Líka mikilvægt fyrir feður að hittast og æfa

Atli Fannar Bjarkason, einn af eigendum líkamsræktarstöðvarinnar Afrek, og Tindur …
Atli Fannar Bjarkason, einn af eigendum líkamsræktarstöðvarinnar Afrek, og Tindur sonur hans.

Mömmutímar í líkamsræktarstöðvum hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og fyllist hvert námskeiðið á fætur öðru í flestum líkamsræktarstöðvum á landinu. Atli Fannar Bjarkason, einn af eigendum líkamsræktarstöðvarinnar Afrek, segir að það sé líka mikilvægt fyrir nýbakaða feður að hitta aðra feður og æfa með þeim, þó feðurnir þurfi ekki að gera samskonar æfingar og mæður eftir meðgöngu. 

Afrek fer af stað með pabbatíma í byrjun júní en stöðin opnaði rétt fyrir síðustu jól og er staðsett í Skógarhlíð. Atli segir hugmyndina að pabbanámskeiði einmitt hafa kviknað út frá því hversu vel hefur gengið með mömmunámskeiðin sem Hildur Karen Jóhannsdóttir þjálfar. 

„Við fórum því að velta fyrir okkur hvort pabbar í orlofi þyrftu ekki alveg jafn mikið á því að halda að komast á æfingu með barnavagninn og mömmurnar, þó þeir þurfi ekki að gera samskonar æfingar af augljósum ástæðum. Niðurstaðan var sú að auðvitað ætti þessi valkostur að vera í boði; að geta mætt á æfingu með barnið, hitt aðra pabba og tekið svolítið á því í góðum félagsskap. Afrekspabbar urðu því að veruleika og við erum byrjuð að skrá á fyrsta námskeiðið sem hefst í júní,“ segir Atli Fannar í viðtali við barnavef mbl.is. 

Pabbarnir í Afreki hittast reglulega með börnin og æfa saman. …
Pabbarnir í Afreki hittast reglulega með börnin og æfa saman. Á myndinni eru Afrekspabbarnir Reginn Þórarinson, Henning Jónasson og Brynjar Smári Rúnarsson ásamt börnum sínum.

Pabbarnir látnir svitna

Atli segir að aðaláherslan í tímunum verði að þeir séu bæði krefjandi og skemmtilegir. „Við hvetjum pabbana til að taka börnin sín með á æfingarnar en þær taka mið af því að börnin séu í salnum. Það verða því ekki lóð á ferð og flugi og tónlistin verður ekki í botni. Í staðinn viljum við að andrúmsloftið sé afslappað og þægilegt fyrir bæði pabba og börn en pabbarnir verða samt að sjálfsögðu látnir svitna,“ segir Atli. 

Hann segir að engum feðrum né börnum verði vísað frá en að þau miði helst á pabba með lítil börn á orlofsaldri. „Við viljum að þeir geti komið með börnin með sér á æfingu, hvort sem þau sofa í vagni fyrir utan eða eru með á æfingunni.“

Hefði viljað geta tekið soninn með á æfingu

Sjálfur er Atli Fannar pabbi, en hann og sambýliskona hans Lilja Kristjánsdóttir eiga soninn Tind sem er fjögurra að verða fimm ára. Atli segir Tind litla stýra heimilishaldinu með harðri hendi og að í raun sé heimilið veröldin hans Tinds og þau Lilja fái að búa í henni. 

Þegar Atli var nýbakaður faðir hefði hann gjarnan vilja mæta í líkamsræktartíma með son sinn. „Ég var nokkuð duglegur við að hreyfa mig í fæðingarorlofinu og rölti þá með barnavagninn og reyndi að „synca“ saman æfinguna og daglúrinn. Þá svaf Tindur fyrir utan á meðan ég var á æfingu með barnapíutækið. Það tókst oft mjög vel en stundum vaknaði hann akkúrat þegar upphitun var að klárast og þá hefði komið sér vel að geta bara haft hann með á æfingunni,“ segir Atli. 

Hann bendir á að fæðingarorlof geti verið einmanaleg og yfirþyrmandi, sérstaklega þegar fólk var að eignast sitt fyrsta barn. „Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að hausinn sé í lagi og það er fátt betra fyrir andlega heilsu en góð æfing. Það getur líka verið mjög gagnlegt og gaman að hitta aðra í sömu sporum og maður sjálfur og deila reynslusögum um föðurhlutverkið.“

Atli, Tindur og Lilja Kristjánsdóttir.
Atli, Tindur og Lilja Kristjánsdóttir.

Kemur sífellt á óvart

Atli segir að það sem hafi komið honum mest á óvart við að verða pabbi hafi verið hversu hratt föðurhlutverkið lærist. „Maður veit ekki neitt þegar maður fær krílið í hendurnar og nokkrum misserum síðar er maður byrjaður að ræða um svefnþjálfun og uppeldi við aðra foreldra eins og maður sé nýbúinn að skila mastersritgerð í uppeldisfræði,“ segir Atli Fannar. 

Hann segir Tind litla koma honum stöðugt á óvart og að heyra hann nota orð og hugtök sem hann vissi ekki að hann væri búinn tileinka sér vera eitt það skemmtilega. 

„Ég vil bara að hann viti að hann geti alltaf leitað til mín og reyni að sýna það í verki. Ég vona að hann eigi eftir að geta talað við pabba sinn um allt og verði óhræddur við að opna sig um stór og lítil mál. Markmiðið er að skila honum sómasamlega frá okkur út í lífið og hann er svo góður og fyndinn og skemmtilegur og snjall að ég hef fulla trú á því að það takist,“ segir Atli spurður hvernig pabbi hann vill vera.

Í áherslunni leggur hann áherslu á að sonur hans sér kurteis og góður en á sama tíma hugrakkur og óútreiknanlegur. „Það er allt á áætlun. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvaðan prakkaraskapurinn sem brýst fram inni á milli kemur en ég gruna mömmu hans um að hafa verið vandræðaunglingur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert