„Að því leyti eru þeir sterkari“

Óskar Bjarni Óskarsson á hliðarlínunni í leik Vals og Steaua …
Óskar Bjarni Óskarsson á hliðarlínunni í leik Vals og Steaua Búkarest í síðasta mánuði. mbl.is/Óttar Geirsson

Valur fær rúmenska liðið Minaur Baia Mare í heimsókn í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikars karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

Íslenskir handboltaunnendur þekkja vísast ekki mikið til rúmenska liðsins, sem er meðal þeirra bestu í Rúmeníu og hefur unnið marga sterka sigra á leið sinni í undanúrslitin.

Það hefur Valur líka gert og mætti öðru rúmensku liði, Steaua Búkarest, í átta liða úrslitum Evrópubikarsins og hafði þar betur.

„Það eru mikið af sterkum maður á mann árásum frá þeim sóknarlega. Þeir koma með mikið af sterkum gabbhreyfingum og eru mikið að skjóta í gólfið.

Þetta er öðruvísi bolti heldur en Steaua spilaði til dæmis á móti okkur, þar sem var meira leitað inn á línu,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is, spurður að því hverju mætti eiga von á frá liði Minaur.

Sterkir maður á mann

„Þeir spila aggressífa 6-0 vörn þar sem þeir fara nánast í 3-2-1 í ýmsum leikkerfum. Þeir eru sterkir maður á mann og við þurfum að ná að gera þetta saman, hreyfa þá og finna hvað hentar best á þá.

Við þurfum að sjálfsögðu líka að gera okkar. Það er að ná verulega góðri vörn til að fá Björgvin [Pál Gústavsson] með okkur, til þess að fá þessi hraðaupphlaup okkar sem er svona okkar einkenni.

Þau þurfa að vera vel útfærð, mörg og góð. Við þurfum toppleik, það er ósköp einfalt. Þeir eru það sterkir og það góður taktur í þeim að við þurfum að kalla allt okkar besta fram,“ hélt hann áfram um Minaur.

Veist að hverju þú gengur

Er mikill munur á liðum Minaur og Steaua?

„Já, fyrir ári síðan, af því að við vorum líka að greina bæði liðin áður en við mættum FTC frá Ungverjalandi, þá var staðan öðruvísi. Þá var takturinn miklu betri hjá Steaua og þeir voru betri.

Núna er Minaur að berjast um annað sætið, eru í þriðja sætinu núna. Það er búinn að vera miklu meiri taktur í þeim í vetur og þeir búnir að vera að spila betur.

Steaua er búið að vera að glíma við mikið af meiðslum og voru nánast aldrei með sama lið þegar við vorum að skoða leiki með þeim.

Við erum með níu leiki á myndbandi hjá þessu liði og þú sérð alltaf sömu árásir, sama takt, sömu leikmenn og veist að hverju þú gengur. Leikurinn hjá þeim er búinn að vera miklu heilsteyptari í vetur. Að því leyti eru þeir sterkari,“ útskýrði Óskar Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert