Vill hafa ungan ráðgjafa sér við hlið

Sr. Guðrún Karls Helgu­dótt­ir var kjörin nýr biskup Íslands. Hún …
Sr. Guðrún Karls Helgu­dótt­ir var kjörin nýr biskup Íslands. Hún mun taka við embættinu af Agnesi M. Sigurðardóttur. mbl.is/Arnþór

Sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur langar að leiða kirkju sem er í sókn. Kirkju sem er stolt af því sem hún hefur fram að færa, sækir fram og er hluti af samfélaginu og kirkju sem er í samtali við samtímann á sama tíma og hún er stolt af sínum hefðum og sögum. 

Guðrún var í dag kjörinn biskup Íslands og tekur hún við embættinu af Agnesi M. Sigurðardóttur þann 1. september. Í tilefni þess var henni boðið að hitta starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar á Biskupsstofu í Grensáskirkju fyrr í dag þar sem Agnes tók vel á móti henni með blómvendi í biskupslitunum. 

Sr. Guðrún Karls Helgu­dótt­ir var kjörin nýr biskup Íslands. Hún …
Sr. Guðrún Karls Helgu­dótt­ir var kjörin nýr biskup Íslands. Hún mun taka við embættinu af Agnesi M. Sigurðardóttur. mbl.is/Arnþór

Kirkjan þurfi að vera sýnilegri í samfélaginu 

„Þetta leggst virkilega vel í mig,“ segir Guðrún sem kveðst langa til að leiða kirkju í sókn og kirkju sem er stolt af því sem hún hefur fram að færa. Spurð hvort langt sé í land í þeim efnum svarar Guðrún: 

„Nei ég held að það sé alls ekki langt í land vegna þess að kirkjan hefur þetta allt. Kirkjan er svo blómleg og blómstrandi um allt land, en við þurfum að vera enn duglegri að birta það og vera sýnilegri í samfélaginu.“

Þá bendir Guðrún á að 90% kjósenda hafi tekið þátt í biskupskosningunum og segir það nær sögulegt. 

„Það þýðir augljóslega að það er mikill áhugi á kirkjunni meðal að minnsta kosti þeirra sem henni tilheyra.“ 

Þurfa að ná betur til unga fólksins

Er einhver ákveðinn hópur sem þarf að ná betur til en annar?

„Sá hópur sem við þurfum alltaf að ná betur til er unga fólkið. Það er alltaf markmið kirkjunnar að leggja sig fram um að ná til unga fólksins vegna þess að unga fólkið er framtíðin, en þau eru ekki síður nútíminn og við þurfum alltaf að hafa unga fólkið með ef við ætlum inn í framtíðina.“ 

Spurð hvort hún sjái fyrir sér leiðir til þess kveðst hún hafa í huga ýmsar leiðir en áréttir jafnframt að kirkjan sé að að gera ótrúlega margt gott og því þurfi að halda áfram þeirri vegferð.

„Ég sé fyrir mér til dæmis bara það að biskupinn hafi sér við hlið unga ráðgjafa. Fólk sem að er í tengslum við samtímann og mun ráðleggja biskupi um framtíðina. Það er jafnframt mikilvægt að ungt fólk fái að taka ábyrgð í kirkjunni, fái að taka þátt í lýðræðinu og leiða kirkjuna, ekki bara vera þiggjendur,“ segir Guðrún enn fremur um þær leiðir sem hún hefur í huga til að ná til unga fólksins. 

Vill vera sýnileg og aðgengileg 

Eitt af því sem Guðrún sér fyrir sér að gera í starfi biskups er að fara reglulega út á landsbyggðina. Spurð hvernig hún sjái það fyrir sér svara hún: 

„Ég sé fyrir mér að biskup verði eina viku á ári í hverjum landshluta. Þetta eru sem sagt fimm staðir á ári þar sem biskup yrði með skrifstofu í eina viku,“ segir hún og útskýrir að markmiðið með því sé að vera í samtali og tengslum við fólkið á svæðinu. 

„Það verður bara opinn viðtalstími og samtöl og þar með verða boðleiðirnar mögulega styttar þannig að fólk eigi enn auðveldar með að ná tengslum og fá samtöl við biskup. Það er annað við þetta líka og það er að þá fær biskup líka tækifæri til að kynnast enn betur kirkjulífinu á landsbyggðinni og sækja næringu til ólíkra safnaða og Kirkjubóls,“ segir Guðrún sem vill vera sýnileg og aðgengileg. 

Vonar að allt gangi upp hjá Guðrúnu 

Eins og fram kemur hér á undan tók Agnes vel á móti Guðrúnu á biskupsstofu í dag. Spurð hvernig henni litist á tilvonandi biskup svaraði Agnes að henni litist mjög vel á Guðrúnu. 

„Nú er kirkjan komin á nýjan stað frá því sem hún var þegar ég tók við í upphafi fyrir tólf árum þannig að Guðrún gengur inn í nýtt kerfi og skipulag hjá kirkjunni. Ég vona að það gangi allt upp og henni farnist vel í því.“

Spurð hvaða verkefni Agnes ætli að taka sér á hendur í september, þegar biskupsembættið verður formlega komið í hendur Guðrúnar, svarar hún kímin:

„Ég sé nú bara fyrir mér að lifa áfram ef ég held heilsu og lífi. Það er nú númer eitt. Ég er náttúrulega búin að vera í þjónustu kirkjunnar í 43 ár þannig að nú fæ ég kannski aðeins meiri tíma til að gera eitthvað annað en að vera í kirkjunni og kirkjunnar þjónustu.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert