c

Pistlar:

22. júní 2015 kl. 10:27

Pétur Blöndal (peturb.blog.is)

Raforkuverð innan og utan landsteina

Þessi orð eru skrifuð í tilefni af því að Ketill Sigurjónsson orkubloggari sendi mér opið bréf á þessum vettvangi fyrir fáeinum dögum. Ketill er framkvæmdastjóri Öskju Energy Partners ehf. og heldur úti vefsíðunni askjaenergy.is í samstarfi við Landsvirkjun, en aðrir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík.

Ketill tekur fram bæði í upphafi og lok bréfsins að ég starfi sem framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda. Það er rétt hjá Katli og raunar kyrfilega tekið fram við myndina af mér hér til hliðar.

Um leið segist Ketill bera traust til mín eftir að hafa fylgst með skrifum mínum sem blaðamanns um langt skeið. Mér þykir vænt um það. Í störfum mínum á þeim vettvangi sem öðrum hef ég lagt mig fram um að rökstyðja mál mitt vandlega. Ég fagna málefnalegri gagnrýni, enda er hún til þess fallin að stuðla að upplýstri umræðu.

Samanburður á raforkuverði milli landa

Í bréfi sínu segir Ketill að skrif sín taki eingöngu til orkuverðs í viðskiptum Landsvirkjunar við stóriðju. Um leið vísar hann til samanburðar CRU á milli landa á orkuverði til álvera en þar er tölu slegið á  orkuverð til álvera hér á landi sem Ketill kýs að styðjast ekki við. Allt gott um það. En þetta er rótin að því að ég átti stundum erfitt með að átta mig tölum Ketils, hvenær þær væru frá CRU og hvenær frá Landsvirkjun.

Úr því Ketill vísaði í gögn frá CRU fannst mér rétt að fram kæmi hvert mat greiningarfyrirtækisins er á meðalraforkuverði til álvera hér á landi. Ég hafði samband við CRU og fékk þær eftirfarandi upplýsingar:

„Á fyrsta ársfjórðungi 2015, var vegið meðtaltal raforkuverðs sem íslensk álver greiða, samkvæmt helstu sérfræðingum CRU International, nánast það sama og meðalverð til frumframleiðslu á áli í heiminum, fyrir utan Kína.“

Í bréfi sínu segist Ketill einnig hafa haft samband við CRU og fengið þær upplýsingar að líklega hafi mat fyrirtækisins á raforkuverði til álvera á Íslandi verið of hátt. Ég hef ekki heyrt af því hjá CRU. Ég fékk hinsvegar þær upplýsingar hjá CRU að nýrri tölur væru komnar fram um raforkuverð til álvera og að þær breyttu ekki að neinu ráði stöðu Íslands í samanburði við aðrar þjóðir hvað varðar raforkuverð til álvera.

Ekki í lægsta þriðjungi

Í ársreikningum Landsvirkjunar er meðalverð til iðnaðar uppgefið 25,9 dollarar á megavattstund. Í bréfi sínu teflir Ketill hinsvegar fram upplýsingum um að meðalverð Landsvirkjunar til álvera sé „rétt rúmir 26 USD/MWst“. Ég hef engar forsendur til að dæma um hvort það sé rétt og veit ekki til hvaða gagna Ketill vísar þar.

Ketill segir þessar tölur eiga við um árin 2013 og 2014. Uppgefið meðalverð Landsvirkjunar til iðnaðar árið 2013 er 25,8 dollarar. Ég hef áður vísað til þess á þessum vettvangi, að árið 2013 hafi meira en þriðjungur af öllu áli utan Kína verið framleitt við lægra rafmagnsverð en 25,8 dollara, nánar tiltekið 34,6% allrar álframleiðslu utan Kína samkvæmt upplýsingum frá greiningarfyrirtækinu CRU.

Það þýðir að Ísland eða nánar tilgreint Landsvirkjun var samkeppnishæf hvað varðar orkuverð til álframleiðslu árið 2013 en samt ekki í lægsta þriðjungi.

Fjárfestingarverkefni Norðuráls

Í mínum skrifum hef ég ekkert fjallað um viðræður Norðuráls og Landsvirkjunar um orkusamning sem kemur til endurnýjunar árið 2019 og það er ekki á mínu borði. Í pistlinum sem Ketill vísar til var ég fyrst og fremst að velta fyrir mér verðþróun á raforku erlendis og samanburði CRU á orkuverði milli landa.  

Það er hinsvegar vert að benda á að Norðurál vinnur nú að fimm ára fjárfestingarverkefni upp á á annan tug milljarða, sem felst í að bæta rekstraröryggi, auka framleiðslu um 50 þúsund tonn, ásamt því að framleiða flóknari og virðismeiri afurðir – sem er næsta skref í virðiskeðjunni. Liður í þessu fjárfestingarverkefni var stór samningur við íslensk fyrirtæki um að sérhanna vélar og búnað fyrir skautsmiðju Norðuráls. 

Íslensk þjónustufyrirtæki hafa selt búnað til álvera um allan heim. Búnaður frá VHE í Hafnarfirði er nú notaður í álverum í 30 löndum og nýlega gerði fyrirtækið stóran samning um sölu á búnaði til systurfyrirtækis Norðuráls í Kentucky í Bandaríkjunum. Það er gott dæmi um virðisaukann af áliðnaði í íslensku samfélagi.

Pétur Blöndal

Pétur Blöndal

Þessa þanka skrifar framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, bókahöfundur og forðum blaðamaður.

Meira