Innlendar fréttir ársins 2014

Eldgosið í Holuhrauni vakti mikla athygli, bæði hérlendis sem erlendis.
Eldgosið í Holuhrauni vakti mikla athygli, bæði hérlendis sem erlendis. mbl.is/Árni Sæberg

Árið sem er að líða var viðburðaríkt eins og önnur ár. mbl.is hefur tekið saman helstu innlendu málefni ársins að okkar mati.

Til viðbótar þessari samantekt geta lesendur flett í gegnum innlend fréttaknippi mbl.is, þar sem fréttum um hvert málefni er safnað saman.

Leiðréttingin

Skuldaleiðrétting fasteignaskulda var helsta stefnumál Framsóknarflokksins í Alþingiskosningunum árið 2013.

Leiðréttingin svokallaða var svo kynnt á blaðamannafundi í Hörpu 30. nóvember 2013. Leiðréttingin er tvíþætt, annars vegar bein leiðrétting verðtryggðra fasteignalána, og hins vegar notkun séreignasparnaðar til að greiða inn á fasteignalán, eða til að spara fyrir íbúðarkaupum.

Aðgerðin sætti gagnrýni, til dæmis frá stúdentum sem segja hana ekki ná til ungs fólks og leigjenda. Þar að auki gagnrýndi Pétur H. Blöndal aðgerðirnar, og benti á að flest heimili væru vel stödd og þyrftu ekki á aðgerðunum að halda.

Nokkrar tafir urðu á framkvæmd aðgerðanna. Séreignasparnaður var ekki greiddur út fyrr en um miðjan desember, og ekki var hægt að samþykkja fjárhæð leiðréttingarinnar fyrr en á Þorláksmessu.

Mjólkursamsalan og Samkeppniseftirlitið

Mjólkursamsölunni (MS) var þann 22. september gert að greiða 370 milljónir í sekt vegna meintra samkeppnislagabrota félagsins, sem voru sögð felast í misnotkun á markaðsráðandi stöðu MS. 

Einar Sigurðsson, forstjóri MS, sagði ekkert hæft í ásökunum. Ákvörðun var þó tekin um að selja alla mjólk á sama verði sem varúðarráðstöfun, en í því fólst að sögn Einars ekki viðurkenning á brotum MS.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi úr gildi sektarákvörðun Samkeppniseftirlitsins og fól því að rannsaka málið nánar eftir að samningur kom fram sem ekki hafði legið fyrir þegar Samkeppniseftirlitið rannsakaði málið. MS fékk sektarfjárhæðina endurgreidda.

Breytingar á klukkunni

Þingmenn allra flokka lögðu fram þingsályktunartillögu þess efnis að klukkunni yrði seinkað um klukkutíma. Tilgangur breytinganna var að auka birtu á morgnana, sem hafði þó í för með sér minni birtu síðdegis. mbl.is kannaði hvernig birtan myndi breytast ef þessar breytingar yrðu að veruleika:

Svona birtir með breyttri klukkuSvona dimmir með breyttri klukku

Lekamálið

Lekamálið svokallaða vakti mikla athygli. Málið hófst þegar Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, lak upplýsingum um hælisleitandann Tony Omis til fjölmiðla í nóvember í fyrra.

Málið var kært til lögreglu, Gísli Freyr játaði að hafa lekið gögnunum og Hanna Birna sagði af sér, einu ári og einum degi eftir að málið hófst. Ólöf Nordal tók við ráðuneytinu, en hún er ekki á þingi.

Ólöf segist hafa þurft að hugsa sig vel um áður en að hún tók ákvörðun um að taka við ráðherraembættinu.

Beyoncé og Jay-Z

Ofurparið Beyoncé Knowels og Jay-Z komu til Íslands til að halda upp á fertugsafmæli rapparans fræga. Lesendur mbl.is fylgdust spenntir með ferðum þeirra um landið.

Af myndum Beyoncé að dæma virðast þau hafa verið hin ánægðustu með heimsóknina.

Eldgos í Bárðarbungu

Eftir langa skjálftahrinu í og við Bárðarbungu kom loks að því, aðfaranótt 29. ágúst, að kvikan braut sér leið gegnum jarðskorpuna og kom upp á yfirborðið í Holuhrauni.

Eldgosið vakti mikla athygli bæði hér heima og erlendis, enda flestum ferðamönnum í fersku minni þegar Eyjafjallajökull lamaði flugsamgöngur í norðanverðri Evrópu. Töluverð gasmengun hefur borist frá eldstöðvunum, sem hafði töluverð áhrif á loftgæði, en skilaði líka ótrúlega fallegri sólarupprás yfir höfuðborginni.

Gosið er að sögn Ármanns Höskuldssonar á besta stað, fjarri mannabyggðum og jöklum. Eldgosið er engu að síður átakanlega fallegt, eins og sjá má á þessum myndum sem Ragnar Axelsson, ljósmyndari mbl.is, tók þegar hann flaug yfir gosstöðvarnar.

Eldgosið sýnir engin merki þess að því sé að ljúka, en eldfjallafræðingurinn Haraldur Sigurðsson spáir að því muni ljúka í mars á nýju ári. 

Við ger­um því ráð fyr­ir að á 173 degi frá 12. sept­em­ber sé lík­leg­ast að gosið muni enda,“ skrifar Haraldur.

 „For­send­ur fyr­ir slíkri spá eru þess­ar: Það er kvikuþró und­ir Bárðarbungu, á um 8 km dýpi. Kvikuþrýst­ing­ur í þrónni leiddi til þess, að kvika braust út og myndaði kviku­gang til norðurs, sem kom upp í Holu­hrauni. Rennsli kviku út úr þrónni hef­ur dregið úr þrýst­ingi inni í henni og valdið sigi á botni öskj­unn­ar fyr­ir ofan.

Með tím­an­um dreg­ur úr þrýst­ingi og sigið hæg­ir á sér, og einnig þar með minnk­ar rennsli upp í Holu­hraun. Þetta er ein­fald­asta sýn­in á at­b­urðarás­ina og ekki endi­lega sú rétt­asta, en ein­hversstaðar verðum við að byrja,“ skrifar Haraldur.

Hér má sjá myndaseríu Ragnar Axelssonar af eldgosinu:

Vín í verslanir

Umræða um sölu áfengis í verlunum skaut enn eina ferðina upp kollinum, nú í kjölfar þess að Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og fleiri þingmenn lögðu fram frumvarp um að afnema einkasölurétt ríkisins á áfengi.

Umsagnaraðilar hafa ekki tekið vel í frumvarpið, og þá lögðust þingmenn Framsóknarflokksins í velferðarnefnd báðir gegn frumvarpinu.

Iceland Airwaves

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var að venju haldin í byrjun nóvember. Hátíðin fór af stað með óhefðbundnum hætti, á utandagskrártónleikum (e. off-venue) Júníusar Meyvant og Ylju á Grund.

Myndir segja sennilega meira um hátíðina en þúsund orð. Hér má sjá myndir af fyrsta, öðru, þriðja, fjórða og fimmta kvöldi hátíðarinnar.

Hátíðin gekk að vonum vel og er miðasala á hátíðina á næsta ári þegar hafin.

Þar sem ísinn rymur

Ragnar Axelsson, ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins, fór ásamt góðu föruneyti í leiðangur til Grænlands, þar sem hann tók ótrúlega fallegar myndir.

Í sérblaði sem gefið var út með Morgunblaðinu skrifuðu meðal annarra Heiðar Guðjónsson og Haraldur Sigurðsson um upplifun sína of sýn á Grænland. Heiðar benti meðal annars á að, þrátt fyrir að Ísland og Grænland væru nágrannar, þá vissu Íslendingar sennilega meira um tunglið en Grænland.

Gjaldtaka á ferðamannastaði - náttúrupassi

Í kjölfar gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna á Íslandi, með tilheyrandi umgengni um óspillta náttúru landsins, ákvað Ragnheiður Elín Árnadóttir að taka upp svokallaðan náttúrupassa, þar sem ferðamönnum, innlendum sem erlendum, verður gert að kaupa þriggja ára aðgangsheimild að náttúruperlum landsins fyrir 1.500 krónur. 

Frumvarp ráðherrans hefur mætt nokkurri andstöðu, en þingmenn Framsóknarflokksins voru efins um frumvarpið. Ragnheiður segist þó opin fyrir breytingum á frumvarpinu. Auk þess hefur stuðningur Íslendinga við frumvarpið minnkað á undanförnum mánuðum.

Stórbruni í Skeifunni

Mikill bruni varð þegar kviknaði í húsnæði efnalaugarinnar Fannar í júlí. Allt tiltækt slökkvilið var kallað til og fólki gert að halda sig frá athafnasvæði slökkviliðsins.

Sumir virtust þó láta það sem vind um eyru þjóta, því mörg hundruð manns hópuðust kringum brunann.

Mikið tjón varð, og var fjöldi fyrirtækja í hættu meðan slökkviliðið var að ná tökum á eldinum. Þrátt fyrir það sluppu nærliggjandi hús og fyrirtæki ótrúlega vel, en hvorki sást eldur né reykur í verslun Víðis.

Slökkviliðsmaðurinn Stefán Már Kristinsson vakti athygli alþjóðar, þegar hann hljóp út úr Hagkaupsverluninni í Skeifunni á stuttbuxunum til að aðstoða félaga sína, en Stefán var á frívakt þegar bruninn varð.

Byssumálið

Umræða um skotvopnaeign lögreglunnar komst í hámæli þegar DV fjallaði um málið í október. Upp komst að Landhelgisgæslan hafi keypt MP5-hríðskotabyssur af norska hernum í lok síðasta árs. Gæslan sagði þó að aldrei hafi staðið til að borga fyrir vopnin, þar sem slíkt hafi ekki verið gert gegnum tíðina.

Norðmenn lýstu yfir að reikningur yrði sendur fyrir vopnunum. Skömmu síðar kom í ljós að tollayfirvöld hér á landi hafi innsiglað vopnin, því ekki hafi verið búið að greiða af þeim tolla og gjöld. Málið var loks til lykta leitt þegar Landhelgisgæslan sendi frá sér tilkynningu þess efnis að vopnunum yrði skilað.

Í kjölfarið skapaðist nokkur umræða um hvort íslensk lögregla hefði þörf fyrir skotvopn almennt, og betra aðgengi að skotvopnum. Landssamband lögreglumann sagði þó í þeirri umræðu að lögreglan þyrfti vonandi aldrei að beita skotvopnum.

Skip strönduðu á Austfjörðum

Tvö skip strönduðu með skömmu millibili á Austfjörðum á árinu, annars vegar Akrafell og hins vegar Green Freezer.

Strand Akrafellsins þótti undarlegt, en í ljós kom að stýrimaður hafði sofnað í brúnni. Þá kom einnig í ljós að Landhelgisgæslan getur ekki mannað mörg skip með góðu móti, því sækja þurfti stýrimann af Ægi austur á firði til að sigla Þór á strandstað.

Green Freezer strandaði þegar afturhluti skipsins festist á skeri. Skipið losnaði af strandstað fljótlega eftir að það strandaði.

Sveitastjórnarkosningar

Sveitastjórnarkosningar fóru fram í vor. Erfitt er að fara í stuttu máli yfir helstu atriði kosninganna, enda mikið sem gekk á í kosningunum.

Helst má nefna að í fyrsta skipti í sögunni eru feðgin bæjarstjórar, þau Ásthildur Sturludóttir í Vesturbyggð og Sturla Böðvarsson í Stykkishólmi. 

Kjaradeila lækna

Kjaradeila lækna við ríkissjóð harnaði þegar læknar hófu verkfallsaðgerðir. Mikið álag var á Læknavaktinni og dæmi um að verkfallið hafi haft áhrif á aðgerð sem beðið var eftir í tvö ár.

Deiluaðilar funda mjög reglulega til að reyna að ná lendingu í deilunni, en mikið virðist bera á milli lækna og ríkisins. Í gær sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svo að ríkið gæti ekki teygt sig nær kröfum lækna.

Kjaradeilur kennara

Tónlistarkennarar og prófessorar í ríkisháskólum áttu einnig í kjaradeilum á árinu. Prófessorar hótuðu verkfalli á prófatíma, og tónlistarkennarar fóru í nokkuð langt verkfall. Að endingu náðust þó samningar, og ekki kom til verkfalls prófessora.

Hestar í Bessastaðatjörn

Mikinn óhug vakti þegar hestastóð féll í gegnum ís á Bessastaðatjörn með þeim afleiðingum að þau drápust.

Óveður í desember

Töluvert óveður gerði um miðjan desember. Á tímabili voru allar leiðir inn og út úr höfuðborginni lokaðar og margir sátu fastir í úthverfum. Mikla athygli vakti myndband úr Dalasýslu, sem sýndi storminn í allri sinni dýrð.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri fylgjast með kynningu á áhrifum skuldaleiðréttingar í Hörpu. KRISTINN INGVARSSON
Einar Sigurðsson, forstjóri MS.
Einar Sigurðsson, forstjóri MS. mbl.is/Ómar Óskarsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir. mbl.is/Golli
Beyonce Knowles og Jay-Z á sviði í janúar.
Beyonce Knowles og Jay-Z á sviði í janúar. AFP
Sólin skín í gegnum mengunarský frá eldgosinu í Holuhrauni.
Sólin skín í gegnum mengunarský frá eldgosinu í Holuhrauni. mbl.is/Golli
Hraunfljót.
Hraunfljót. mbl.is/RAX
Flaming Lips spiluðu á Airwaves.
Flaming Lips spiluðu á Airwaves. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ísjaki við Grænland.
Ísjaki við Grænland. mbl.is/RAX
Stórbruni í Skeifunni.
Stórbruni í Skeifunni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Griffill varð eldinum að bráð.
Griffill varð eldinum að bráð. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Byssur eru meðal þess sem tollstjóri hefur haldlagt.
Byssur eru meðal þess sem tollstjóri hefur haldlagt. Ljósmynd/Tollstjóri
Akrafell.
Akrafell. Ljósmynd/Jens G. Helgason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert