c

Pistlar:

16. október 2019 kl. 12:10

Ketill Sigurjónsson (hreyfiafl.blog.is)

Spáin orðin að veruleika!

Umtalsverðar breytingar hafa nú orðið á raf­orku­við­skipt­um bæði ál­vers Norð­ur­áls og járn­blendi­verk­smiðu Elkem á Grund­ar­tanga. Þar er um að ræða eðli­lega þró­un, sem er í sam­ræmi við spár grein­ar­höf­undar

Bæði fyrir­tæk­in, þ.e. Elkem og Norðurál, hafa nú fram­lengt raf­orku­kaup sín frá Lands­virkj­un, en með breytt­um verð­skil­mál­um. Gera má ráð fyrir að sam­tals leiði þetta til þess að tekj­ur Lands­virkj­un­ar á árs­grund­velli hækki um þó nokkra milljarða króna. Sem er í samræmi við það sem ætla mátti að myndi ger­ast, þeg­ar gömlu orku­samn­ing­arn­ir rynnu út.

Þetta mun auðvitað draga úr hagn­aði stór­iðj­unn­ar á Grund­ar­tanga og um leið færa arð­semi Lands­virkj­un­ar til eðli­legra horfs. Í stað þess að verk­smiðj­urn­ar tvær á Grund­ar­tanga greiði næst­um helm­ingi lægra raf­orku­verð en ál­ver­ið í Straums­vík ger­ir, mun stór­iðjan á Grund­ar­tanga nú greiða svip­að orku­verð eins og Straums­vík. Og svip­að raf­orku­verð eins og ger­ist í helstu sam­keppn­is­löndum.

Hafa ber í huga að reikni­regl­urn­ar og við­mið­an­irn­ar að baki þess­um tekj­um Lands­virkj­un­ar (þ.e. verð pr. MWst) vegna við­skipt­anna við Grund­ar­tanga eru ekki ná­kvæm­lega þær sömu eins og í samn­ingn­um við Straums­vík. En gróf­lega má sem sagt ætla að nokk­urt jafn­ræði mynd­ist nú í orku­verð­inu milli Straums­vík­ur ann­ars veg­ar og Grund­ar­tanga hins vegar.

Að vísu er Norð­ur­ál enn svo­lít­ið sér á báti, því þar er um að ræða áhættu­meiri skamm­tíma­samn­ing. Sem lík­lega er til kom­in að ósk ál­fyr­ir­tæk­is­ins. Sú áhættu­taka kann að verða Norð­ur­áli viss fjötur um fót á næstu árum.

Gróf­lega áætl­að kunna heild­ar­tekj­ur Lands­virkj­un­ar vegna þess­ara tveggja samn­inga á Grundartanga að hækka um u.þ.b. 15% á árs­grund­velli. Verð­hækk­un­in á Grund­ar­tanga kom ekki til fram­kvæmda fyrr en nokkuð var lið­ið á árið (2019). Það verð­ur því ekki fyrr en á næsta ári, þ.e. 2020, að þessi tekju­aukn­ing mun að fullu skila já­kvæð­um áhrif­um á af­komu Lands­virkj­unar á árs­grund­velli.

Um leið mun árið 2020 marka viss kafla­skil í rekstrar­kostn­aði verk­smiðj­anna á Grund­ar­tanga. Þessi þróun er ekki óvænt, því hið breytta raf­orku­verð er í sam­ræmi við það sem búast mátti við þeg­ar gömlu samn­ing­arn­ir rynnu út. Rétt eins og grein­ar­höf­und­ur hafði spáð í grein hér á vef Morg­un­blaðs­ins strax árið 2015.

Eins og lesendur kunna að muna, þá ollu þau skrif nokkrum titringi hjá til­tekn­um ein­stakl­ing­um og fyr­ir­tækj­um. Það sem gerst hef­ur síð­an þá er auð­vit­að til marks um að grein­ar­höf­und­ur var ein­fald­lega að benda á stað­reyndir og sú þró­un sem þar var séð fyr­ir um þró­un raf­orku­verðs á Ís­landi er nú orð­in að raun­veru­leika.

Næsta stóra skrefið til auk­inn­ar arð­semi Lands­virkj­un­ar verð­ur senni­lega stig­ið ár­ið 2028, þegar raf­orku­verðið í lang­stærsta raf­orku­samn­ingi á Ís­landi kem­ur að öll­um lík­ind­um til end­ur­skoð­un­ar. Þar er um að ræða samn­ing­inn við Alcoa vegna álvers Fjarðaáls.

Þessi þróun á ekki að koma nein­um á óvart. Um leið hlýt­ur það að vera gleði­efni fyr­ir bæði stór­iðj­una á Ís­landi og aðra um­tals­verða not­end­ur raf­orku hér, að Ís­land hef­ur enn þá sér­stöðu að hér býðst stór­iðju og öðrum fyr­ir­tækjum trygg raf­orka á mjög sam­keppn­is­hæfu verði.

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Hér birtast hugleiðingar um hin ýmsu málefni; einkum um orkumál. Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr á Íslandi (Zephyr Iceland), sem er dótturfyrirtæki norska Zephyr.
Meira