„Við fórum inn í þetta með fulla einbeitingu“

Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA, hefur Íslandsmeistaratitilinn á loft á …
Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA, hefur Íslandsmeistaratitilinn á loft á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Már Mikaelsson leiddi sína menn á svellinu í dag þegar Skautafélag Akureyrar vann sinn 21. Íslandsmeistaratitil í íshokkí karla. Hann skoraði fjórða mark SA í 4:1 sigri og var að vonum ánægður eftir að hafa fengið að lyfta bikarnum góða.

Þetta hefur verið skemmtilegt einvígi fyrir ykkur. Það hafa nú stundum verið meiri læti í úrslitakeppninni.

„Einvígið var vissulega skemmtilegt en það var nú eitthvað um læti í þessu. Liðin voru að spila af krafti og það var heilmikil barátta í öllum leikjunum.“

Hvernig leist þér á þessa úrslitakeppni svona fyrirfram. Þið voruð búnir að leggja SR sjö sinnum í átta leikjum í deildinni. Gat þetta ekki orðið hættulegt.

„Við hugsuðum voðalega lítið um það sem var búið að gerast. Þegar deildin er búin þá er staðan bara 0:0 og allt getur gerst. Við fórum bara inn í þetta með fulla einbeitingu og máttum alls ekki vera eitthvað sigurvissir.“

Nú var Esjan ekki með í vetur og tímabilið töluvert öðruvísi en undanfarin ár. Hvernig var þetta frá ykkar bæjardyrum séð?

„Aðalmunurinn var að þetta tímabil virtist styttra þar sem við spiluðum færri leiki. Þetta var skemmtilegt tímabil og það er alltaf gaman í hokkí. Svo þegar kemur inn í þessa úrslitakeppni þá er maður alltaf jafn  spenntur.“

SA er búið að vinna ansi marga titla á síðustu áratugum. Sér ekkert fyrir endann á þessari sigurgöngu. Sigurður Sveinn Sigurðsson hætti eftir síðasta tímabil og nokkrir í hópnum eru farnir að reskjast. Sérðu fram á að það fari að grisjast meira úr hópnum?

„Nei. Ég reikna ekki með að þessir sem voru með í vetur fari að hætta. Þeir eiga einhver ár eftir. Svo búum við að því að það eru alltaf nokkrir ungir að bætast við. Þeir sem hafa verið að koma inn síðustu ár hafa verið virkilega góðir og hafa bætt sig helling í vetur. Það er líka mjög gaman að sjá hvað þeir voru góðir í úrslitakeppninni. Það var ekkert að trufla þá. Og Jussi var ekkert að spara þessa stráka neitt enda voru þeir alveg jafn góðir og við þessir eldri. Það er um að gera að láta þá spila.“

Nú er fastur kjarni sem má reiða sig á í þessu liði en á hverju hausti þarf samt alltaf að púsla saman nýju liði og bæta við erlendum leikmönnum. Er eitthvað vitað um þau mál á þessu stigi. Verður t.a.m. þjálfarinn ykkar, Jussi Sipponen, áfram?

„Ég veit ekkert hvað mun gerast. Þetta kemur yfirleitt alltaf í ljós á síðustu stundu. Við höfum verið með mjög góða stráka síðustu ár. Samningur Jussa var að klárast núna en við viljum að sjálfsögðu hafa hann áfram. Best væri að hann settist bara að hjá okkur og færi að spila með landsliðinu.“

Nú voruð þið í SA að spila tímabil án goðsagnarinnar Sigurðar Sveins Sigurðssonar í fyrsta skipti í hálfa öld. Var það ekki hálf skrýtið?

„Hann var ekki með en samt átti hann stoðsendingu á allt það sem ég gerði í dag. Við förum ekkert nánar út í það“ sagði Andi Már að skilnaði, mjög dularfullur og ekki séns að gera sér í hugarlund hvað hann var að meina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert