Handtekin fyrir að fara á brimbretti í einangrun

Spænsk kona var handtekin á ströndinni við San Sebastian á Spáni í vikunni fyrir að brjóta reglur um sóttvarnir. Konan hafði greinst með kórónuveiruna nokkru áður og hefði átt að vera í einangrun.

Lögreglan í San Sebastian fékk ábendingu um að konan hefði sést á brimbretti við ströndina. Konan er gæslumaður á umræddri strönd og létu samstarfsfélagar hennar lögregluna vita þegar þeir sáu hana þar. 

Lögregluþjónar fóru niður að strönd og báðu hana að koma í land. Hún hlýddi ekki fyrirmælum lögreglunnar og reyndi að flýja. Þá reyndi lögreglan að nálgast hana á björgunarbát en hún vildi ekki koma í land. Eftir rúmlega klukkustund í sjónum kom hún í land og var þá handtekin fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu. 

Myndbönd náðust af konunni og var þeim deilt samstundis á samfélagsmiðlum. Á þeim má sjá konuna reyna að stinga lögregluna af en að lokum var hún handjárnuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert