Klæddist þvengskýlu og mátti ekki keppa

Shane Rose við keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021.
Shane Rose við keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021. AFP/Yuki Iwamura

Ástralska knapanum Shane Rose var meinað að taka frekari þátt í undankeppni fyrir Ólympíuleikana eftir að hafa klæðst efnislítilli þvengskýlu við keppni í Wallahy Hill, skammt frá Sydney, um þarsíðustu helgi.

Þvengskýlan sem um ræðir var keimlík þeirri sem enski leikarinn Sacha Baron Cohen klæddist í hlutverki Borats í samnefndri kvikmynd frá árinu 2006.

Á keppnisdegi í Wallahy Hill þann 11. febrúar síðastliðinn voru knapar hvattir til þess að klæða sig snyrtilega. Hefur verið venja fyrir því hjá sumum þeirra að nýta tækifærið til þess að klæða sig í búninga.

Rose, sem hefur tekið þátt á þremur Ólympíuleikum, klæddist einnig górillubúningi og sem Duffman, karakter úr hinum vinsælu Simpsons-þáttum.

Braut ekki gegn reglum

Hestasamband Ástralíu meinaði honum þátttöku þar sem hann þótti fara gegn reglum um klæðaburð við keppni.

Eftir að sambandið skoðaði atvikið nánar komst það að þeirri niðurstöðu að Rose hafi ekki brotið gegn reglum þess, auk þess sem tekið var tillit til anda viðburðarins þar sem knapar klæddu sig upp.

Má hann því halda áfram þátttöku í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana.

Rose vann til silfurverðlauna í hestaíþróttum með liði Ástralíu á Ólympíuleikunum árin 2008 og 2021 og til bronsverðlauna á leikunum árið 2016.

Hann freistar þess nú að tryggja sér sæti á sínum fjórðu Ólympíuleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert