Sex mánuðir liðnir frá náttúruhamförunum í Asíu

Íbúar Aceh-héraðs í Indónesíu brjóta niður rústir húsa sinna til …
Íbúar Aceh-héraðs í Indónesíu brjóta niður rústir húsa sinna til að nýta efniviðinn til byggingar nýrra húsa, en myndin er tekin skömmu eftir hamfarirnar. AP

Næstkomandi sunnudag verður liðið hálft ár frá því að flóðbylgjurnar í Suður-Asíu tóku líf yfir 200 þúsund manna og skildu enn fleiri eftir hjálparþurfi. Í sameiginlegri tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum segir að forsvarsmenn ýmissa hjálparstofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða rauða krossins hafi komið saman í Genf í Sviss í morgun og fjallað um þann árangur sem náðst hefur og hvaða vandamál blasa við í dag. Sérstakur talsmaður og sendiboði SÞ á fundinum var Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna.

Clinton sagði á fundinum í morgun að þrátt fyrir mikla aðstoð við fórnarlömb flóðbylgjunnar, aðstandendur þeirra og við uppbyggingu í þeim löndum sem urðu illa úti þá sé mikið verk framundan. „Harmleikurinn tengdi heiminn nánum böndum,“ sagði forsetinn fyrrverandi. „Um tíma einbeittu sér allir að hjálparstarfinu án þess að velta fyrir sér þjóðerni, stjórnmálaskoðunum og öðru. Þrátt fyrir að mikið verk hafi unnist þá er gríðarlega mikið eftir,“ sagði Clinton og hvatti aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og hjálparstofnanir til að halda uppbyggingarstarfinu áfram. Sagði hann milljónir einstaklinga í löndunum þurfa á stuðningi að halda næstu árin.

Í tilkynningu Sameinuðu þjóðanna kemur m.a. fram að 2 milljónir fórnarlömba hamfaranna í Indónesíu, Sri Lanka og á Maldíveyjum hafi þurft á aðstoð að halda og að Sameinuðu þjóðirnar sjái rúmri milljón manns fyrir hreinu drykkjavatni á hverjum degi. Þá sjá ýmsar hjálparstofnanir milljón manns fyrir mat, hjúkrun og sálgæslu í mörgum landanna sem urðu verst úti í náttúruhamförunum.

Á næsta hálfa ári hyggjast Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar hjálparstofnanir reisa tugþúsundir húsa fyrir fórnarlömb hamfaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert