Tveimur konum var fórnað

Sara Danius, fyrrverandi ritari Sænsku akademíunnar, var orðvör við fjölmiðla …
Sara Danius, fyrrverandi ritari Sænsku akademíunnar, var orðvör við fjölmiðla að átakafundi loknum sl. fimmtudag. AFP

„Ég hefði gjarnan vilja halda störfum mínum áfram, en þetta er vilji akademíunnar og þess vegna kýs ég einnig að yfirgefa stól minn,“ sagði Sara Danius að loknum þriggja klukkustunda löngum átakafundi Sænsku akademíunnar (SA) í Börshuset í Stokkhólmi á fimmtudagskvöld þar sem Danius hætti umsvifalaust sem ritari. Samtímis dregur Katarina Frostenson sig út úr SA. Sara Stridsberg, sem sjálf hefur íhugað að hætta í SA, staðfestir við Dagens Nyheter að um málamiðlun var að ræða. „Samkomulagið fólst í því að Frostenson hætti störfum fyrir akademíuna, án þess að segja sig formlega úr henni, ef Danius hætti sem ritari,“ segir Stridsberg. Fjallað er um málið í ítarlegri fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. 

Hefur kóngur vald til að breyta?

Með brotthvarfi Danius og Frostenson eru alls sjö af 18 sætum SA auð. Sökum þess að fulltrúar eru skipaðir ævilangt af Svíakonungi samkvæmt kosningu SA sjálfrar verður ekki hægt að fullmanna SA um ókomin ár nema Karl XVI. Gústaf breyti stofnsáttmálanum með konunglegri tilskipun, en að mati lögmannsins Peters Fröberg Idling er alls ekki sjálfgefið að kóngur hafi slíkt vald, enda sé enga slíka heimild að finna hvorki í sænsku stjórnarskránni né öðrum lögum landsins. Samkvæmt núgildandi reglum SA þarf 12 atkvæði sitjandi fulltrúa til að taka allar meiri háttar ákvarðanir, svo sem að kjósa inn nýtt fólk.

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í Morgunblaðinu síðustu vikuna má rekja það ófremdarástand sem nú ríkir innan SA, sem ár hvert veitir Nóbelsverðlaunin, til ásakana þess efnis að Jean-Claude Arnault, eiginmaður Frostenson, hafi í nokkra áratugi áreitt fjölda kvenna kynferðislega, ítrekað lekið nafni komandi Nóbelsverðlaunahafa og átt óeðlileg fjárhagsleg tengsl við SA, sem styrkti m.a. bókmenntaklúbbinn Forum sem Arnault og Frostenson hafa rekið. Í úttekt sem lögfræðistofan Hammarskiöld & Co vann fyrir SA var mælt með því að Arnault yrði kærður til lögreglunnar, en ekki reyndist meirihluti fyrir því innan SA. Í framhaldinu krafðist hluti SA þess að Frostenson yrði vikið úr SA, en þegar atkvæðagreiðslan féll henni í vil ákváðu þrír fulltrúar SA að hætta störfum 6. apríl. Um miðja síðustu viku fundaði stuðningsarmur Frostenson um hvort Danius nyti enn trausts þeirra sem ritari SA, en að sögn sænskra fjölmiðla var Danius meðal þeirra sem vildu að Frostenson hætti hjá SA.

Katarina Frostenson, eiginkona Jean-Claude Arnault, hefur valið að tjá sig …
Katarina Frostenson, eiginkona Jean-Claude Arnault, hefur valið að tjá sig ekki um brotthvarf sitt úr Sænsku akademíunni. Frostenson var kosin inn í akademíuna árið 1992 og hlaut stól númer 18. Arnault, sem verið hefur mjög valdamikill í sænsku menningarlífi, hefur í gegnum tíðina talað um sjálfan sig sem 19. fulltrúa akademíunnar. AFP

Danius neydd til að hætta þegar hún ætlaði að hreinsa til

Enn er óljóst hver tekur við sem nýr ritari SA, en Anders Olsson hefur yfirtekið starfsskyldur Danius. Í viðtali við P1 Morgon hjá Sænska útvarpinu í gærmorgun sagði Olsson að reynt yrði að telja Danius og þá aðra fulltrúa sem hætt hafa á síðustu dögum á að snúa aftur til starfa, en að Frostenson ætti ekki afturkvæmt fyrr en eftir einhver ár. Sagði hann hugmyndina að málamiðluninni hafa kviknað í samtali sínu við Svíakonung síðasta þriðjudag. Því mótmælir Johan Tegel, upplýsingafulltrúi hirðarinnar, og segir konung engan þátt hafa átt í niðurstöðunni.

Sænska skáldkonan Katarina Wennstam gagnrýnir harðlega þá meðferð sem Danius hefur fengið innan SA, en Horace Engdahl, fyrrverandi ritari SA, lét í vikunni hafa eftir sér að Danius væri versti ritari og talsmaður SA frá stofnun hennar 1786.

Í færslu á Instagram-síðu sinni bendir Wennstam á að þrír karlmenn innan SA, sem gegnt hafi starfi ritara á síðustu áratugum, hafi allir haft upplýsingar um óviðurkvæmilegt framferði Arnault en valið að hunsa það og þess í stað hampað honum með medalíum og fjárstuðningi. Þess má geta að Anna-Karin Bylund hefur upplýst að hún sendi Sture Allén, þáverandi ritara SA, bréf fyrir um 20 árum þar sem hún lýsti því ofbeldi sem Arnault beitti hana. Þegar Danius (sem fyrst kvenna gegndi stöðu ritara) reynir að hreinsa „skítinn er hún sjálf neydd til að hætta,“ skrifar Wennstam og bendir á að erfitt sé að útskýra fyrir umheiminum þá kvenfyrirlitningu sem birtist í framferði framangreindra karla, en margir hafa haft áhyggjur af því að deilan varpi rýrð á eitt virtasta og elsta vörumerki Svíþjóðar.

Smánarblettur fyrir akademíuna

„Tveimur konum var fórnað, einni fyrir aðra. Þetta er smánarblettur fyrir akademíuna sem ekki er hægt að þvo burt,“ segir Per Wästberg, sem situr í SA, við SvD. Ebba Witt-Brattström bókmenntaprófessor segir mikla eftirsjá að Danius sem hafi verið boðberi nýrra tíma og breytinga. „Akademían missir með þessu af sögulegu tækifæri. Þetta er upphafið að endalokunum,“ segir Witt-Brattström í Morgonstudion.

Í sjónvarpsþættinum Opinion Live á SVT sagði Engdahl að fimmtudagsfundinum loknum að Svíakonungur hefði veitt mikilvægan stuðning. „Hann lagði áherslu á að krísan yrði leyst fljótt og það hvatti okkur til þess að finna þessa lausn mála,“ sagði Engdahl sem treystir því að kóngur leysi nú stöðuna sem upp sé komin.

Í yfirlýsingu sem Sara Danius sendi frá sér síðdegis í gær sagði hún að SA ætti að beita afli sínu til að vinna gegn kvenfyrirlitningu. „Ekki eru allar hefðir þess virði að varðveita,“ skrifaði Danius jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst kannski að einhver í vinnunni sé að segja þér ósatt og líklega er það rétt mat hjá þér. Mundu að þú ert sjálfur gæddur þeim hæfileikum sem duga þér til árangurs.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst kannski að einhver í vinnunni sé að segja þér ósatt og líklega er það rétt mat hjá þér. Mundu að þú ert sjálfur gæddur þeim hæfileikum sem duga þér til árangurs.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir