Pétur Jónsson fæddist á Stökkum á Rauðasandi 13. nóvember 1937. Hann lést á dvalarheimilinu Sóltúni 25. apríl 2021.

Foreldrar hans voru Jón Pétursson, f.31. jan. 1897 d.21. júní 1943 og Halldóra Sigríður Ólafsdóttir f.10. apríl 1908 - 20. des. 1998. Systir Péturs er Guðrún Jónsdóttir f. 18. des. 1936.

Pétur giftist Sveinbjörgu Pétursdóttur f. 15. júní 1937 á jóladag 1959 og eiga þau fimm syni, 11 barnabörn og fimm barnabarnabörn.

Jón Pétursson f. 6. júní 1959 fyrrv. eiginkona María Ellen Guðmundsdóttir Kreye f. 15. júlí 1962 d. 20. des. 2018. Þau skildu.
Börn þeirra: Arnar Snorri Kreye Jónsson f. 4. júlí 1981 og Sandra Dögg Jónsdóttir f. 2. júní 1986, dóttir hennar Emilíana Unnur Aronsdóttir f. 1. mars 2004. Núverandi sambýliskona Ingunn Jónmundsdóttir f. 29. maí 1963, börn þeirra Lára Sif Jónsdóttir f. 3. maí 1996 og Írena Sóley Jónsdóttir f. 27. sept. 2001. Fyrir átti Ingunn dótturina Margréti Kristjánsdóttur.

Pétur Pétursson f. 9. júlí 1963 fyrrv. eiginkona: Guðrún Hildur Ingvarsdóttir f. 14. júlí 1967, sonur þeirra: Andri Davíð Pétursson f. 11. okt. 1988, eiginkona hans er Anna Margrét Gunnlaugsdóttir f. 9. jan. 1991 börn þeirra Hjördís Antonía Andradóttir f. 2. okt. 2012 og Magdalena Ísold Andradóttir f. 28. maí 2014. Börn Péturs og Friðvarar Harðardóttur f. 17. nóv. 1965: Inga Lára Pétursdóttir f. 2. ágúst 1996 og á hún synina Benjamín Pétur Inguson f. 17. nóv. 2013 og Hjörvar Trausta Sigurjónsson f. 19. ágúst 2016. Yngstur er síðan Sigurður Ágúst Pétursson f. 7. júní 2001. Núverandi eiginkona Ásdís Emilía Björgvinsdóttir f. 10. ágúst 1960. Fyrir átti Ásdís soninn Snorra Örn Kristinsson og dótturina Guðrúnu Eddu Kjartansdóttur.

Sigurður Pétursson f. 12. mars 1966.

Þorleifur Einar Pétursson f. 17. nóv. 1972, fyrrv. eiginkona Nadine Guðrún Thorlacius f. 7. feb. 1975. Börn þeirra eru Einar Logi Th. Þorleifsson f. 14. okt. 2000 og Esther Ósk Th. Þorleifsdóttir f. 26. apríl 2005.

Guðjón Pétursson f. 2. des. 1978 sambýliskona Hulda Katrín Stefánsdóttir f.15. ágúst 1979. Börn þeirra: Helga Margrét Guðjónsdóttir f. 20. nóv. 2016 og Anna Vigdís Guðjónsdóttir f. 12. júní 2018.

Pétur flutti til Reykjavíkur 15 ára gamall til að vinna á prjónastofu Ólafs móðurbróður síns. Starfið á prjónastofunni átti ekki við hann og fór hann þá að vinna hjá Rafgeymaþjónustunni Pólar og seinna á Smurstöðinni Klöpp. Hann vann eitt sumar hjá RARIK við línulagnir í Kjós. Hann lærði bifvélavirkjun hja Strætisvögnum Reykjavíkur þar sem hann starfaði í rúmlega 50 ár, uns hann fór á eftirlaun árið 2007.

Pétur var þúsundþjalasmiður og eftir hann liggja fjölmörg tæki og haganlega smíðaðir gripir.

Pétur og Lára dönsuðu samkvæmisdansa voru meðlimir í Dansklúbbi Heiðars Ástvaldssonar og hjónaklúbbunum Kátu Fólki og Laufinu.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju 10. maí 2021 klukkan 13 og verður streymt á slóðinni:

https://sonic.is/petur

Streymishlekk má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við föður minn Pétur Jónsson frá Stökkum á Rauðasandi. Hann var sonur hjónanna Jóns Péturssonar og Halldóru Sigríðar Ólafsdóttur. Snemma kom í ljós að honum leiddust bústörf. Hugurinn stefndi að viðgerðum, smíðum og uppfinningum. Hann vildi vera í skemmunni, ekki úti á túni. Á sjötta aldursári missti pabbi föður sinn eftir erfið veikindi. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvaða áhrif atburður sem þessi hefur á ungt barn. Ég man eftir því sem ungum dreng hvað mér fannst þetta mikið óréttlæti. Í augum pabba var Rauðasandur fallegasti staður á landinu. Ekki dugði það til því 15 ára gamall fór pabbi alfarinn til Reykjavíkur. Hans gæfa var að hafa stuðning af ættingjum og að kynnast góðu fólki. Hann vann hin ýmsu störf fyrstu árin, en hóf svo störf hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Þar lærði hann bifvélavirkjun og varð bifvélavirkjameistari. Hjá SVR og svo Strætó bs vann vann í nálega 50 ár. Eitt mesta gæfuspor í lífi hans var þegar hann kynntist sinni eftirlifandi eiginkonu Sveinbjörgu Pétursdóttur. Saman eignuðust þau fimm syni. Líf þeirra hefur verið samofið og hún hefur verið honum stoð og stytta alla tíð. Það kom berlega í ljós í hans veikindum.
Pabbi var glettinn og grallari af guðs náð. Hann sagðist vera alt muligt man Það var ekkert me he í kringum hann.
Ég fékk að vera samferða pabba mínum í næstum 62 ár. Þvílíkt ferðalag, þvílík forréttindi.
Eftir standa góðar og skemmtilegar minningar. Alveg vonlaust er að gera því skil pabbi í stuttum pistli. Þú komst til dyranna eins og þú varst klæddur. Hreinn og beinn og lást ekki á þínum skoðunum. Hjálpsemi er eitt sem kemur strax upp í hugann. Ekki máttirðu sjá bíl úti í vegarkanti án þess að kanna hvort ekki væri allt í lagi. Þú gerðir við allt og ef það gekk ekki upp þá smíðaðirðu nýtt.

Allar vélarnar sem þú smíðaðir til þess að létta þér störfin og auka gæði þess sem þú smíðaðir. Beygjuvélar, slípivélar og skurðarvélar. Þú sagðir mér eitt sinn að tíma þínum væri illa varið í að hrista spraybrúsa. Þess vegna bjóstu til hristivél. Þvílíkar snilldar lausnir. Allt þetta varð til í bílskúrnum sem seinni árin var kallaður Geymslusvæði gersema

Lykill að góðu hjónabandi er að eiga góðan bílskúr Þar er alltaf logn þó að hvessi inni. Þetta sagðir þú frammi fyrir fullum sal af fólki þegar þið hjónin áttuð 50 ára brúðkaupsafmæli.

Ég minnist árlegu ferðalaganna á Rauðasand, steinbítsátsins og gönguferðanna niður í ós að sjá selina. Þvílíkir dagar. Tenging pabba við æskustöðvarnar var órjúfanleg.

Ég minnist líka skemmtilegra ferða á Gipsynum uppá hálendi með góðum vinum. Beljandi stórfljótum og grillsteikum eldaðar undir byggingaplasti í grenjandi rigningu.

Þessa sagðirðu mér fyrir nokkrum árum. Ég spurði aldrei um höfundinn. Það kemur bara seinna.

Efst uppá Arnarvatnsheiði

oft hef ég maðki beitt

Þar er allt fullt af vötnum

og þar hef ég aldrei veitt neitt.



Við fengum nú nokkra væna á Arnarvatnsheiði, en það var að vísu neðst á heiðinni. Þú fékkst auðvitað flesta. Það er vel þekkt staðreynd í fjölskyldunni að þú varst ofsalega góður veiðimaður, svo var eitthvað meira sem fylgdi með!
Dýr löðuðust að þér. Sama hvar þú varst staddur. Þú varst alltaf sá fyrsti sem sem hundar og kettir komu til. Dýr finna strax hvar þau eru velkomin. Þú fóðraðir líka stóra fuglahópa heima í Mosgerði og niður á strætóverkstæði.
Hver á að sjá um fimmaurana ? Eitt af því sem stendur uppúr er þín létta lund og hinn óborganlegi húmor sem þú hafðir. Skemmtisögur og glettnar vísur komu á færibandi. Margar þeirra gætu stuðað viðkvæmar sálir. Við hættum ekki á það hér, en þú hefðir látið vaða. Þú varst sjálfsöruggur og hafðir sterka sjálfsmynd. Þú varst mikill vinur vina þinna en erfiður andstæðingur.
Eitt af því dásamlega við þig pabbi var húmorinn sem þú hafðir fyrir sjálfum þér. Ef eitthvað fór ekki alveg eins og það átti að fara varstu ekki að fela það neitt. Þú leyfðir okkur hinum að að njóta og hlæja með. Það kom fyrir.
Þú varst góður kokkur og mikill grillari og smíðaðir þín grill sjálfur. Þú hafðir þinn sérstaka og einfalda stíl við matargerðina. Kryddaðir eingöngu með kreppukryddi sem venjulegt fólk kallar salt og pipar. Þetta hefur virkað til þessa, hinir geta kryddað með hinu. Það var ekkert kníverí með kandísinn.
Þó kom fyrir að matargerðin hitti ekki alveg í mark. Eitt af því er þegar þú gerðir hinn eftirminnilega vanilluuppstúf og niðurskorin hrossabjúgu. Eins var þverskorin ýsa ekki að gera mikið fyrir okkur bræður. Þegar þú keyptir í matinn var það oftast eitthvað sem allir gátu borðað.
Nú ertu kominn í sumarlandið og örugglega búinn að finna þér fallega og skjólsæla berjalaut þar sem þú getur legið í sólbaði. Ég trúi því að í sumarlandinu sé einnig að finna ísilögð vötn þar sem þú getur sýnt listir á skautum og þeyst um á þínum heimasmíðuðu vélsleðum. Það væsir ekki um þig.
Þú varst ekkert venjulegur. Þú þorðir að vera þú sjálfur. Þess vegna ertu svo eftirminnilegur. Þess vegna er þín svo sárt saknað. Nú ertu laus frá þínum erfiðu veikindum. Þú kvartaðir aldrei en barðist til enda. Þú elskaðir lífið.
Ég þakka þér pabbi fyrir öryggið sem þú veittir. Alla umhyggjuna sem þú veittir stóra hópnum þínum. Öll góðu ráðin og að vera alltaf til staðar. Þakka þér fyrir að vera fyrirmynd sem ég var geysilega stoltur af. Að vera sonur þinn eru forréttindi. Einhverjir kunna spyrja , er svona maður til? Ég bara veit það ekki, en hann var til. Þetta var pabbi minn. Hann mun lifa í minningunni.
Elsku pabbi minn, blessuð sé minning þín. Takk fyrir allt,

Jón (Nonni).