Svona hjálpar þú barninu þínu að aðlagast nýju systkini

Unsplash

Nýtt barn er örugg leið til að hrista upp í fjölskyldulífinu. Frumburðir eiga oft í erfiðleikum þegar þeir átta sig á því að þeir eru ekki lengur miðpunktur athyglinnar og hvort sem frumburðurinn er smábarn eða kominn í grunnskóla er það fullkomlega eðlilegt að hann finni fyrir afbrýðisemi. Hvert barn mun koma þessum flóknu tilfinningum á framfæri með mismunandi hætti, allt frá óhóflegri ágengni upp í að forðast nýja systkinið.

Hvernig þú meðhöndlar viðbrögð þeirra getur haft áhrif á hvort barnið þitt líti á nýja systkinið sem vin eða óvin. Hér eru nokkur ráð til foreldra eftir aldri barnsins.

Börn undir tveggja ára aldri

Ung börn geta virst nánast utangátta þegar nýtt barn bætist í fjölskyldunar. Það getur þó verið tilfinningalega erfitt fyrir börn yngri en tveggja ára að verða stóri bróðir eða stóra systir. Ef eldra barnið virðist ekki vera í uppnámi vegna komu nýja barnsins er hugsanlegt að vandamál komi upp síðar.

Njóttu rólegheitanna í bili og vertu viss um að skipuleggja einhvern tíma á hverjum degi með eldra barninu þínu, jafnvel þótt það sé bara 15 mínútna saga á meðan yngra barnið er í fanginu hjá öðrum. Minntu þig á að brosa þegar eldra barnið kemur inn í herbergið, alveg eins og þú gerðir áður en þú fannst fyrir þreytunni sem fylgir því að vera með tvö börn.

Auðvitað geta smábörn verið frekar ósanngjörn, óháð því hvort nýtt systkini sé í myndinni. Ekki falla í þá gryfju að fara í samningaviðræður við barnið þitt. Ef eldra barnið vill að þú takir það upp á meðan þú sinnir því yngra, skaltu segja við það eldra að þér finnist líka leiðinlegt að geta ekki tekið barnið upp. Bjóddu barninu að koma og hjúfra sig upp við þig og yngra barnið og segðu að þú munir knúsa það eldra þegar þú hefur lokið því að sinna því yngra.

Láttu eldra barnið þitt vita að þótt þú elskir yngra barnið mjög mikið þá býrð þú ekki yfir minni ást til þess eldra. Þú getur einnig sagt að eldra barnið muni alltaf eiga sérstakan stað í hjarta þínu sem enginn annar getur tekið.

Tveggja til þriggja ára

Mörg börn á þessum aldri eiga það til að gráta, væla eða vera ágeng, sérstaklega eftir að nýjabrumið fer af nýja systkininu. Afturhvarf getur verið merki um afbrýðisemi hjá börnum á þessum aldri. Sum börn gætu viljað fara aftur á brjóst, jafnvel þótt það sé langt síðan þau vöndust af því. Rútína fyrir háttatíma getur dregist á langinn og rekist á við það yngra. Einnig gæti barn sem er vant því að sofa í sínu eigin rúmi skyndilega viljað sofa í þínu rúmi.

Gefðu blendnum tilfinningum barnsins þíns orð. Ræddu við eldra barnið þitt að þó ungabörn fá mikla athygli vegna þess að þau skorti sjálfstæði, þá eru fylgja því margir kostir að vera orðinn stór krakki. Þú gætir jafnvel beint þeim á þá kosti, til dæmis skemmtilegu leikföngin sem þau geta leikið sér með, ljúffenga matinn sem þau borða eða vini þeirra hjá dagforeldri eða úr leikskólanum.

Gott er að byrja undirbúning fyrir komu nýja barnsins á meðan meðgöngunni stendur, eins og til dæmist að venja barnið á nýja svefnrútínu áður en nýja systkinið kemur í heiminn.

Fjögurra til sex ár

Börn á þessum aldri eru oft skilningsríkari og þau geta verið ansi yfirveguð þegar kemur að nýju systkini. Börn á leikskólaaldri búa yfir betri hæfni til að takast á við ýmsa hluti, svo ekki sé minnst á hæfileikann til að skiptast á eða bíða lengur eftir snarli eða sögu. Líf þeirra er líka sjálfstæðara, heimur barnsins þíns stækkar og það er ekki eins háð foreldrinu. Að því sögðu þá eru foreldrarnir ennþá þær manneskjur sem barnið tengist mest. Ef það fær ekki þá athygli sem það þarf frá þér gæti barnið óttast að verið sé að skilja þau eftir út undan og brugðist illa við því.

Tími í einrúmi með eldra barninu getur verið það besta í stöðunni til að sefa óttann um að það sé skilið út undan. Jafnvel þótt það sé bara ferð í matvörubúðina skaltu bjóða því eldra með og skilja það yngra eftir heima með maka þínum, ef það er mögulegt. Gagnlegt er að gera ráð fyrir þessum tíma í daglegri rútínunni þinni, svo eldra barnið búist við því á hverjum degi. Þegar yngra barnið gerir eitthvað sem stuðar það eldra, skaltu segja við eldra barnið að þú vitir að aðlögunin er erfið. Gott er að draga djúpt andann með barninu svo það róist.

Sjö til átta ára

Erfiðara getur verið að fá börn á þessum aldri að tjá tilfinningar sínar. Áskorunin er að fá þau til að tjá hvers kyns afbrýðisemi sem gæti seinna meir leitt til slæmrar hegðunar, eins og að ögra, vera með skæting eða sýna yngra barninu augljóst tillitsleysi.

Gott er að spyrja eldra barnið hvort það muni eftir því þegar það var einbirni og segja frá því hvað því finnst öðruvísi við lífið núna. Þú gætir spurt að því hvað væri erfitt og hvað skemmtilegt við nýja systkinið. Ef eldra barnið sýnir afbrýðissemi skaltu fullvissa það um ást þína og spyrja hvort þú getir gert eitthvað fyrir það.

Til að byggja um gott samband á milli eldra barnsins og þess yngra er best að leyfa því eldra að taka þátt þegar þú sinnir yngra barninu. Passaðu þig bara á því að treysta ekki um of á eldra barnið sem eins konar barnapíu, því það getur fljótlega orðið íþyngjandi fyrir barnið. Hrósaðu eldra barninu þegar það kemur vel fram við það yngra eða sýnir því ást.

 Parents

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert