75% af vesturströnd Súmötru í rúst eftir jarðskjálfta og flóðbylgjur

Markaður í Aceh sem eyðilagðist í hamförunum á sunnudag.
Markaður í Aceh sem eyðilagðist í hamförunum á sunnudag. AP

Hershöfðingi í her Indónesa segir að um 75% strandlengjunnar á eyjunni Súmötru á vesturströnd Indónesíu hafi eyðilagst af völdum jarðskjálfta og flóðbylgna þar á sunnudag. „Skemmdirnar eru gríðarlega umfangsmiklar,“ sagði Endang Suwarna, hershöfðingi í Aceh-héraði, en hann ferðaðist um ströndina í þyrlu í dag.

„75% vesturstrandarinnar eru rústir einar og á sumum stöðum er eyðileggingin 100%. Þetta fólk er einangrað og við munum reyna að veita því hjálp,“ sagði hann.

Svæðið í kringum fiskiþorpið Meulaboh, þar sem búa um 40.000 manns, varð verst úti af völdum jarðskjálftans á sunnudag. Skjálftinn mældist 9 á Richter.

Alls fórust meir en 60.000 manns í mörgum löndum af völdum flóðbylgna sem fylgdu í kjölfar skjálftans.

Fréttamenn frá AP-fréttastofunni flugu frá bæ til bæjar á vestursrönd Indónesíu í dag og sáu þorp sem voru þakin aur og sjó. Þök flestra húsa höfðu rifnað af eða húsin höfðu jafnast við jörðu í hamförunum. Lítið lífsmark var að sjá í þorpunum, aðeins nokkrir þorpsbúar sáust leita að mat á ströndinni.

Mjög erfitt hefur verið að komast að svæðinu frá landi og sjó, en fórnarlömb hamfaranna sem náð hafa að komast í öruggt skjól hafa lýst miklum hörmungum á svæðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert