c

Pistlar:

10. júní 2015 kl. 13:45

Pétur Blöndal (peturb.blog.is)

Álver og raforkuverð á Íslandi

Orkubloggarinn Ketill Sigurjónsson og Ágúst Hafberg framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli tókust nýverið á í fjölmiðlum um forsendur orkuverðs.

Í þeim skrifum vísuðu báðir til CRU, sem er virtasta greiningarfyrirtækið á þessu sviði og hefur fylgst með og greint orkusamninga á Íslandi og um allan heim um langt skeið. Fyrirtækið birtir reglulega samanburð á því hvað álfyrirtæki greiða fyrir orku í ólíkum löndum. Enginn mótmælir því að þetta eru áreiðanlegustu gögn með slíkum samanburði sem fáanleg eru.

Í pistli sem Ketill skrifar 26. maí síðastliðinn fullyrðir hann að raforkuverð til stóriðju hér á landi sé með því lægsta sem þekkist í heiminum í dag og segist hann styðjast við nýjar upplýsingar frá CRU. Í greininni er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvenær Ketill er að tala um verð til stóriðju hér á landi og hvenær hann talar um verð til álveranna þriggja. En hann segir þó raforkuverð til „álvera og annarrar stóriðju á Íslandi óvenju lágt“.

Þessi orð Ketils standast ekki skoðun. Um upplýsingarnar sem Ketill vísar til segir orðrétt hjá CRU:

„Á fyrsta ársfjórðungi 2015, var vegið meðtaltal raforkuverðs sem íslensk álver greiða, samkvæmt helstu sérfræðingum CRU International, nánast það sama og meðalverð til frumframleiðslu á áli í heiminum, fyrir utan Kína.“

Ekki þarf að orðlengja af hverju Kína er haldið utan jöfnunnar enda lýtur álframleiðsla þar almennt ekki sömu markaðsforsendum.  

Samanburður CRU tekur mið af verði afhentrar orku til álveranna og er áætlað að meðal orkuverð til álvera á Íslandi sé 29-30 USD/megawattstund fyrir árin 2014 og 2015.  Landsvirkjun segir í ársreikningi sínum að meðal verð til orkuiðnaðar árið 2014 hafi verið um 26 USD/megawattstund. Nú veit ég ekki hvernig Landsvirkjun fær út þá tölu, en augljós munur á forsendum fyrir þessum tölum er að CRU horfir einungis til álveranna (en ekki t.d. kísilversins Elkem, gagnavera og aflþynnuverksmiðju Becromal) og CRU tekur einnig inn í sína tölu samninga annarra orkusala við álver á Íslandi.  

Í gögnum CRU má enn fremur sjá að meðal orkuverð til álvera í Noregi, Kanada, Rússlandi og ýmsum fleiri löndum er svipað eða lægra en á Íslandi árið 2015.

Miklar verðlækkanir á orkumörkuðum á Vesturlöndum.

Þegar orkumarkaður á Íslandi er borinn saman við önnur lönd verður að líta á heildarmyndina. Á síðustu misserum hafa orðið miklar sviptingar á orkumörkuðum nærri okkur. Hið háa orkuverð sem sást gjarnan á árunum 2007 til 2012 hefur hopað á stórum svæðum. Verð á gasi í Bandaríkjunum hefur lækkað verulega og raforkuverð eftir því. Stærsta skýringin á þessu er notkun bergbrots (e: fracking) til að sækja olíu og gas í jarðlög sem áður voru illvinnanleg.

Raforkuverð í Kanada hefur einnig lækkað.  Þar voru áform uppi um að selja mikið af orku til Bandaríkjanna enda hafa raforkukerfi landanna verið tengd saman. Með ört lækkandi verði í Bandaríkjunum hefur myndast þó nokkuð umframframboð á orku í Kanada. Listaverð á orku í Kanada sem áður var um 42 USD á MWst hefur fallið verulega og þar bjóðast nú ýmis kostakjör fyrir raforkukaupendur.

Nýlega hafa verið gerðir stórir orkusamningar við þrjú álver í Kanada sem framleiða yfir milljón tonn af áli eða meira en sem nemur allri álframleiðslu hér á landi. Þeir gilda í 15 til 22 ár og verðið er tengt við markaðsverð áls með svipuðum hætti og gert hefur verið á Íslandi. Meðal orkuverð í þeim samningum er mjög svipað og meðalverð til álvera á Íslandi er í dag samkvæmt CRU eða 28 til 31 USD eftir því við hvaða álverð er miðað.

Í Evrópu hafa svipaðir hlutir gerst. Verð á heildsölumarkaði í Noregi (Nordpool) í ár er 25% undir meðalverði áranna 2011-2014. Það sama á við um orkuverð í Þýskalandi.  Orkuverð sem reis hæst  á árunum 2010 og 2011 og ýmsir spáðu að mundi hækka og hækka áfram hefur lækkað um 40% í evrum og meira en 50% í bandaríkjadölum. Verð á kolum hefur lækkað og Pólverjar og fleiri Evrópuþjóðir skoða af fullri alvöru að sækja sér olíu og gas með bergbroti eins Bandaríkjamenn.

Við þetta bætist að Evrópusambandið hefur heimilað að kostnaður vegna kolefnisskatta í raforkuverði sé að hluta endurgreiddur framleiðslufyrirtækjum. Þannig lækkar orkukostnaður fyrirtækjanna um 4-5 USD á megawattstund. Miðað við orkuverð á Nordpool núna í maí má búast við að orkukostnaður álvers í Noregi sem kaupir orku sína á markaði sé 22-24 USD á MWst með flutningi og öllum öðrum tilkostnaði.

Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi um orkuverð til álvera. Auðvitað eru til dæmi um hærra verð og líka um lægra verð. Það er hins vegar nauðsynlegt að vita hvað er að gerast í heiminum og líta til þess þegar fjallað er um orkuverð og það er borið saman milli landa. Það er líka nauðsynlegt að átta sig á því að samningar íslenskra orkufyrirtækja og íslenskra álvera eru engin einsdæmi eða óvenjulegir á nokkurn máta.

Langtímasamningar skapa gríðarleg verðmæti

Þegar stórir raforkusamningar eru gerðir þá eru þeir alltaf í samhengi við markaðsaðstæður. Til að laða að erlenda fjárfestingu buðu orkufyrirtækin samkeppnishæft verð. Það hefur enginn þrætt fyrir það. Álver eru í eðli sínu þannig að þau borga ekki hæsta einingaverðið fyrir raforku. Á móti kemur að þau kaupa mjög mikla raforku allan sólarhringinn, alla daga ársins, og eru þannig fyrirtaks viðskiptavinur. Uppsett afl Landsvirkjunar nýtist því vel, en í því liggur auðvitað fjármagnskostnaður fyrirtækisins.

Á síðustu 10-20 árum hefur orðið gríðarleg verðmætamyndun í íslenskum orkufyrirtækjum vegna þess að umræddir orkusamningar hafa verið öllum aðilum hagfelldir. Í dag myndi enginn setja lægra verð á Landsvirkjun en 500 milljarða. Árið 2006 seldi Reykjavíkurborg hlut sinn og verðmatið á Landsvirkjun var þá 60 milljarðar.  Verðmætið í dag er margfalt hærra og kaup ríkisins eru líklega díll aldarinnar. Þessi verðmæti hafa að langstærstum hluta myndast með viðskiptum við álfyrirtækin þrjú, Norðurál, Alcoa og Rio Tinto Alcan, sem kaupa 75% af orku Landsvirkjunar. Megin breytingin á rekstri Landsvirkjunar frá 2006 til dagsins í dag er að Landsvirkjun selur nú ríflega tvöfalt meiri orku til álvera. 

Það verður sjálfsagt áfram tekist á um orkuverð, álver og virkjanir á Íslandi.  Það er eðlileg umræða og sjálfsögð.  En það getur enginn horft framhjá því að með sameiginlegri uppbyggingu raforkuiðnaðar og áliðnaðar á Íslandi hefur í Landsvirkjun skapast ein verðmætasta eign íslensku þjóðarinnar, sem skila mun innan fárra ára skila tugum milljarða árlega í arðgreiðslur án þess það skerði fjárfestingargetu fyrirtækisins. 

Pétur Blöndal

Pétur Blöndal

Þessa þanka skrifar framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, bókahöfundur og forðum blaðamaður.

Meira