Óánægja með ákvörðun Riot Games

Sentinels eftir sigur á FURIA á heimsmeistaramótinu í Valorant.
Sentinels eftir sigur á FURIA á heimsmeistaramótinu í Valorant. Ljósmynd/Riot Games

Sextán bestu lið í heimi í leiknum Valorant keppast nú um heimsmeistaratitilinn í Berlín. Upp kom umdeilt atvik í gær í leik Sentinels og FURIA á mótinu.

Tæknileg pása skapaði umræðu

Liðin Sentinels og FURIA mættust í best-af-3 viðureign í B-riðili heimsmeistaramótsins í Valorant í gær. Bæði lið unnu einn leik hvor og mættust í úrslitaleik viðureignarinnar í kortinu Haven. Þegar staðan var 12-9 kallaði mótshaldari, Riot Games, til tæknilegs hlés vegna þess að xand, leikmaður FURIA, hafði hoppað uppá box á C-hlið kortsins Haven.

Samkvæmt Riot Games var hoppið óeðlilegt og töldu þeir sér xand hafa nýtt sér galla í leiknum sem ekki er leyfilegt. Í kjölfarið fékk xand áminningu fyrir hoppið óeðlilega. Þessi vinnubrögð Riot Games hafa hinsvegar verið fordæmd á samfélagsmiðlum.

Leikmenn mótsins ásamt öðrum spilurum létu í sér heyra á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem þeir tjáðu að hoppið umtalaða hafi verið hluti af leiknum í langan tíma og ekkert væri óeðilegt við það.

Aðdáendur FURIA ósáttir

Skapaðist einnig umræða um að leikmenn Sentinels hafi kvartað yfir hoppinu og vegna þessa hafi Riot Games ákveðið að skoða það nánar.

TenZ, leikmaður Sentinels, setti inn færslu á Twitter þar sem hann tjáir að það hafi hinsvegar verið Riot Games sem hafi ákveðið pásuna, og að leikmenn Sentinels höfðu kvartað útaf hoppinu umtalaða.

Óróleiki myndaðist meðal aðdáenda brasilíska liðsins FURIA, þar sem tveir leikmenn Sentienls sáust ganga í burtu af sviðinu á meðan tæknilegu pásunni stóð.

Hafa leikmennirnir tveir orðið fyrir aðkasti á samfélagsmiðlum vegna þessa og fóru af stað sögur um að Sentinels hafi beðið um tæknilega pásu vegna þess að þeir þurftu að fara á salernið.

Þegar leikurinn svo loks hélt áfram lauk honum með sigri Sentinels. Riot Games hafa ekki sent frá sér neina tilkynningu varðandi málið, en ljóst er að margir aðdáendur mótsins voru óánægðir með ákvarðanir Riot Games í viðureigninni.

mbl.is