Foreldrarnir ráðalausir því sonurinn neitar að fara í skólann

Ljósmynd/Unsplash

Kona hefur áhyggjur af því að sonur hennar glími við skólaforðun eftir að öllum takmörkunum tengdum kórónuveirufaraldrinum var aflétt. Hún segir að skólinn geri lítið í að hjálpa syni sínum og er ráðþrota. Spyr hún því ráða hjá sérfræðingi.

Eftir að takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt var sonur okkar í fyrstu spenntur fyrir því að fara aftur í skólann. Skólinn tók þó upp á því að auka bæði heimanám og allt nám sem á sér stað í skólanum vegna þess að börnin höfðu misst svo mikið úr. Sonur okkar átti mjög erfitt með það og missti gleðina og áhugann fyrir skólanum og í kjölfarið neitaði hann að fara í skólann. Síðastliðna þrjá mánuði höfum við reynt að tala hann til, bæði með því að reyna að sannfæra hann um að fara og með því að sárbæna hann um það. Við höfum meira að segja reynt að skipa honum að fara, sem mistókst hörmulega. Við reyndum að sýna honum mikinn stuðning, þar sem ég eða faðir hans biðum eftir honum á skólabókasafninu. Það gekk upp fyrir hann en við þurfum að mæta í vinnu. Barna- og unglingageðþjónustan hefur ekki hjálpað okkur mikið og höfum við fengið bréf frá sveitarfélaginu þar sem okkur var hótað sektum og lögsókn.

Hann var hægt og rólega farinn að komast upp á lagið með að mæta aftur í skólann þangað til í febrúar síðastliðnum þegar uppáhaldskennarinn hans fór á eftirlaun. Hann gat nefnilega treyst henni og að hún gæti stjórnað bekknum. Síðan þá hefur hann verið í miklu uppnámi og mjög sorgmæddur og skólaforðunin er komin aftur upp á yfirborðið. Að kenna honum heima er ekki möguleiki og okkur líður eins og við séum þau einu sem glíma við þetta.

Svar sérfræðingsins:

Þið standið alls ekki ein að þessu vandamáli og ég get sagt ykkur að hér er engin skyndilausn í boði. Menntakerfið á það til að líta á einstaka nemendur sem vandamálið frekar en að viðurkenna að skólaumhverfið og stefna stjórnvalda séu einnig hluti af þessu. Svo er foreldrum líka kennt um. Oft má sjá þá afstöðu að róttækar refsiaðgerðir, eins og sektir til foreldra, sé eina leiðin sem sé í boði. 

Þetta er þó ekki eina leiðin og ein leið passar svo sannarlega ekki öllum. Margir skólar eru hreinlega ekki æskilegt umhverfi fyrir börnin okkar. Þeir geta verið hávaðasamir, ógnvekjandi og yfirþyrmandi. Fjármagn er þó oftast af of skornum skammti til að eitthvað sé hægt að gera.

Það hljómar eins og sonur þinn hafi upplifað of mikla pressu til að vinna upp auk þess sem honum finnst hann ekki öruggur í skólanum. Kannski gerist þetta þegar hann finnur fyrir því að kennarinn missir stjórn í kennslustofunni. Honum var hent aftur óvarlega í þessar aðstæður. Börn finna fyrir meiri streitu þegar þeim er sagt að þau þurfi að vinna eitthvað upp og að þau þurfi að leggja meira á sig en vanalega.

Mörgum sem fundu ekki fyrir feimni fyrir kórónuveirufaldarinn finnst samskipti við annað fólk eftir alla einangrunina erfið. Mörg hver þurftu að efla félagsleg samskipti sín og sonur þinn virðist vera einn af þeim. Hann fann fyrir öryggi á meðan uppáhaldskennarinn hans var enn til staðar en núna er það öryggisnet horfið.

Þú þarft að setja pressu á skólann svo hann viðurkenni þarfir hans og að hann vanti fullorðinn einstakling sem hann treystir. Án trausts og öruggs sambands í skólanum mun sonur þinn eiga erfitt með að aðlagast að nýju. Taktu tilfinningar sonar þíns alvarlega svo hann finni að á hann sé hlustað og að þú skiljir hann. Haltu samt ró þinni svo honum finnist þú ekki vera gagntekinn af tilfinningum hans. Þetta mun smám saman kenna honum að hann mun á endanum geta náð stjórn á sínum eigin tilfinningum.

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert