c

Pistlar:

20. ágúst 2009 kl. 0:31

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Einhverfur eða ekki einhverfur

Ég sat við skrifborðið mitt í vinnunni fyrri part kvölds við skriftir. Kom heim rétt fyrir kl níu og var ákveðin í að sjá fyrsta þáttinn í íslensku þáttaröðinni um Ástríði.

Sá Einhverfi lá makindalega og afslappaður í sófanum fyrir framan sjónvarpið þegar ég kom inn og það breiddist lymskulegt glott yfir varirnar á honum þegar hann sá mig. Ég átti ekki von á góðu, þó ég vissi það ekki á þessu andartaki.

Ég skellti silung og kartöflum sem Bretinn hafði eldað í kvöldmat, á disk og inn í örbylgjuofn. Á þessum tveimur mínútum sem tók að hita matinn var Sá Einhverfi búinn að æsa sig upp í dramakast. Hann heimtaði gulan lit. Ég benti honum kurteislega á að hann ætti fullt af gulum litum. Hann hélt nú ekki.

Til að fá frið þá sagðist ég myndi koma heim með gulan lit handa honum á morgun. Venjulega tekur hann svona málamiðlunum. En nú brá svo við að það hentaði honum ekki.

Ég varð drullufúl. Ætlaðir krakkaskömmin að vera með læti rétt á meðan þessi þáttur væri á skjánum. Ég ákvað að gefa dauðann og djöfulinn í krakkann og hlammaði mér inn í stofu með silunginn minn og hvítvín í glasi. Þegar Ástríður byrjaði var Sá Einhverfi hágrátandi inn í borðstofu. Reiður út í heiminn og mig og var stórlega misboðið.

Ég hækkaði sjónvarpið upp úr öllu valdi því ekki hafði ég texta til að styðjast við. En texti nýtist mjög vel þegar maður er með öskrandi börn yfir sjónvarpinu.

Ég ákvað að ég ætlaði að láta drenginn um að ráða sjálfur fram úr þessari krísu. Þetta var hans krísa, ekki mín.

Hann grét sárt í svolítinn tíma en þegar það dugði ekki til að ég veitti honum athygli, brá hann á annað ráð.

Gelgjan gerði sig líklega til að standa upp en ég stoppaði hana af. Anna Mae láttu hann eiga sig.

Mamma! hann er að berja sig í hausinn með DVD diski sagði ábyrgðar- og áhyggjufulla stúlkan mín.

Mér er alveg sama, sagði ég rólega. Þá gerir hann það bara.

Svo gleymdi ég drengnum barasta. Mér tókst að gjörsamlega draga gardínur fyrir eyrun og gleyma krakkanum.

Ég hálfhrökk í kút þegar hann byrjaði allt í einu að hlæja. Fyrst hélt ég að þetta væri svona geðsveifluhlátur en ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því.

Drengurinn var búinn að gefast upp! Hann gafst upp!! Og það tók ekki nema 15 mínútur. Húrra fyrir mér. Hann var búinn að finna eitthvað á netinu sem honum fannst svona bráðskemmtilegt og ég heyrði ekki meira minnst á gulan lit.

Þetta atvik opnaði augu mín svo um munaði. Eins og önnur smábörn (því þrátt fyrir bráðum full 11 ár er hann enn smábarn að mörgu leyti) sýnir hann foreldrum sínum aðra og verri hegðun en hann myndi sýna öðru fólki. Og foreldrarnir spila með og hlaupa eftir duttlungum barna sinna. Þetta heitir slæmt uppeldi.

Einhverfur eða ekki einhverfur..... Að uppskera athygli, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, vegna óæskilegrar hegðunar fær barnið til að hefja skipulega könnun á teygjanleika þolinmæðisgens foreldra sinna.

Ég er hætt, ég segi það satt.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira