Gulrætur veita vörn gegn krabbameini

Gulrætur eru bæði hollar og góðar.
Gulrætur eru bæði hollar og góðar.

Efni í gulrótum kann að minnka hættu á því að fólk fái krabbamein, samkvæmt niðurstöðum nýrrar breskrar rannsóknar. Hópur vísindamanna við háskólann í Newcastle í Bretlandi hefur komist að því að efni sem er nokkurs konar náttúrlegt meindýraeitur í gulrótinni og nefnist falcarinol minnkaði hættuna á krabbameini í rottum um þriðjung, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Þeir vonast til þess að uppgötvunin leiði til þess að ný kynslóð krabbameinslyfja verði þróuð. Einnig að þeir sem rækta gulrætur fái vísbendingar um hvernig þeir geta bætt framleiðsluna og gert hana hollari.

Greinin birtist í Journal of Agricultural and Food Chemistry.

Falcarinol er efni sem varnar því að sveppasýkingar leggist á gulrætur, t.d. lakkrísrotnun sem veldur því að svartir blettir myndast á rótum gulrótanna við geymslu. Vísindamennirnir ákváðu að rannsaka efnasambandið eftir að önnur rannsókn gaf til kynna að það gæti komið í veg fyrir myndun krabbameins.

Þeir gerðu prófanir á 24 rottum með æxli sem hafði forstigseinkenni krabbameins. Var þeim skipt í þrjá hópa, einn fékk gulrætur með fóðri sínu, annar fékk falcarinolbætt fóður en sá þriðji hefðbundið fóður. Eftir 18 vikur voru rotturnar í tveimur fyrstu hópunum þriðjungi ólíklegri til að vera komnar sem krabbamein en rotturnar í síðasta hópnum.

„Við vissum þegar að gulrætur væru hollar og gætu minnkað líkurnar á krabbameini en þar til nú höfum við ekki vitað hvers vegna þær hafa þessa eiginleika,“ sagði dr. Kirsten Brandt, ein vísindamannanna. „Við þurfum nú að ganga skrefi lengra og komast að því hversu mikið af falcarinoli þarf til að koma í veg fyrir myndun krabbameins og hvort sumar tegundir af gulrótum eru betri en aðrar, þar sem þær eru til í mörgum gerðum, eru misstórar, mismunandi í laginu og mismunandi á litinn.“ Vísindamennirnir telja að efnið örvi einhver varnarviðbrögð líkamans gegn krabbameinsmyndun.

Í rannsókninni voru aðeins notaðar hráar gulrætur svo ekki er ljóst enn hvort soðnar gulrætur eða gulrótarsafi hafi sömu áhrif. Brandt ráðleggur fólkið að borða eina gulrót á dag ásamt öðru grænmeti og ávöxtum. Falcarinol hefur eitrunaráhrif ef þess er neytt í miklu magni en til að hljóta banvænan skammt þarf að borða 400 kíló af gulrótum í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert