Cloé Lacasse á förum frá ÍBV

Cloé Lacasse í færi.
Cloé Lacasse í færi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Cloé Lacasse, einn besti leikmaður efstu deildar kvenna í fótbolta, mun yfirgefa herbúðir ÍBV í ágúst. Þetta kemur fram á Fótbolta.net í dag. 

Cloé hefur leikið með ÍBV síðustu fimm ár og fékk á dögunum íslenskan ríkisborgarétt. Hún er því lögleg með íslenska landsliðinu. Jón Óli Daníelsson, þjálfari ÍBV, sagði í viðtali við Fótbolta.net að hún væri að skoða nokkur tilboð. 

ÍBV fékk 9:2-skell á móti Breiðabliki í síðustu umferð og er búið að tapa þremur síðustu deildarleikjum sínum. Liðið er í áttunda sæti með níu stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Það yrði því mikið áfall fyrir ÍBV að missa Cloé áður en tímabilið klárast. 

Sóknarmaðurinn er búinn að skora átta deildarmörk í sumar og skoraði hún tíu deildarmörk á síðustu leiktíð. Tímabilin tvö á undan skoraði hún þrettán mörk. 

mbl.is