Hvað er hægt að gefa heimsreisufara?

Ekki er góð hugmynd að gefa ferðalanginum bækur.
Ekki er góð hugmynd að gefa ferðalanginum bækur. Ljósmynd/Pexels

Það getur verið snúinn leikur að kaupa gjöf handa einhverjum sem hyggst fara í langt ferðalag á næstu misserum. Nú fer senn að líða að jólum og eflaust þó nokkrir sem leggja land undir fót í janúar og stefna á framandi slóðir.

Þá er spurningin sú: á að gefa heimsreisufaranum eitthvað sem hann getur ekki notað fyrr en hann kemur heim úr ferðalaginu eftir 3 mánuði eða meira? Það er vissulega möguleiki en það er líka hægt að gefa eitthvað sem nýtist á ferðalaginu. 

Það er dýrt að fara í heimreisu, fyrir utan allan kostnað við ferðalagið sjálft eins og flugmiða og gistingu þá getur búnaðurinn sem fólk tekur með sér einnig kostað mikið. Þá er sniðugt að spyrja ferðalanginn hvort það sé eitthvað sem hann sé ekki búinn að kaupa sér og stefni á að kaupa.

Ef þið viljið koma ferðalanginum á óvart eru pokar eða bakpokar sem hægt er að brjóta saman í lítinn vasa einstaklega handhægir á löngu ferðalagi. Þá er einnig hægt að finna handklæði sem hægt er að pakka saman í lítinn poka í öllum helstu útivistarvöruverslunum.

Nokkurra mánaða áskrift að hljóðbókaforritinu Storytel er góð hugmynd sem eflaust slær í gegn hjá ferðalanginum. Einnig má nefna gjafabréf í rafbókaverslun, til dæmis hjá Amazon fyrir Kindle, eða hjá Forlaginu. Ef ferðalangurinn á ekki Kindle eða aðra spjaldtölvu mætti líka gefa honum peninga upp í slíkt tæki.

Millistykki með öllum helstu klóm heimsins er einnig einstaklega nytsamleg gjöf sem heldur áfram að nýtast þegar ferðalaginu lýkur.

Ekki er sniðugt að gefa bækur eða aðra þunga hluti sem geta þvælst fyrir heimreisufaranum á ferðalagi sínu um heiminn.

Ef allt þetta klikkar er ekki vitlaust að gefa viðkomandi peninga, annaðhvort gjaldeyri eða íslenskar krónur, sem hann getur nýtt í eitthvað skemmtilegt á ferðalaginu eða upp í búnað sem hann á eftir að kaupa sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert