c

Pistlar:

23. nóvember 2018 kl. 19:20

Ketill Sigurjónsson (hreyfiafl.blog.is)

Gjörbreyttar forsendur sæstrengs

Það sem skiptir arðsemi sæstrengs máli er hvort það náist samn­ingur við bresk stjórn­völd um orku­verð sem gild­ir út líf­tíma sæ­strengs­ins eða ekki. Í upp­lýsingum sem Lands­virkjun hefur birt frá orku­mála­ráðu­neyti Bret­lands um verð á endur­nýjan­legri orku kemur fram að það er þrisvar til fimm sinn­um hærra en lista­verð Lands­virkj­unar til 15 til 35 ára. Ketill Sigur­jóns­son, lög­fræð­ingur og sér­fræð­ingur í orku­málum, telur það geta verið hærra, eða allt að sex til átta sinnum hærra.

Ofangreindur texti er úr nýlegri grein á vef Við­skipta­blaðsins. Sök­um þess að þarna er vitnað í þann sem hér slær á lyklaborð, er vert að taka eftir­farandi fram:

Arðsemistækifæri Íslands ekki hið sama og var

Fyrir nokkrum árum buðu bresk stjórn­völd geysi­hátt verð fyrir raf­orku frá nýrri kol­efnis­lítilli raf­orku­fram­leiðslu. Á þeim tíma voru góðar líkur á að þetta gæti nýst sem mikið hagn­aðar­tæki­færi fyrir íslensk orku­fyrir­tæki og þá eink­um Lands­virkjun með allt sitt stýran­lega vatnsafl.

Það tækifæri var ekki nýtt af hálfu íslenskra stjórnvalda þá. Og í dag er staðan mjög breytt frá því sem þá var. Kostn­aður vind­orku hefur farið hratt lækk­andi. Við Bret­land og strend­ur megin­lands Evrópu eru nú reistir vind­myllu­garðar þar sem kostn­að­ur­inn er orð­inn svo lítill að það mun breyta mjög sam­setn­ingu raf­orku­fram­leiðslu í slík­um löndum.

Þessi þróun hefur óhjá­kvæmi­lega marg­vísleg áhrif. M.a. eru áhrifin þau að sæ­strengur milli Íslands og Bret­lands er ekki lengur það stóra hagn­að­ar­tæki­færi fyrir Ísland sem var. Vissulega er ennþá líklegt að unnt væri að fá töluvert hærra verð fyrir ísl­enska raf­orku selda til Bret­lands heldur en t.a.m. það verð sem stór­iðjan hér greiðir. En mögu­leik­inn á sex­földu eða átt­földu verði er horf­inn. Segja má að sá mögu­leiki hafi rokið útí veður og vind!

Á hvers forræði yrði strengurinn? 

For­send­ur sæ­strengs eru sem sagt gjör­breytt­ar frá því sem var fyrir nokkrum árum. Sæstrengsverkefnið er að vísu ennþá tæki­færi fyrir Ísland sem vert er að skoða. En í dag liggur mesta hagn­að­ar­vonin senni­lega ekki hjá Landsvirkjun eða öðrum orku­fyrir­tækj­um, heldur hjá eig­anda sæ­strengsins. Þess vegna er orðið áríðandi að íslensk stjórn­völd geri það að höfuð­atriði máls­ins að tryggja með hvaða hætti þau geti stýrt arð­semi sæstrengs. Og fastsetji slíka löggjöf áður en slíkt verkefni verður að veruleika.

Fordæmi Norðmanna áhugavert

Einn möguleiki er auðvitað að inn­viðir eins og sæstrengir séu í eigu íslensks ríkis­fyrir­tækis. Það væri sambærileg leið eins og á við um eignarhald norska Statnett í öllum sæ­strengjum Norð­manna sem lagðir hafa verið til þessa. Svo stórt verk­efni kann þó t.a.m. að vera Lands­neti ofviða (þar að auki er Landsnet ekki ríkisfyrirtæki).

Þess í stað væri mögu­lega unnt að fara svip­aða leið eins og Norð­menn hafa gert vegna gas­lagna sinna í Norð­ur­sjó. Þar hafa einka­fyrir­tæki fengið að fjár­festa í gas­lögn­unum sem tengja norsku gas­vinnslu­svæðin við Bret­land og megin­land Evrópu. En norska ríkið ræður flutn­ings­gjald­inu og stjórnar í reynd arð­semi inn­við­anna.

Þetta er leið Norðmanna til að tryggja að norska þjóðin fái sem mest eða a.m.k. sanngjarnan hlut af þeim arði sem auðlindanýtingin skapar og kemur um leið í veg fyrir að fyrirtæki sem ræður yfir innviðum misnoti þá aðstöðu. Það er þjóð­hags­lega mikil­vægt að íslensk stjórn­völd taki þetta álita­mál til meiri og ná­kvæm­ari skoð­unar en verið hefur.

Til athugunar: Höfundur vinnur að vind­orku­verk­efnum á Íslandi í sam­starfi við norrænt orku­fyrir­tæki. Þau verk­efni mið­ast ein­göngu við inn­lendan raf­orku­mark­að (það gæti eðli­lega breyst ef sæ­streng­ur yrði lagð­ur). Höf­und­ur álít­ur að sæ­stren­gur kunni að vera skyn­sam­legt verk­efni, en slíkt verk­efni þarfn­ast meiri skoð­un­ar og um­fjöll­un­ar áður en hægt er að full­yrða um ágæti þess eða ómögu­leika.

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Hér birtast hugleiðingar um hin ýmsu málefni; einkum um orkumál. Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr á Íslandi (Zephyr Iceland), sem er dótturfyrirtæki norska Zephyr.
Meira