Skandinavísk fyrirtæki hvött til að láta fé renna til aðstoðar á hamfarasvæðum í Asíu

Taílensk kona grætur eftir að hafa borið kennsl á lík …
Taílensk kona grætur eftir að hafa borið kennsl á lík eiginmanns síns í Phang-Nga héraði í suðurhluta Taílands í dag. AP

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur verið farið fram á aukið fjármagn og aðstoð vegna hamfaranna í suðurhluta Asíu um helgina. Eru fyrirtæki og almennir borgarar meðal annars hvattir til þess að láta fé af hendi rakna til hjálparstarfs. Óljóst er um afdrif um 2.700 Norðurlandabúa sem þar voru staddir.

Norræna flugfélagið SAS ætlar að mynda loftbrú milli Taílands og Kaupmannahafnar til að sækja norræna ferðamenn sem eru í Taílandi. Verður 13 vélum félagsins flogið frá flugvöllum í Ósló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn til Bangkok og Phuket en þangað fara þær hlaðnar hjálpargögnum.

Danski Rauði krossinn sagði að frá því í gær hefðu borist fjárframlög upp á 3,3 milljónir danskra króna, eða 37,42 milljónir íslenskra króna frá einkaaðilum. „Þetta er ótrúlegt. Við höfum aldrei fengið jafn mikil fjárframlög á svo skömmum tíma,“ segir Ulrik Jörgensen, talsmaður danska Rauða krossins.

Norska Rauða krossinum hafa einnig borist mikil framlög. Hefur stofnunin fengið 1,5 milljón norskra króna, eða um 15,2 milljónir íslenskra króna, undanfarna tvo daga. Tilkynnti norski Rauði krossinn að fyrirtækin Statoil, Telenor og Veritas í Noregi hefðu hvort um sig gefið sömu upphæð. „Við hvetjum önnur fyrirtæki til þess að gefa eins og þau geta,“ sagði Miklos Konkoly-Thege hjá Veritas í Noregi.

Sænska sjónvarpsstöðin TV4 hyggst um helgina halda símasöfnun til styrktar starfi Rauða krossins á hamfarasvæðunum.

mbl.is/AP
mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert