flytur frumsaminn píanókonsert í verkinu. Verkið hlaut mjög góðar viðtökur var sýnt fyrir fullu húsi í fyrra. 

„Nú munum við sýna verkið þann 16. mars næstkomandi í Hofi og gefa Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis ágóða sýningarinnar til að skína ljósi á þeirra frábæra starf. Miðasala er á www.mak.is einungis ein sýning verður fyrir norðan,“ segir Sigga Soffía að lokum áður en hún heldur út í náttúruna í heimabyggð sinni við út við Gróttu.

Nína Dögg og Svandís í sýningunni Til hamingju með að …
Nína Dögg og Svandís í sýningunni Til hamingju með að vera mannleg. Ljósmynd/Marino Thorlacius
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert