Pabbar með brotna karlmennsku

Heimavinnandi feður skipta máli að mati Esther Perel. Þeir ættu …
Heimavinnandi feður skipta máli að mati Esther Perel. Þeir ættu að finna tilgang heima, tala við aðra í þeirra stöðu og jafnvel finna sér hlutastarf utan heimilisins til að missa ekki tengingu við samfélagið. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Karlmenn í dag standa frammi fyrir alls konar áskorunum að mati sambandsráðgjafans Esther Perel. Á heimasíðu hennar má finna bréf sem hún fékk frá Zach sem er heimavinnandi faðir og býr í Kaliforníu. 

„Ég varð að hætta að vinna út af heilsufarslegum ástæðum og er núna heima að sjá um börnin okkar. Konan mín er orðin fyrirvinnan. Ég veit að ég ætti að vera ánægður með hvernig hlutirnir eru hjá okkur, þar sem þetta gengur allt upp, en mér líður eins og ég sé misheppnaður."

Í svari Perel má sjá að þessi áskorun er algeng á meðal karlmanna í dag. Þar sem þeir vilja gera allt sem þeir geta til að vera eins mikið til staðar og þeir geta fyrir börnin sín og fjölskylduna, en síðan hafa hugmyndir okkar um kynhlutverk áhrif. 

„Hugmyndir okkar um karlmennskuna eru brothættari en hugmynd okkar um konur. Í mörgum menningarheimum eru konur fæddar konur, en karlar verða karlmenn. Oft og tíðum verður karlmaður karl ef hann afneitar hinu kvenlega í sér. Þetta getur verið flókið fyrir bæði konur og karla þar sem við erum að endurskilgreina kynhlutverkin í dag. 

Ég hef unnið með mörgum karlmönnum í þinni stöðu. Mönnum sem finnst þeir hunsaðir á leikvellinum á meðal mæðranna. Mönnum sem finnst þeir ekki nóg af því þeir eru ekki að sjá fyrir fjölskyldunum sínum. Jafnvel þótt þeir séu að sjá um börnin. Fyrir suma ykkar getur þetta jafnvel lent á börnunum, ef ykkur líður mjög illa með þetta. 

Þótt þú getir ekki stjórnað hvað kom fyrir heilsuna þína getur þú stjórnað hvað kemur út úr þessu. Mér dettur í hug orð Viktor Frankl í bókinni Leitin að tilgangi lífsins: Þú getur oft ekki stjórnað aðstöðunni sem þú ert í en þú getur stjórnað viðbrögðum þínum í aðstæðunum.

Þú verður að finna að þú sért einhvers virði, bæði fyrir börnin og samfélagið. Finndu fleiri feður sem eru í þinni stöðu og tengdu við þá. Skoðaðu að fara út á vinnumarkaðinn eða að taka að þér verkefni í hlutastarfi. Talaðu við maka þinn um hvernig þér líður, svo þið getið verið til staðar fyrir hvort annað. Mundu að þótt þér líði núna eins og það sé erfitt að fóta sig í þessum aðstæðum, þá ertu ekki sá eini sem ert í þinni stöðu. Það hafa fleiri menn lent í svipuðu og fundið leiðina til að verða sáttir á þessum stað og vera mikils virði fyrir sig sjálfa, fjölskylduna og aðra. Þú ert ekki einn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert