c

Pistlar:

8. febrúar 2018 kl. 16:06

Davíð Þorláksson

Hvað verður um starfið þitt?

Menntadagur atvinnulífsins verður haldinn í Silfurbergi Hörpu fimmtudaginn 15. febrúar næstkomandi. Dagurinn, sem nú er haldinn í fimmta sinn, er að þessu sinni tileinkaður hlutverki skólakerfis og atvinnulífs við að búa fólk undir tæknibreytingar sem standa yfir.

Þessar breytingar vofa ekki aðeins yfir okkur, heldur eru þær hafnar víða um land. Við erum vön sveiflum á vinnumarkaði á Íslandi. Lítið hagkerfi eins og okkar, sem byggir afkomu sína einkum á sjálfbærri nýtingu auðlinda til lands og sjávar, er sérstaklega viðkvæmt fyrir sveiflum í náttúrunni og síbreytilegum ytri aðstæðum. Við höfum því rúmlega þúsund ára reynslu við að laga okkur fljótt að breytingum. Við værum ekki enn hér á þessu landi ef svo væri ekki.

Aðlögunarhæfni er lykillinn
Það eru nefnilega ekki þeir sterkustu sem lifa af, heldur þeir sem best geta lagað sig að breytingum. Og nú er komið að bæði menntakerfinu og atvinnulífinu sem verða að hjálpa fólki við að búa sig undir þessar tæknibreytingar. Ekki bara ungu fólki, sem er í námi og bíður þess að hefja þátttöku í atvinnulífinu, heldur ekki síst fólki sem hefur lokið formlegri skólagöngu og er þegar starfandi á vinnumarkaðnum.

Sífellt hraðari breytingar þýða að allir verða að huga reglulega að endurmenntun, allt frá því skólagöngu líkur og fram á sjötugsaldur. Skólarnir verða að huga að því hvernig þeir geta undirbúið starfsmenn framtíðarinnar betur fyrir meiri og örari breytingar. En ekki síður verða fyrirtækin að huga að því hvernig þau geta aðstoðað starfsfólk sitt við að tileinka sér breytingar sem óhjákvæmilega verða á störfunum í hverju fyrirtæki. Líklegt er að fullorðinsfræðsla og endurmenntun verði sífellt mikilvægari og umfangsmeiri hluti menntakerfis okkar í framtíðinni. Stjórnvöld og atvinnulífið verða að móta sameiginlegar áherslur á þessu sviði til að tryggja að samkeppnishæfni hagkerfisins, fólks og fyrirtækja, dragist ekki aftur úr því sem best gerist í nálægum ríkjum.

Fyrirmyndarfyrirtæki
Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þess hafa hvatt fyrirtæki til dáða til að mennta starfsfólk sitt, til dæmis með árlegu vali á menntafyrirtæki ársins. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eru til fyrirmyndar þegar kemur að menntun starfsmanna sinna. Menntafyrirtæki síðustu ára – Samskip, Marel, Icelandair hótel og Alcoa fjarðaál – eru þar fremst meðal jafningja. Á menntadaginn mun síðan enn eitt fyrirtækið bætast í hóp þessara fyrirmynda í atvinnulífinu.

Samkvæmt kjarasamningum greiða vinnuveitendur tiltekið hlutfall af launum sem starfsmenntagjald sem rennur til starfsmennasjóða. Fyrirtæki geta sótt um styrki úr þessum sjóðum til að standa fyrir fræðslu fyrir starfsmenn sína. Við verðum að nýta það fé betur sem rennur til sjóðanna til aðstoða starfsfólk við að efla færni sína. Sjóðirnir ættu líka að huga að því hvernig þeir geti enn betur aðstoðað fólk og fyrirtæki til að viðhalda þekkingu sinni og færni í síbreytilegu starfsumhverfi.

Við erum með góðan grunn. Við erum vel menntuð þjóð með gott skólakerfi sem á að vera vel búið til að takast á við breytingar. Nú reynir á hvernig við nýtum þau tæki sem við höfum. Atvinnulífið gerir kröfur um að skólarnir fylgist með þjóðfélags- og tæknibreytingum á hverjum tíma og að menntunin breytist til samræmis við þarfir fyrirtækjanna. Einungis þannig tryggjum við að íslenskt samfélag verði áfram í fremstu röð.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum 8. febrúar 2018.

Frekari upplýsingar um menntadag atvinnulífsins og skráning.

Davíð Þorláksson

Davíð Þorláksson

Forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins. MBA frá London Business School og lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Meira