c

Pistlar:

16. nóvember 2022 kl. 11:50

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Orðspor

1597426161_samherji_dalvik

Gróa á Leiti hefur alltaf verið stór hluti af íslenskri þjóðarsál og fljótt flýgur fiskisaga segir máltækið. 

Margir, af ýmsum tilefnum, hafa komið fram í opinberri umræðu síðustu daga talandi digurbarkalega um orðspor einstaklinga, atvinnugreina og jafnvel landa.  

Atvikið sem kveikti áhuga minn á því að skoða þetta betur varð á Alþingi okkar íslendinga Þegar háttvirtur Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir sté á stokk og svaraði fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu þingmanni Pírata sem vildi fá að vita hvað ráðherranum fyndist um að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hefðu boðið Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja að halda ræðu á sjávarútvegsdeginum. Það að þingmaður skuli spyrja ráðherra í sölum Alþingis um hvort forstjóri eins stærsta og glæsilegasta sjávarútvegsfyrirtækis landsins megi tala á fundi SFS um sjávarútvegsmál vekur furðu mína. Þarna er þingmaðurinn að upphefja sjálfan sig í stöðu bæði saksóknara og dómara og hvetja til slaufunnar á þegn þessa lands sem hefur hvorki verið ákærður eða dæmdur. En víkjum að ráðherranum sem í niðurlagi svar síns sagði eftirfarandi:

"Hins vegar vil ég segja vegna spurningarinnar sem hv. þingmaður ber hér upp að það er auðvitað staðreynd að um er að ræða alvarlegar ávirðingar og alvarleg mál sem eru í rannsókn á þessu sviði, mál sem geta skaðað og hafa skaðað orðspor íslensks sjávarútvegs og fram hjá því verður auðvitað ekki litið, hvorki í þessu samhengi né öðru.” (breiðletrun höfundar) Þetta er afskaplega stór fullyrðing sem ráðherra setur hér fram. 

Ensk þýðing á orðinu orðspor er oftast reputation en einnig hefur enska orðasambandið word-of-mouth einnig verið þýtt sem orðspor. Við hér á íslandi notum yfirleitt orðspor fyrir lönd, fyrirtæki og atvinnugreinar og orðstír þegar rætt er um einstaklinga.

Orðspor er almennt talin óáþreifanleg eign sem getur, ef rétt er staðið að málum, gert atvinnugreinina verðmætari í huga almennings. Sterkt og traust orðspor er því hluti af ímynd íslensks sjávarútvegs á heimsvísu sem byggjast á eiginleikum eins og Hreinu hafi, sjálfbærum veiðum, virðingu við náttúruna, bragði, áferð, lykt og framsetningu íslensks sjávarfangs.  Þessi eigindi mörg saman skapa orðspor íslensks sjávarútvegs. Hegðun eða framkoma einstaklinga hver svo sem á í hlut hefur hér ekkert eða í besta falli lítið sem ekkert að segja fyrir orðspor íslensks sjávarútvegs.

Raunar er það svo að orðspor er líka óáþreifanlegt, byggt á tilfinningu og m.a. Þess vegna er almennt viðurkennt að það er nokkrum erfiðleikum er bundið að mæla það. Þó eru til viðurkenndar aðferðir. Með reglulegum könnunum er hægt að vakta hvort gjá sé að myndast milli orðspors og raunveruleikans. 

Þá erum við komin að kjarna þessa pistils. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hvorki ráðherrann né þeir þingmenn sem hafa notað orðið „orðspor“ til að berja á andstæðingum sínum, hafa látið gera á því mælingar eða kannanir hvort fullyrðingar þeirra eigi við rök að styðjast. Hafi ég rangt fyrir mér ætti að vera auðvelt fyrir þessa aðila að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings.  

Og til að færa enn sterkari rök fyrir áliti mínu er hér lítil dæmisaga:

Ákvörðun þáverandi heilbrigðisráðherra að slíta samningi við Krabbameinsfélagið um skimanir fyrir leghálskrabbameini, án þess að aðrir aðilar væru tilbúnir að taka við verkefninu. Var aðgerð sem setti þúsundir kvenna í alvarlegt uppnám. Svo mikið var uppnámið að stofnuð voru sérstök baráttusamtök undir heitinu „Aðför að heilsu kvenna“.  

Íslenska heilbrigðiskerfið beið ekki orðspors hnekki af ákvörðunum þáverandi heilbrigðisráðherra. En orðstír hennar sjálfrar kann að hafa skaðast. En fyrir því hef ég auðvita engar sannanir.

Ljósmynd: Vefur Samherja
Myndband: Vefur Alþingis

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur