Flóð víða í Evrópu

Myndin var tekin í Belgíu í morgun.
Myndin var tekin í Belgíu í morgun. AFP/Bruno Fahy/Begla

Úrfelli á meginlandi Evrópu hefur leitt af sér flóð í Þýskalandi, Belgíu og Hollandi. Rýma þurfti ákveðin svæði sökum flóðahættu. 

Björgunaraðgerðir og tiltekt í kjölfar flóðanna standa nú yfir. Engin tilkynning hefur borist um andlát í tengslum við flóðin, en að minnsta kosti einn er særður.

Kanslarinn heimsótti héraðið

Saarland-hérað í suðvesturhluta Þýskalands hefur komið einstaklega illa út úr flóðunum og lokað hefur verið fyrir rafmagn til bæjarins Quierscheid. 

Kanslari Þýskalands, Olaf Scholz, heimsótti héraðið fyrr í dag og hrósaði björgunaraðgerðum og hét fórnarlömbum flóðsins aðstoð. 

Séð yfir borgina Saarbruecken. Eftir úrfellið flæddi úr ánni Saar …
Séð yfir borgina Saarbruecken. Eftir úrfellið flæddi úr ánni Saar og yfir nærliggjandi umferðargötu. AFP/Laszlo Pinter

Um 850 björgunarsveitarmenn á vegum ríkisins voru sendir til Saarland-héraðs til þess að aðstoða við björgunaraðgerðir, en þar voru þúsundir, margir hverjir sjálfboðaliðar, þegar að.

Þá segir ríkisstjóri Saarland-héraðs, Anke Rehlinger, að ekki sé búið að gera skil á umfangi skemmdanna en hún vænti þess að þær væru umtalsverðar.

Þessi mynd var tekin í þýska þorpinu Kleinblittersdorf í dag.
Þessi mynd var tekin í þýska þorpinu Kleinblittersdorf í dag. AFP/Iris Maria Maurer

Um hundrað beiðnir um aðstoð í Liege-héraði í Belgíu hafa borist yfirvöldum og ríkisstjóri héraðsins, Herve Jamar, segir að um 150 slökkviliðsmenn hafi verið kallaðir út. 

Í hollenska-héraðinu Limburg þurfti að rýma tvö tjaldstæði sökum flóðahættu og í norðausturhluta Frakklands nærri ánni Moselle var varað við flóðahættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert