Kardashian keypti bíl sem var kynntur á hálendi Íslands

Kim Kardashian á glæsilegan bílaflota.
Kim Kardashian á glæsilegan bílaflota. Samsett mynd

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian er ekki þekkt fyrir að spara þegar kemur að farartækjum, en nú hefur hún bætt við bílaflotann sinn glænýjum Cybertruck frá Teslu. 

Bíllinn sem um ræðir er rafknúinn pallbíll sem Elon Musk, forstjóri Tesla, frumsýndi í desember 2019. Bíllinn vakti strax mikla athygli og í desember 2023 fór kynningarherferð um bílinn af stað þar sem hálendi Íslands gegndi lykilhlutverki. Ljósmyndarinn Benjamin Hardman var einn þeirra sem komu að tökum á auglýsingunum. 

Ófeimin við að sýna nýja bílinn

Kardashian hefur verið ófeimin við að deila myndum af nýja bílnum á samfélagsmiðlum sínum, en í gær birti hún myndaröð þar sem hún sést stíga út úr Cybertruck-bílnum sínum til þess að fá sér kaffi á Starbucks í Malibu. 

Þótt Cybertruck-bíllinn sé sannarlega ekki dýrasta farartæki Kardashians þá er ekki auðvelt að eignast slíkan bíl, en Musk hefur áður sagt að fyrirtækið muni einungis selja um 200.000 til 250.000 eintök á ári til ársins 2025. 

Á rándýran bílaflota

Í bílaflota Kardashian má meðal annars finna sérsniðinn Mercedes-Maybach GLS 600 sem kostar um 250.000 bandaríkjadali, eða tæpar 34,8 milljónir á gengi dagsins í dag, Lamborghini Urus sem kostar um 400.000 bandaríkjadali, eða rúmar 55,6 milljónir, og Rolls-Royce Ghost sem kostar um 350.000 bandaríkjadali, eða tæpar 48,8 milljónir að því er fram kemur á vef Page Six

Þar kemur einnig fram að Cybertruck-bíllinn sem Kardashian keyrir hafi kostað um 96.000 bandaríkjadali, eða rúmar 13,3 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert