c

Pistlar:

8. apríl 2008 kl. 0:50

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Hvernig Tæfan upplifði Villa Vill tónleikana

Ég get ekki sleppt því að segja ykkur frá  minningartónleikum Vilhjálms Vilhjálmssonar sem Bretinn og ég fórum á síðastliðinn föstudag í Salnum í Kópavogi.

Pálmi Gunnars, Guðrún Gunnars, Stebbi Hilmars og Friðrik Ómar fóru á kostum. Því get ég lofað ykkur. Sem og hljóðfæraleikarar, bakraddir og 4ra mann strengjasveit sem birtist á sviðinu eftir hlé.

Við sátum ansi framarlega, á þriðja bekk. Ég veit ekki hvort nálægðin við listamennina átti þátt í þeim sterku áhrifum sem ég upplifði þarna. Á milli laga spjölluðu söngvararnir um Villa, þeirra tengingu við hann og lögin hans. Og þetta var gert á afar lifandi og afslappaðan hátt.

Ég veit að fólk sem stendur á sviði með ljósin í andlitið sér ekki sér ekki mikið fram í salinn. En það breytti engu fyrir Pálma Gunnarsson. Sterkt augnaráðið og brosið sem lýsir upp andlitið gerir það að verkum að þér finnst það allt ætlað akkúrat þér. Og Pálmi er söngvari í sérflokki. Enginn er eins og hann. Enginn kemst nálægt því að hljóma eins og hann.

Varðandi Stebba Hilmars... ég veit ekki hvernig ég á að koma þessu frá mér án þess að það misskiljist.. Ég fíla Sálina. Hef alltaf gert. Finnst Stebbi skemmtilegur söngvari. En það var ekki fyrr en á föstudaginn sem ég uppgötvaði hversu góður söngvari hann er. Þvílíkt vald á röddinni sem þessi drengur hefur. Og tilfinningin sem hann leggur í þetta.

Guðrún Gunnars er ein af okkar bestu söngkonum. Á því er enginn vafi. Svo er hún svo skemmtileg. Kom öllum til að hlæja hvað eftir annað með líflegri framkomu sinni. Var eins og ferskur andblær þarna á sviðinu.

Ég átti erfitt með að sleppa því að mæna á andlitið á Friðriki Ómari á meðan hann söng. Að þessi rödd komi upp úr þessum smágerða dreng en eiginlega meira en ég næ utan um. Ég er einlægur aðdáandi hans eftir þetta kvöld.

Ég gleymdi að taka með mér snýtubréf og það slapp. En stundum þurfti ég að sjúga óþarflega hátt upp í nefið. Bretinn gaf mér auga í hæstu hviðunum.

Mér á hægri hönd sátu 3 konur og þær voru yndislegar. Þetta geta hafa verið mæðgur. Sú elsta sennilega eitthvað um sjötugt. Þær lifðu sig svo inn í sýninguna og töluðu upphátt við þann sem stóð á sviðinu og var að kynna næsta lag, eða tala um Vilhjálm.

Já, sögðu þær stundarhátt og kinkuðu kolli til samþykkis. Eins og þær hefðu verið viðstaddar hvern einasta atburð sem talað var um og ættu pínulítið í hverju einasta lagi sem var kynnt.

Á fremsta bekk sat fólk sem virkilega naut kvöldsins og þorði að sleppa fram af sér beislinu. Söng með, teygði hendur til lofts og dillaði sér í takt við tónlistina. Undurfagur hópur, sennilega af sambýli fyrir fatlaða.

Þegar tónleikunum lauk ætlaði þakið að rifna af húsinu. Liðið var klappað upp og tóku þá Lítill drengur. Þá var mín búin á því. Skeifa myndaðist og tárin trítluðu niður kinnarnar.

En ég var nú fljót að jafna mig. Bretinn vildi heilsa upp á gamla félaga svo við læddumst baksviðs og knúsuðum liðið aðeins. Allir voðalega glaðir og ánægðir.

Ef fleiri aukatónleikar verða settir upp, og þú ert ein(n) af þeim sem bara verður að hefja upp raust þína þegar þú heyrir lögin hans Villa, þá mæli ég eindregið með því að þú látir þig ekki vanta.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira