Fyrrverandi liðsmaður FBI dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir njósnir

Robert Hanssen.
Robert Hanssen. AP

Bandarískur alríkisdómari dæmdi í dag fyrrverandi njósnara bandarísku alríkislögreglunnar, Robert Hanssen, til lífstíðarfangelsis án möguleika á reynslulausn. Hanssen var dæmdur sekur um að hafa stundað njósnir fyrir rússnesk yfirvöld. Hanssen, sem er 58 ára, þakkaði fjölskyldu sinni, vinum og samstarfsmönnum, sem hafa stutt hann.

„Örlæti ykkar, vinsemd og góðvild ykkar gerir mig auðmjúkan," sagði Hanssen við viðstadda í réttarsalnum en í þeim hópi voru margir af hans fyrrverandi kollegum hjá FBI. Málið hefur skaðað FBI og þykir benda til þess að öryggismálum stofnunarinnar sé mjög ábótavant. „Ég biðst afsökunar á hegðun minni. Ég skammast mín fyrir hana," sagði Hanssen ennfremur við dómarann. Þá sagðist Hanssen iðrast þess hve mjög hann hefði sært eiginkonu sína og börn með málinu. Áður en refsingin yfir Hanssen var úrskurðuð sagði Randy Bellows aðstoðarríkissaksóknari að Hanssen hefði svikið öll þau stóru loforð sem hann hefði gefið. Hann hefði tekið mikilvægustu leyndarmál þjóðarinnar og notað þau í persónulegu gróðrasjónarmiði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert