Blair ekki heim úr fríi þrátt fyrir hamfarir í Asíu

Beðið fyrir fórnarlömbum hamfaranna í Jakarta í Indónesíu. Meira en …
Beðið fyrir fórnarlömbum hamfaranna í Jakarta í Indónesíu. Meira en 36.000 Indónesar fórust þar í landi. AP

Breska ríkisstjórnin varði í dag þá ákvörðun Tony Blair, forsætisráðherra landsins, að snúa ekki heim úr jólafríi í Egyptalandi, þrátt fyrir hamfarirnar í Suðaustur-Asíu, sem orðið hafa tugum þúsunda að bana, þar á meðal á þriðja tug Breta svo staðfest sé. Bresk stjórnvöld segja að Blair hafi þurft á hvíld að halda og að engin ástæða hafi verið fyrir hann að snúa heim.

„Forsætisráðherrann á rétt á hvíld því hann er venjulega á vakt dag og nótt,“ sagði Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands í samtali við BBC. „Við hin erum, að ég tel, fullfær um að bregðast við,“ bætti hann við.

Straw sagði að hann, Hilary Benn, ráðherra alþjóðlegra þróunarmála og John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra hefðu öll snúið til starfa úr jólafríi eftir hamfarirnar á sunnudag. „Í raun er ekkert sem hann (Blair) getur gert með beinum hætti sem ekki hefur þegar verið gert,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert