Mál leigubílstjórans til skoðunar hjá Samgöngustofu

Leigubílaþjónusta | 20. febrúar 2024

Mál leigubílstjórans til skoðunar hjá Samgöngustofu

Samgöngustofa hefur óskað eftir staðfestum upplýsingum frá lögreglu um leigubílstjórann sem grunaður er um nauðgun í byrjun febrúar. 

Mál leigubílstjórans til skoðunar hjá Samgöngustofu

Leigubílaþjónusta | 20. febrúar 2024

Mál leigubílstjórans á borði samgöngustofu.
Mál leigubílstjórans á borði samgöngustofu. Samsett mynd

Samgöngustofa hefur óskað eftir staðfestum upplýsingum frá lögreglu um leigubílstjórann sem grunaður er um nauðgun í byrjun febrúar. 

Samgöngustofa hefur óskað eftir staðfestum upplýsingum frá lögreglu um leigubílstjórann sem grunaður er um nauðgun í byrjun febrúar. 

Þetta staðfestir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu.

Skoða heimildir sínar til leyfissviptingar 

Til útskýringar segir Þórhildur að málið sé til skoðunar hjá Samgöngustofu í samhengi við ný lög um leigubifreiðaakstur sem tóku gildi þann 1. apríl á síðasta ári. Þó lögin séu nýleg þá segir Þórhildur að ákveðin reynsla sé að fást af þeim.

Hún segir þetta mál þó af þeirri stærðargráðu að það sé að sjálfsögðu skoðað sérstaklega. 

„Við erum að kanna okkar heimildir í þessum nýju lögum, hversu langt okkar heimildir ná til að bregðast við með skýrum hætti,“ segir Þórhildur.

Samkvæmt heimildum mbl.is er Samgöngustofa að skoða heimild er varðar 16. grein laganna þar sem fjallað er um leyfissviptingu leyfishafa. 

Skoða þarf heimild til upplýsingagjafar 

Spurð hvort Samgöngustofa hafi upplýsingaskyldu gagnvart þeim leigubifreiðastöðvum sem leigubílstjórar keyra fyrir, þegar mál sem þetta kemur upp, kveðst Þórhildur ekki geta svarað því.

Hún segir þó hvorki fjallað um slíkt í lögum eða reglugerð og því sé heimild til upplýsingagjafar eitthvað sem þyrfti að skoða. 

Hún segir málið flókið þar sem leigubílstjórar þurfi ekki að starfa fyrir leigubifreiðastöð til að mega aka leigubifreið og því starfi þeir ekki endilega fyrir aðra en sjálfa sig. Um er að ræða breytingu sem tók gildi með nýju lögunum og hefur sætt nokkurri gagnrýni. 

Leigubílstjóri má ekki hafa fengið dóm fyrir kynferðisafbrot

Þórhildur segir margt gott sem fylgdi nýju lögunum og nefnir sem dæmi heimild Samgöngustofu til að óska eftir gögnum frá lögreglu og ákæruvaldinu þannig að stofnunin geti fylgt sínu eftirlitshlutverki. 

Þá segir hún að umsækjendur þurfi að uppfylla ýmis skilyrði og nefnir sem dæmi að þeir sem sækist eftir leyfi til að aka leigubifreið þurfi að skila inn hreinu sakarvottorði. Í því samhengi segir Þórhildur skýrt að þeir sem hafi fengið dóm fyrir kynferðisafbrot fái ekki leyfi. 

Nýta reynslu af lögunum til endurskoðunar 

Þórhildur áréttar að í lögum um leigubifreiðaakstur sé kveðið á um að lögin skuli endurskoðuð með tilliti til reynslu af þeim breytingum á regluumhverfi leigubifreiða sem lögin fela í sér.

Skal þessi endurskoðun vera hafin eigi síðar en 1. janúar 2025 og segir Þórhildur að Samgöngustofa muni nýta þá reynslu sem safnast hefur af framkvæmd laganna í undirbúningsvinnu með ráðuneytinu við endurskoðun þeirra.

mbl.is