Pistlar:

13. apríl 2017 kl. 16:17

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Fjárfestingar lífeyrissjóða á alþjóðlegum mörkuðum

Eftir nokkur ár í viðjum gjaldeyrishafta geta Íslendingar á ný fjárfest á erlendum mörkuðum. Hið slæma við tímasetninguna er að síðan gjaldeyrishöft skullu á í kjölfar hrunsins hefur virði hlutabréfavísitalna meira en tvöfaldast á flestum mörkuðum. Því til viðbótar hefur virði skuldabréfa einnig hækkað svo mikið að góð rök eru fyrir því að mesta bólan á fjármálamörkuðum í dag sé að mestu leyti tengt skuldabréfum. Hið góða við tímasetninguna er að íslenska krónan hefur sjaldan, ef nokkurn tíma verið jafn sterk og einmitt í dag. Sé tekið tillit til verðbólgu í Danmörku og þróun á launavísitölu hérlendis þá kostar danska krónan fyrir Íslending töluvert minna en árið 2007! Því má bæta við að danska krónan er beintengd evrunni svo að hið sama á við um evruna.

dkk isk laun verdbolga mbl

DKK ISK

Þetta er eitthvað sem lífeyrissjóðir veita sjálfssagt mikla athygli í dag. Nú er aðeins tæplega fjórðungur eigna þeirra í erlendum fjárfestingum. Þetta er afar óskynsamlegt. Ég benti á það strax árið 2009 að í stað þess að hámark væri í lögum varðandi prósentu á eignum lífeyrissjóða ætti gólf að vera þess í stað. Bæði eykur slíkt áhættu í fjárfestingum auk þess sem það veitir ákveðinn öryggisventil; þegar að efnahagurinn dregst saman á Íslandi og ISK veikist því, þá hækka erlendar eignir í virði í íslenskum krónum talið. Þetta hefur raunar verið fastur punktur í kennslu minni í HR í bönkum og fjármálamörkuðum. 

Kraftur í útrás

Það er vart hægt að réttlæta kaup á erlend skuldabréf í dag þegar að ávöxtunarkrafan fyrir 10 ára ríkisskuldabréf er í flestum löndum með þokkalegt lánshæfismat í kringum 1-2%. Þetta á við jafnvel þó að lífeyrissjóðir eigi vart meira en 1-2% fjárfestinga sinna á erlendri grundu í skuldabréfum (það er söguleg skýring á því sem bíður betri tíma). Að sama skapi gætu lífeyrissjóðir verið tregir til að fjárfesta af krafti í erlend hlutabréf; ef gengi þeirra færi að lækka á nýjan leik þá hefði slíkt óhjákvæmilega slæm áhrif og sjóðsstjórar þeirra litu illa út að hafa farið með stóran hluta fjárfestinga akkúrat á þeim tímapunkti þegar að hlutabréfavísitölur væru í methæðum.

Þó er ekki hægt að líta framhjá því að það liti jafnvel enn verr út ef þeir myndu ekki nýta sér sterka stöðu ISK sem nú ríkir. Ef ISK myndi veikjast töluvert á nýjan leik væri erfitt að réttlæta það að hafa ekki farið með töluverðan hluta af fjárfestingargetu þeirra til útlanda.

Erlendir eignaflokkar

Því ættu lífeyrissjóðir að beina fjárfestingum sínum hið fyrsta í erlendan gjaldeyri. Að mínu mati ættu þeir að leggja dágóðan hluta af þeim fjárfestingum í stutt skuldabréf til að tryggja það að búið sé að umbreyta töluverðan hluta ISK eignum þeirra í erlendar myntir. Hægt væri síðan smám saman að fjárfesta í hlutabréf þegar að þau skuldabréf falla á gjalddaga. Hinn hlutinn ætti síðan að fara í fjárfestingar á hlutabréfum sem eru síður ónæm fyrir sveiflum á hlutabréfamörkuðum.

Slíkar pælingar rúmast ekki fyrir í stuttri grein eins og þessari. Ég fjalla nánar um það í grein minni Afnám hafta: Hver segir að lífeyrissjóðirnir fari út í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar. Mæli ég með því hefti í páskafríinu. Ég óska ykkur gleðilega páska.

FV 2017 02 lifeyrissjodir forsida

MWM

Hér er upphafleg grein mín þar sem ég mæli með að gólf verði sett á erlendar fjárfestingar. 

Hér er hlekkur að greininni í Frjálsri verslun.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

Hægt er að skrá sig á póstlista með því að senda beiðni til marmixa@yahoo.com með "póstlisti" í Subject. 
 

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira