Tók eigið dráp upp

Eldhúshnífurinn sem maðurinn beitti við að myrða konu sína í …
Eldhúshnífurinn sem maðurinn beitti við að myrða konu sína í Stjørdal í ágúst 2022. Ljósmynd/Norska lögreglan

Maður sem myrti barnshafandi eiginkonu sína í Stjørdal í Noregi í ágúst 2022 hlaut í morgun sextán ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Þrændalaga. Auk dóms fyrir manndrápið var manninum dæmd refsing fyrir að hafa stytt konunni aldur að tveimur ungum börnum þeirra ásjáandi.

Þungavigtargagn ákæruvaldsins í málinu var hljóðupptaka sem konan gerði á síma sinn 26. ágúst 2022 og mátti þar heyra harðvítuga deilu þeirra þá um kvöldið. Var ákærða mjög uppsigað við að eiginkonan og börnin verðu sífellt meiri tíma heima hjá fjölskyldu konunnar en fyrr um kvöldið, þegar ákærði kom heim úr vinnu, hafði kona hans staðið þar ásamt systur sinni og móður.

Lét systir eiginkonunnar þá niðrandi ummæli falla um ákærða, án þess að nefna hann á nafn, og voru téð ummæli meðal þess er ákærði fann að í deilu þeirra. Á upptökunni má heyra ákærða þráspyrja eiginkonu sína hvort hún telji hann heimskan. Síðar heyrist hljóð sem ákæruvaldið ætlar að hafi myndast er eldhússkúffa með áhöldum er opnuð. Staðfesti ákærði það við aðalmeðferð málsins.

Öskur og barnsgrátur

„Ætlarðu að svara mér núna?“ heyrist ákærði í framhaldinu spyrja konuna fullum hálsi og mun þá hafa borið drápsvopnið í hendi sér, eldhúshníf með 20 sentimetra löngu blaði.

„Já, ég ætla mér að vera eiginkona þín áfram. Ekki láta þér detta annað í hug,“ svarar konan honum og urðu það hennar andlátsorð.

Á upptökunni má því næst heyra há öskur og barnsgrát en konunni tókst að komast út á stigagang fjölbýlishúss, er fjölskyldan bjó í, eftir að hafa hlotið fjögur stungusár á hálsi. Þar hneig hún niður. Á upptökunni má greina rödd nágranna sem hringir í neyðarlínuna.

Ummerkin á vettvangi ódæðisins við rannsókn tæknideildar lögreglu.
Ummerkin á vettvangi ódæðisins við rannsókn tæknideildar lögreglu. Ljósmynd/Norska lögreglan

Þrátt fyrir að sjúkrabifreið kæmi svo fljótt sem verða mætti á vettvang blæddi konunni út og varð lífi hennar ekki borgið. Ákærði tók börnin tvö með sér og ók rakleiðis til lögreglustöðvarinnar í Stjørdal sem þá hafði lokað þann daginn.

Þar sem hann var staddur fyrir utan stöðina hringdi hann í símanúmer lögreglunnar sem svarað  var á næstu vakthafandi varðstofu og heyrist á upptöku, sem lögð var fram við réttarhöldin, segja „Ég hef myrt konuna mína.“

Upptakan vendipunktur

Sími fórnarlambsins var meðal gagna málsins og fannst hljóðupptakan í honum við rannsókn málsins. Þó ekki fyrr en á síðari stigum hennar. Ákærði viðurkenndi ekki sök í málinu og stóð við þá sakarafstöðu sína en er upptakan var leikin fyrir hann í mars á þessu ári fékk hann ekki rönd við reist og játaði á sig verknaðinn.

Við réttarhöldin greindi fjöldi vitna, þar á meðal starfsfólk sveitarfélagsins, frá því að konan hefði viljað skilja við mann sinn. Hefði hún þó lagt á það áherslu að halda þessu leyndu fyrir manni sínum af ótta við afleiðingarnar.

Neitaði ákærði við réttarhöldin að hafa verið konu sinni ótrúr og eins kvaðst hann enga vitneskju hafa haft um að hún hefði verið með barni og verið gengin tólf vikur. Þremur dögum áður en voðaatburðurinn varð í ágúst 2022 bað konan mann sinn þó að aka með hana til Levanger í meðgönguskoðun og spurði hann þá hvort hún gæti ekki tekið lestina en vitni greindu frá frásögn konunnar af samtalinu.

Ótti síðustu mínútur lífsins

Taldi héraðsdómur sekt ákærða sannaða að fullu og ætti hann sér engar málsbætur. Þvert á móti hefði háttsemi hans fremur horft til refsiþyngingar. Ákærði hefði engar tilraunir gert til þess að veita konu sinni fyrstu hjálp eftir að hann stakk hana en sérfróð vitni fyrir héraðsdómi útilokuðu ekki að lífi hennar hefði mátt bjarga.

Þá hafi ung börn ákærða og eiginkonu hans orðið vitni að ódæðinu, á því leiki enginn vafi. Hafi konan látið líf sitt með þá vitneskju auk þess að hafa verið ólétt af þriðja barninu. Ótti hennar um afkomu barnanna og framtíð hafi þyngt henni síðustu mínútur lífs hennar.

Auk sextán ára fangelsisdóms dæmdi héraðsdómur ákærða til að greiða börnunum tveimur til samans fjórar milljónir króna, jafnvirði rúmlega 51 milljónar íslenskra króna.

NRK

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert