„Corona“ kallað á eftir íslenskum ferðamönnum í Indlandi

Fjölskyldan á góðri stundu í Indlandi.
Fjölskyldan á góðri stundu í Indlandi. Ljósmynd/Aðsend

Stefán Hrafn Sigfússon segir að Asíuferð fjölskyldunnar hafi breyst á einni nóttu. Stefán, eiginkona hans Valdís og dóttir þeirra Áróra Björk höfðu verið á ferðalagi vítt og breitt um Asíu frá því í apríl í fyrra. Þau eru nú komin heim til Íslands eftir heldur óskemmtilega upplifun á Indlandi.

„Við vorum komin til Indlands og tókum næturrútu til Nagpur sem er kölluð „Orange city“ og er á Mið-Indlandi. Þegar við komum á hótelið sem við höfðum pantað var okkur tjáð að engir útlendingar væru leyfðir þar þannig að klukkan níu um morgun urðum við að fara af stað og finna okkur annað hótel sem við og gerðum. Þar fengum við frábæra þjónustu.

Við fórum svo bara að skoða okkur um og borðuðum að lokum kvöldmat og héldum upp á hótel um klukkan átta. Þegar við komum þangað tók starfsfólkið á móti okkur með þær fréttir að lögreglan hefði komið og sagt að engir útlendingar væru leyfðir á hótelum í miðbænum nema að því gefnu að hægt væri að framvísa læknisvottorði um að við værum ekki með veiruna. Okkur var því hent út en þau náðu að redda öðru hóteli fyrir okkur sem var um 8 km fyrir utan borgina. Þetta var mjög óþægileg aðstaða að vera í með lítið barn,“ segir Stefán. 

Daginn eftir fóru þau að reyna að útvega sér vottorð um að þau væru ekki smituð af kórónuveirunni. Þau héldu á einn af ríkisspítölunum í Nagpur. Þar tók við þeim óskemmtileg sjón. 

„Fólk var að koma úr aðgerð og var bara sent heim strax að henni lokinni. Það var svo vont að horfa upp á þetta. Mikið af fólki var búið að setja upp klúta og grímur og greinilegt að það var hrætt eftir að hafa heyrt fréttir síðustu daga. Okkur leið ekkert vel að labba þarna í gegn þar sem fólk horfði hræddum augum á okkur. Starfsfólk spítalans gat ekki útvegað okkur vottorð og enduðum við á einkaklíník hjá lækni sem var eflaust blindur en með tvær aðstoðarmanneskjur. Þar mældu þau hitann, blóðþrýsting og hlustuðu okkur. Fengum við uppáskrifað að við værum fullkomlega heilsuhraust,“ segir Stefán. 

Áróra Björk alsæl á ferðalagi.
Áróra Björk alsæl á ferðalagi. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar þarna var komið var fólk líka farið að kalla á eftir okkur „corona“ þegar við gengum framhjá og fannst okkur það mjög óþægilegt og vorum orðin frekar óörugg — nokkuð sem við höfðum aldrei upplifað á okkar tæplega 11 mánaða ferðalagi um Asíu. Okkur leið sennilega svipað og Kínverjunum leið í byrjun árs þegar þeir voru litnir hornauga og urðu fyrir aðkasti á Vesturlöndum eða um allan heim.“

Eftir ráðleggingar frá vinum ákváðu þau að fljúga til Góa á Suður-Indlandi þar sem meira er um ferðamenn. Stefán segir að þeim hafi liðið vel í borginni þá tvo daga sem þau dvöldu þar. 

Þarna var Indland hætt að gefa út vegabréfsáritanir til ferðamanna allavega fram í miðjan apríl og mörg flugfélög byrjuð að aflýsa flugi til og frá Indlandi. „Við urðum því frekar stressuð og fólkið okkar hérna heima vildi fá okkur heim sem fyrst. Við pöntuðum því miða á sunnudegi og hófum ferðalagið heim á mánudagskvöldi. Ferðalagið heim var langt eða um 26 tímar og fjórar flugferðir. En nú erum við komin „heim“ í sjálfskipaða sóttkví. Við höfðum samband við landlækni og þar sem við vorum ekki á skilgreindu áhættusvæði er ekki þörf á sóttkví,“ segir Stefán.

„Þetta er svo furðulegur og fjarstæðukenndur endir á annars frábæru ferðalagi. Við erum búin að upplifa svo margt fallegt og yndislegt, kynnast frábæru fólki á þessu langa ferðalagi. Búin að eiga frábæran tíma saman sem fjölskylda sem við endum nú á að eyða saman í sóttkví í Kópavoginum. Við höfum ferðast til 14 landa sem var næstum hvert öðru betra. Við áttum yndisleg jól og áramót á Norður-Taílandi. Við vorum í Mjanmar þegar fréttir fóru að berast fyrir alvöru frá Kína en vorum alveg róleg þar vegna veirunnar sem og í Srí Lanka. Við eigum pottþétt eftir að ferðast aftur til Indlands og fara yfir til Nepals og klára þar með ferðina okkar einn daginn. Við mælum svo mikið með því að fara í svona reisu þegar tími og tækifæri gefst á því, þetta hefur gefið okkur svo mikið ,“ segir Stefán.

Fjölskyldan átti góða mánuði saman á ferðalagi sem því miður …
Fjölskyldan átti góða mánuði saman á ferðalagi sem því miður styttist vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert