Fríu leikir mánaðarins opinberaðir

Þrír nýjir leikir eru gjaldfrjálsir í janúar með PlayStation Plus …
Þrír nýjir leikir eru gjaldfrjálsir í janúar með PlayStation Plus áskriftinni. Ljósmynd/Unsplash/Nikita Kachanovsky

Sony hefur opinberað þá tölvuleiki sem munu vera aðgengilegir í gegnum áskriftina PlayStation Plus í janúar.

Þrír tölvuleikir verða gjaldfrjálsir til spilunar í gegnum áskriftina og eru það leikirnir Persona 5 Strikers, Dirt 5 og Deep Rock Galactic sem áskrifendur PlayStation Plus geta spilað frá og með deginum í dag.

Röð dularfullra atvika

Persona 5 Strikers er hlutverkaleikur sem gefinn var út af Sega og er hægt að spila hann á PlayStation 4 leikjatölvum. Leikurinn gengur út á að rannsaka röð dularfullra atvika tengdum einstaklingum þvert yfir Japan. 

Hægt að keyra á norðurskautinu 

Dirt 5 er kappaksturleikur sem gefinn var út af Codemasters og EA en hann býður leikmönnum að spreyta sig á aksturshæfileikum sínum þar sem keyrt er og keppt utanvegar á allskonar bílum, allt frá rallý-bílum til stórra trukka. Hægt er að velja um yfir 70 mismunandi keppnisbrautir sem staðsettar eru á tíu mismunandi stöðum um heiminn og meðal annars á norðurskautinu þar sem glittir í norðurljósin.

Hægt er að spila leikinn á bæði PlayStation 4 og 5 leikjatölvum.

Geimdvergar á kreik

Deep Rock Galactic er fyrstu persónu samvinnuleikur sem gefinn var út af Coffee Stain Publishing. Spilað er í eins til fjögurra manna teymum þar sem leikmenn taka að sér hlutverk dverga sem grafa eftir sérstökum jarðefnum í geimnum, safna geimverueggjum eða jafnvel endurheimta týnd verkfæri og búnað.

Hægt er að spila leikinn á bæði PlayStation 4 og PlayStation 5 leikjatölvum.mbl.is